Framkvæmdasjóður Íslands

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 17:19:00 (3131)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Þegar Alþingi Íslendinga tók upp þá skipan að hér skyldi starfað í einni deild höfðu farið fram miklar umræður í báðum deildum þingsins um það hvort það væri skynsamlegt. Í efri deild var verulegri málsvörn haldið uppi fyrir því að hafa tvær deildir og sá sem hér stendur var ekki trúaður á að það loforð stæðist um vandaðri vinnubrögð í nefndum. Satt best að segja hefur þessi dagur verið hrollvekja hvað það snertir.
    Ömurlegt er til þess að vita að búið er að hirða síurnar úr þinginu. Og fyrrv. hæstv. landbrh. minnist nú helst þeirra ræða sem hann hlustaði á í efri deild. Ég verð að segja eins og er að þegar formaður efh.- og viðskn. gefur þá lýsingu á vinnubrögðum í nefndinni að menn séu kallaðir fyrir, brýnt fyrir þeim að vera stuttorðir, númer eitt að vera stuttorðir því að þeir eigi að hypja sig út eftir stuttan tíma --- innskot frá þeim sem hér stendur --- en miklu kurteislegra orðalag að sjálfsögðu notað af starfandi formanni. Aðalatriðið sé að vera stuttorður. Nefndarmenn bera hendur fyrir höfuð sér og reyna að vera stuttorðir. En þeir eru allir í því að reyna að verja að þetta verði ekki gert og þess vegna fara þeir ekki út í að lýsa hverjar afleiðingarnar verði ef menn sigli nú fram af og útskýra ekkert að það geti kostað brotlendingu. En það er upplýst að menn eru að fjalla um tugi milljarða og ég er hér um bil viss um að það hefur farið fram virðulegri umræða í bæjarstjórn Garðabæjar þegar taðhúsagjaldið var lagt á sem hæstv. umhvrh. er búinn að gera að reglugerð. ( Gripið fram í: Hvað er það?) Taðhúsagjald. En ég vil nú ekki reyna svo á þolinmæði hæstv. forseta að ég fari að lýsa því mjög náið.
    Hér eru menn að fjalla um slíkar upphæðir að það er hreinasta skop að hlusta á lýsinguna á því hvernig staðið sé að nefndarstörfum. Svar vantar við einu atriði sem er aðalatriðið varðandi það hvaða afleiðingar þetta geti haft fyrir sjóðinn í sambandi við lausafé. Það er svar við því hvort ákvæðunum í skuldabréfunum verði e.t.v. beitt þar sem heimildin er til staðar að óska eftir gjaldfellingu ef sjóðurinn er gjaldþrota. Ekkert skrýtið. Það er reglan ef einhver verður gjaldþrota að þá er gengið að og allir heimta sitt. Ákvæðin eru í skuldabréfunum. Það hlýtur náttúrlega að vera mjög freistandi. Sum þessi lán sem þarna

er um að ræða eru mjög hagstæð. Þau eru mishagstæð. Það hlýtur að vera freistandi fyrir þá aðila sem vildu gjarnan hafa betri kjör á sínum lánum og hafa lánað Íslendingum fé, að nota tækifærið. Þetta yrði náttúrlega tilkynnt um alla banka. Heitið á þessum sjóði er sennilega virðulegasti stimpillinn sem við höfum erlendis og höfum haft til þessa í lánaviðskiptum í skjalasöfnum erlendra banka. Hann hefur þótt það góður pappír að hann hefur verið notaður til þess að taka lán fyrir alla fjárfestingarsjóði Íslands megnið af þeim tíma sem hann hefur starfað. Til hvers? Til þess að fá betri kjör en aðrir áttu kost á. Það er söguleg staðreynd. Núna virðist það eiga að vera nokkurs konar lottó hvort snara þurfi þessum peningum út eða ekki. Ekki er skrýtið þó menn vilji leggja höfuðkapp á að yfirheyra menn með hraði í nefndinni. Þetta minnir þó nokkuð mikið á einu sinni kom maður utan af landi til okkar úti í fjvn. ( RG: Þingmaðurinn afflytur það sem ég sagði.) Það er nú vel ef það væri satt. Ég vil spyrja, hvað fengu mennirnir að vera lengi inni? ( RG: Hálftíma.) Hálftíma. Hálftíma umfjöllun um 26 milljarða. Ekki er skrýtið þó að þingmaður sé hreykinn af vinnubrögðunum. Það minnir á saumaklúbbsstarfsemi hvernig staðið er að afgreiðslu mála ef menn telja þetta virðulega afgreiðslu. (Gripið fram í.)
    Mig minnir að það hafi verið flokksbróðir viðkomandi formanns, kannski rétt að rifja það upp, sem lagði á sig þó nokkra ferð og taldi sig þurfa að koma erindi sínu á framfæri og barðist fyrir því hetjulega að fá þann tíma sem hann þurfti til að reka erindið. Þetta var ágætur sjálfstæðismaður utan af landi. Formaður rak svo á eftir honum að klára erindið að við vorum allir orðnir hálfaumir yfir þeirri hörku sem sett var í að ná aðalatriðinu frá manninum. Ég verð að segja eins og er að ömurlegt er til þess að vita ef ekki hefur heldur fengist svar við hinu atriðinu sem hlýtur að vera aðalatriði númer tvö á þessum hálftíma og það er: Var efh.- og viðskn. með betri hugmyndir en stjórnarmenn Framkvæmdasjóðs um það hvernig ætti að gæta eignanna, hvernig ætti að gæta laxeldisfyrirtækjanna sem sjóðurinn var búinn að leysa til sín? Hvað fór löng umræða í að meta hvernig standa ætti að þeirri gæslu? Er ætlunin að starfsmenn Lánasýslunnar fari á bílaleigubílum á flakk um landið þegar vorar til þess að skoða þessar eignir? Er ætlunin að selja þetta strax eða gefa? Hæstv. fjmrh. er nú ekki viðlátinn eins og er. Þetta er nú ekki stórt mál í hans augum. Kannski er búið að semja um að gefa þetta allt til flokksgæðinga Sjálfstfl. Kannski er það skýringin á því að unnið er svona hratt. Kannski er það skýringin á því að menn vilja að þessu sé úthlutað núna og sé svo metið á lægsta verðinu. Er stefnt að því? Á meðferðin að verða svipuð og á Útvegsbankanum? Ekki eru nú miklar upphæðir komnar í ríkissjóð fyrir þá sölu hjá viðskrh. Hitt er svo umhugsunarefni, sú pólitíska aftaka sem framkvæmd er á mönnum sem hafa komið nálægt þessu og rétt að fara yfir örfá nöfn. Kannski er rétt að byrja á hæstv. menntmrh. Ég man nú ekki betur en að hann hafi verið í Framkvæmdasjóði og Byggðastofnun. Ætli sé ekki rétt að færa sig svo yfir á landbrh.? Lýsingin á möguleikunum til laxeldis í Ólafsfirði var nú ekki dónaleg. Er verið að hengja hann líka?
    Þingflokksformanni Alþfl. er nú bara stillt upp, látinn dingla. Það er verið að ganga mjög tryggilega frá því að hann hafi í félagsskap með öðrum í stjórn Framkvæmdasjóðs verið valdur að því með óábyrgum hætti að moka út peningum til fiskeldis. (Gripið fram í.) Upplýst er af hæstv. fyrrv. landbrh. að fyrrv. formaður Sjálfstfl. hafi tekið stærstu áhættuna í fiskeldinu þegar seiðin voru sett á sem ekki var hægt að selja til Noregs. Kannski er í framhjáhlaupi bara verið að ganga frá því sem ekki var búið að ganga frá með hv. 1. þm. Suðurl. Það er kannski eitthvað sem var ógert í aðför að honum. En aðförin er snyrtileg. Þetta er svona blóminn úr því liði sem verið er að afgreiða. Ég geri mér að sjálfsögðu fulla grein fyrir því að hv. 4. þm. Reykv. hefur talað af myndugleik um möguleika á fiskeldi í landinu. Ef horft væri á áróðurshliðina efa ég að nokkur maður hér inni hafi flutt magnaðri ræður um möguleika í fiskeldi í landinu og um það hvaða skynsemi væri í því að fara í fiskeldi. Það er enginn hér inni sem veit ekki að þessi hv. þm. hefur meira vit á efnahagsmálum en allir aðrir sjálfstæðismenn sem hér eru til samans.
    Ég veit ekki til þess að þeir sem gera athugasemdir hafi skrifað mikið um efnahagsmál. Aftur á móti er spurning hvort þeir hafi lesið það sem hv. 4. þm. hefur skrifað,

það er svo annað mál. Nei, það er dálítið merkileg aðför sem verið er að framkvæma með þessum vinnubrögðum. Fyrst og fremst er verið að reyna að taka menn af lífi pólitískt með þeim vinnubrögðum sem hæstv. forsrh. setti á flot með fortíðarvandanefnd sinni. Það merkilega er það hlýtur að vera að samherjunum sem málið snýr. Hann kemur hinum ekki lengra en það að vera í stjórnarandstöðu. Það liggur ljóst fyrir. Andstæðingunum kemur hann ekki lengra en það að þeir eru í stjórnarandstöðu. En það er verið að tala um að nú þurfi að raða upp á nýtt í ráðherrastólana hjá ríkisstjórninni. Það gafst ekki of vel hér um árið þegar bara var skipt á milli. Þið munið eftir því. Þessi hrókering, sem var sett á stað, gafst ekki of vel. En verði farið í að skipta vakna náttúrlega möguleikar hjá ungum mönnum sem engin vopn hafa borið og aldrei komið blóðugir frá hildi, menn með hvít klæði og vel á sig komnir, nokkuð hreint mannorð til þess að gera, miðað við hina að minnsta kosti, stórskúrkana. Það hlýtur að vera mikill möguleiki hjá þessum mönnum að komast í ráðherrastóla ef það verður farið að raða upp á nýtt, enda eru sumir dreymnir á svipinn þegar þeir hugsa til þessa möguleika sem þarna eru e.t.v. að vakna. Skyldi engan undra.
    En sú aðferð að ráðast á eigin samherja og rústa þá er ekki ný. Hún hefur verið notuð af öllum valdhöfum, sem hafa náð völdum en verið hræddir um að þeir yrðu settir af aftur. Hver og einn einasti hefur gripið til þeirra vinnubragða að reyna að koma hinum neðar, auka muninn, tryggja stöðuna. Spurningin er aðeins þessi: Hvers vegna er hæstv. fjmrh. fjarverandi umræðuna? Er hugsanlegt að hæstv. fjmrh. meti það svo að með því að fá að ráðstafa líkunum geti hann keypt sér þann stuðning að það dugi til að halda sér í stólnum? Það er hugsanlegt og þess vegna sé honum ekki mjög órótt yfir þessu öllu saman. En athyglisvert er að hann skuli ekki berja í borðið og gera grein fyrir því að hin forsjála ríkisstjórn sé búin að ganga tryggilega frá því með því að senda sendimenn á fund þeirra banka sem Framkvæmdasjóður skuldar og búið sé að fá það staðfest að engin skuldabréf verði gjaldfelld. Maður á nú satt best að segja von á því að hann muni berja í borðið og gefa slíka yfirlýsingu. Þetta hafi kannski verið --- hvað eigum við að segja --- hliðarverk hjá hæstv. utanrrh. á ferðalögum að undanförnu. Eða þá þessi Ameríkuferð hin nýja hjá viðskrh. tengist þessu. Ekki er að fullu upplýst hvað hann hefur verið að gera. Nei. Hæstv. fjmrh. er fjarverandi, mjög tryggilega fjarverandi. Við megum kannski eiga von á því að þessir menn telji að hægt sé að geyma þetta svo tryggilega falið niðri í Lánasýslu, að hægt sé að geyma þessar ráðstafanir þannig að það síist ekki of hratt út hvernig þetta var gert, það sé kannski sett þokkalega hátt verð á eignirnar þegar þær eru seldar, greiðslukjörin verði á annan veg, kannski allt óverðtryggt, ekki vitum við það. En margt er í farvatninu ef þetta er skoðað og tilgangurinn að verið sé að verja hagsmuni ríkisins með þessu tiltæki, hagsmuni Íslendinga því að Íslendingar eiga sjóðinn, sá tilgangur fær ekki staðist vegna þess að þessir herrar hafa öll tök á því að setja þá menn yfir sjóðinn sem þeir treysta til þess að sjá um hann. En það er þetta opna form sem þeir þola ekki, það eru þessi tengsl við Alþingi Íslendinga varðandi upplýsingar sem þeir þola ekki í þessu sambandi.
    Ég er ekki jafnbjartsýnn maður og hv. 8. þm. Reykn. Hann lætur sig dreyma um að hægt sé að hafa vit fyrir ríkisstjórninni. Satt best á segja vandar hann sig í málflutningi við að koma því á framfæri með mjög skýrum rökum að skynsamlegt gæti verið að fresta nú atkvæðagreiðslunni og fá ákveðin svör. Það gæti verið skynsamlegt að hv. efh.- og viðskn. komi saman til fundar og átti sig betur á vissum þáttum sem ekki sé nú búið að vinna. Ég hef ekki nokkra trú á því að þessi röksemdafærsla beri árangur. Ég hef ekki trú á því satt best að segja að það sé út frá vitsmununum með hagsmuni íslenska ríkisins að leiðarljósi sem menn starfi í þessu máli, því miður. Það er hin kalda alvara að afstökustíllinn í uppsetningu mála með fortíðarvandanefndum og slíku minnir óneitanlega á stjórnarfar sem er á undanhaldi fyrir austan tjald en virðist vera í uppsiglingu hér á landi.