Framkvæmdasjóður Íslands

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 18:28:00 (3138)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég vil bara minna hæstv. forsrh. á það að í bréfi sem hann fékk 9. sept. frá stjórn Framkvæmdasjóðs, sem þeir undirrita Þórður Friðjónsson, Tómas Árnason og Benedikt Jóhannesson, stendur á bls. 3 að það sé einmitt ársreikningurinn sem skipti

sköpum í þeim efnum að hinir erlendu lánardrottnar geti gjaldfellt allt lánið. Ef ársreikningurinn sýni neikvæða stöðu, eins og hér stendur skýrt, þá séu beinar heimildir, stendur hér, fyrir lánardrottna til að gjaldfella lánið. Það er því ekki ég sem hef fundið þetta upp. Þetta er í formlegu bréfi til forsrh. Hann getur haft þá skoðun að hann geti gefið sér það. Hér er bara um allt of stórar upphæðir að ræða til að verjandi sé að bara gefa sér það. Það er satt að segja tiltölulega auðvelt og þarf ekki að taka mjög langan tíma, fáeina dag eða svo, að kynna sér formlega hver sé skoðun hinna erlendu lánardrottna í þessum efnum. Ég skil ekki af hverju menn vilja ekki gera það.
    Ég ætla ekki að ræða við hæstv. forsrh. um hverjir eigi sök í þessu máli á að hlutirnir séu komnir á þennan veg sem hæstv. forsrh. er alltaf að tala um. Ég vil bara benda honum á það --- þótt það sé alveg rétt að ég hef sýnt Sigurgeiri Jónssyni mikið traust og trúnað og meiri heldur en sá maður sem nú er utanrrh. í ríkisstjórn hæstv. forsrh. --- að svo vill nú til að þessi sami Sigurgeir Jónsson var einn af þremur stjórnarmönnum í stjórn Framkvæmdasjóðs Íslands allan þann tíma sem hæstv. forsrh. hefur gert að aðalgagnrýnisefni. Þær ákvarðanir, sem hæstv. forsrh. hefur hér verið að gagnrýna mjög harkalega, allt frá stefnuræðu sinni til þess andsvars sem hann veitti áðan, voru teknar af Sigurgeiri Jónssyni þegar hann var í stjórn Framkvæmdasjóðsins. Hann er einn hæstráðandi Lánasýslunnar þannig að með þessari ákvörðun er verið að fela honum áframhaldandi ráðslag með þessi mál. Það kann því vel að vera að hinir erlendu lánardrottnar skoði það einnig.
    Ég vil svo bara nota þetta tækifæri til að minna hæstv. forsrh. á það, eins og hér kom fram, að Sjálfstfl. hefur auðvitað viljað ganga miklu lengra á þessari braut. Hér í þessum stól stóð m.a. núv. menntmrh., að mig minnir 15. mars árið 1991, eftir að núv. forsrh. var orðinn formaður Sjálfstfl. og gerði þá kröfu fyrir hönd Sjálfstfl. að afgreitt yrði, áður en þingi lyki, frv. sem Matthías Bjarnason, Friðrik Sophusson og Sighvatur Björgvinsson fluttu um lánveitingar til fiskeldis. Það var eitt af fyrstu verkum núv. forsrh. í formannsstóli hjá Sjálfstfl. að knýja á um að meira fé yrði veitt með ríkisábyrgð til fiskeldis. Það var sá sem hér stendur, sem fjmrh., sem stoppaði þá vitleysu.