Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 21:40:00 (3155)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :

     Virðulegur forseti. Þetta er vissulega álitamál samkvæmt skattalögum sem ekki eru tök á að ræða til hlítar í stuttu máli eða gera sér grein fyrir á skammri stundu. Ég vil þó leiðrétta ónákvæmni í máli hæstv. fjmrh. Ríkisskattanefnd er ekki æðsti dómstóll landsins í skattamálum, það er æðsta úrskurðarstig innan framkvæmdarvaldsins. (Gripið fram í.) Hæstv. ráðherra hefur eftir sem áður heimild til að fara sjálfur með málið fyrir dómstóla. Ástæða væri til að inna hann eftir því hvort hæstv. ráðherra ætli sér ekki að taka þetta mál og flytja það fyrir almennum dómstólum til að láta reyna á lögfræðilega túlkun í þessu máli.
    Hvað varðar ummæli hæstv. heilbrrh. um að hér væri um að ræða svonefnda verðbreytingarfærslu, sem væri skjólið fyrir þessari gjörð, þykir mér það mjög affluttur skilningur skattalaga á verðbreytingarfærslu. Ég vil taka mér það leyfi, fyrst hv. þm. Halldór Ásgrímsson er ekki hér en hæstv. heilbrrh. eignaði honum þetta ákvæði og vildi þar með varpa ábyrgðinni yfir á hann, að segja það að ég tel ekki rök fyrir þessari fullyrðingu hæstv. heilbrrh.