Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 03:15:00 (3206)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Það er greinilegt að hæstv. forsrh. er orðinn mjög vanstilltur í salnum. Hann kemur upp og fer að saka menn um skrípaleik fyrir að hafa beðið með þessar umræður og þessar athugasemdir í tæpa tvo tíma. Hæstv. forsrh. veit ekkert hvað hann

er að tala um. Ég skal upplýsa hann um málið og vænti þess að hann dragi þá þær fullyrðingar sínar til baka.
    Hv. þm. Svavar Gestsson hóf þessa umræðu m.a. vegna þess að hann hefur deilt harkalega á heilbrrh. dögum saman og ekki fengið neitt svar. Loksins rétt fyrir miðnætti tekur heilbrrh. til máls. Það var ekki fyrr en að lokinni ræðu hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að hv. þm. Svavar Gestsson vissi að hæstv. heilbrrh. var farinn úr húsinu. Hann hafði enga hugmynd um það, ekki nokkra, og það er fjöldi þingmanna sem er vitni að því að málum var þannig háttað. Það er við fyrsta tækifæri eftir það, þegar hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sem var næstur á eftir hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur hefur lokið máli sínu, sem þetta kemur fram. Það var ekki tilkynnt af forsetastóli að heilbrrh. væri farinn. Menn urðu að hafa fylgst með hvíslingum hæstv. heilbrrh. við einstaka þingmenn í salnum til að vita að ráðherrann var farinn. Hæstv. forsrh. ætti nú að gæta tungu sinnar í þessum efnum. Og ef það er eitthvað, hæstv. forsrh., sem er skrípaleikur er það meðferð ríkisstjórnarinnar á þessu frv.
    Ég vil minna hæstv. forsrh. á að kröfugerð hans í desember, dagana fyrir jól, var að þingið lyki meðferð sinni á þessu máli á þremur klukkutímum. Það var krafa hæstv. forsrh. til stjórnarandstöðunnar fyrir jól og forsrh. hafði mjög þung orð um okkur suma í röðum stjórnarandstöðunnar sem vorum ekki reiðubúnir að afgreiða frv. á þremur klukkutímum fyrir jól. Ætli þessar þrjár vikur, nærri því, sem það hefur síðan tekið að vera með málið í þinginu eftir jól hafi ekki sýnt að málið var ekki tilbúið af hálfu ríkisstjórnarinnar? Hæstv. forsrh. mun síðan hafa sagt í kringum jólin að það mundu duga tveir dagar eftir jólin til að afgreiða málið, en þingið var varla komið saman þegar hann sendi sjálfur þingnefndinni þrjár blaðsíður af brtt. við frv.
    Ég vil taka undir það, sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sagði, að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, sem hæstv. fjmrh. sagði um fyrr í kvöld að hefði mjög glögga þekkingu á skattamálum, benti á nýja hlið varðandi þann lagatexta sem hér liggur fyrir og við sem vorum í salnum hlustuðu af mikilli athygli á þær ábendingar. Þær voru satt að segja þannig að sérhver ábyrgur ráðherra hlyti að leita af sér allan grun með lögfræðiáliti áður en hann léti samþykkja þann texta sem honum hefur verið bent á í þinginu að gæti verið þess eðlis að það væri engin lagastoð til þess að nokkrar tekjur kæmu í ríkissjóð á þessu ári á grundvelli þessa texta. Annað eins hefur gerst að í ráðuneytunum hafi verið gerð þau mistök að orða textann svo ógætilega að ekki sé hægt að byggja fyrirætlanirnar á þeim texta. Það hefur enginn ráðherra stigið hér í stólinn til að lýsa því yfir að þessar athugasemdir hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar séu ekki á rökum reistar. Ef þær verða ekki hraktar af hæstv. ráðherrum og greint frá því að þeir hafi álit lögfræðinga sem tryggi að þessi ákvæði sem snúa að heilbr.- og trmrh. muni skila tekjum blasir það a.m.k. við að lagalegur grundvöllur tekjuöflunarinnar er allur í uppnámi. Þess vegna vil ég beina því til hæstv. forsrh. hvort hann geti fullyrt það og nefnt þá lögfræðinga sem hafi fullvissað ríkisstjórnina um það að þessi lagagrundvöllur sé í lagi.
    Ég vil svo geta þess að lokum að formaður þingflokks Alþfl. hefur tjáð mér að það muni vera utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson sem gegni fyrir heilbrrh. Því er nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess að hann geti þá svarað þeim spurningum sem er ósvarað í umræðunni.
    Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, ítreka að það er nauðsynlegt að skýrt sé nánar hvernig eigi að halda hér áfram því það er óeðlilegt að halda fundum þannig að hér verði fundir í 17, 18 og 19 tíma með því háttalagi sem hér er og enn sérkennilegra er það að aðalforseti skuli ekki koma til viðræðna við þingmenn um gang mála í þinginu.