Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 03:26:00 (3210)

     Guðrún Helgadóttir (um þingsköp) :
     Hæstv. forseti. Ég hef að vísu ekki setið nema tólf þing og þetta mun vera það þrettánda, en ég man engin dæmi um annað eins vinnulag eins og hér viðhefst.

    Nú hefur verið mikið rætt um fjarveru hæstv. heilbrrh. Ég hélt honum fyrr í kvöld hjartnæma afmælisræðu og sakna hans ekkert vegna þess að ég held að fjarvera hans skipti hér engu máli. Fundur hófst í morgun klukkan tíu. Nú er klukkan hálffjögur að nóttu. Þó hæstv. heilbrrh. væri hér í allri sinni dýrð hef ég enga orku lengur til að tala við hann. Ég er farin að hafa áhyggjur af pottaplöntunum mínum.
    Þessu verður auðvitað einhvern veginn að ljúka. Ég skil einfaldlega ekki hvað er að gerast. Ég gekk hérna fram fyrir og kannaði hversu margir þingmenn eru í húsinu. --- Ég bið hæstv. menntmrh. að trufla ekki nýliðann, hæstv. forsrh. Ég get nefnilega upplýst hann um að hann hefur hér engin völd. Stjórnarandstaðan er hér, 18 manns. Stjórnarliðar eru 23. Við getum ósköp einfaldlega farið með góðri samvisku og þá hefur hæstv. ríkisstjórnin ekkert vald lengur til að samþykkja eitt eða neitt. Svo heldur hæstv. forsrh. að hann geti komið hér og þanið sig!
    Sú venja hefur viðhafst hér á hinu háa Alþingi, eins og hæstv. menntmrh. veit, að hæstv. þingforseti, hæstv. forsrh. og formenn þingflokka hafa talað sig saman og samið um gang þingmála. Hér lyftir ekki nokkur maður litla fingri til slíks heldur erum við látin sitja hér og við höfum ekki hugmynd um hvað við eigum að vera hér lengi. Ég segi fyrir mig og get upplýst að ég er á mælendaskrá: Mér væri ekkert ljúfara en að draga mig til baka ef það skyldi stytta þennan fund, enda við engan að tala og satt best að segja er ég ekki slíkur mælskusnillingur að mér farist að vera að tala á 18. eða 19. vinnutíma svo ég væri alveg tilbúin til að sleppa því. En ég hlýt að upplýsa hæstv. verkstjóra hinnar nýju ríkisstjórnar, hæstv. forsrh., að hann á það undir hv. þm. hvort þessari endaleysu lýkur þannig að Alþingi sé sæmandi. Hann er ekki í borgarstjórn Reykjavíkur með hreinan meiri hluta. Hér hafa allir, hver einasti hv. þm., heilmikil völd. Þetta held ég að hæstv. ríkisstjórn verði að fara að gera sér ljóst. Hún getur ekkert gert á þessari nóttu nema í samningum og með fullri vinsemd við stjórnarandstöðu ef þetta er ekki skilið.