Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 04:22:00 (3221)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Það verður sífellt erfiðara að skilja hvernig hæstv. ríkisstjórn og meiri hlutinn á Alþingi hugsa sér að láta mál ganga fram. Hv. þm. Finnur Ingólfsson hefur vakið athygli á því að ef hann talar nú er hann að fyrirgera rétti sínum til að geta borið upp spurningar. Ef það er ætlun ríkisstjórnarinnar að halda þannig á málum að hann fái ekki þennan rétt finnst mér hreinskilnislegra að segja það við þingmanninn en að vera með einhverja hálfgerða útúrsnúninga hér. ( ÖS: Ert þú orðinn formaður Framsfl.?) Nei, ég er það ekki, hv. þm., ég er bara að ræða um það sem mér finnst vera eðlilegt í samskiptum manna í þinginu. ( EKJ: Eru þeir ekki einfærir um að verja sig?) Jú, jú, það getur vel verið, enda ræddum við um það saman, ég og hv. þm., að ég mundi koma að þessu hér. (Gripið fram í.) Það var eins gott að þingmaðurinn hætti í miðri setningu. Ég veit ekki hvort ég á að vera að eyða þessum þingskapatíma mínum í að svara strákslegum frammíköllum hv. þm. um að hann treysti mér vel til að vera formaður í Framsfl., en ég þakka ,,komplímentið``, það má vel vera að ég verði það einhvern tímann. Það er hins vegar ekki kjarni málsins.
    Málið er að ef það er ætlun ríkisstjórnarinnar að halda þannig á stjórn þingsins að hv. þm. Finnur Ingólfsson, sem var aðstoðarmaður fyrrv. heilbrrh., fái engin svör við sínum spurningum finnst mér hreinskilnislegra og drengilegra að segja það við þingmanninn frekar en að stilla málunum þannig upp að ef hv. þm. á að fá svör verði stjórnarandstaðan að tala hér í umræðunni þangað til einhver ábyrgur ráðherra Alþfl. er reiðubúinn að veita þau svör vegna þess að starfandi forseti sagði að þingmaðurinn yrði að bíða þar til sá ráðherra kæmi sem væri ábyrgur í málinu. Þess vegna tel ég að það sé ekki hægt að halda svona áfram.
    Ég vek enn athygli á því að aðalforseti þingsins hefur ekki sést í þingsalnum í ærið marga klukkutíma og þeir forsetar sem hér hafa gegnt störfum hafa ekki talið sig bæra til að taka neinar ákvarðanir. Það hefur enginn samráðsfundur verið haldinn milli formanna þingflokka og forsetadæmisins síðan frá því, að mér er sagt, klukkan sex í dag eða það mun vera senn hálfur sólarhringur síðan. Það gengur einfaldlega ekki að haga málum með þessum hætti. Það má vel vera að hv. þm. Finnur Ingólfsson verði að sætta sig við að fá ekki svör við sínum spurningum. Ég vil segja það við forsetadæmið: Mér finnst þetta ekki vera drengileg framkoma við þingmanninn og nauðsynlegt fyrir okkur að hér fari það að gerast að einhver af stjórnarliðinu hafi annaðhvort myndugleik eða kjark til að taka af skarið og greiða úr þeirri flækju sem hér er komin upp. Enn sem komið er hefur enginn gert það og síðustu fjórar, fimm klukkustundirnar hefur þetta allt verið í uppnámi.
    Virðulegi forseti. Ég mælist þess vegna til þess að forsetadæmið tryggi að hv. þm. Finnur Ingólfsson, fyrrv. aðstoðarmaður heilbrrh., fái tækifæri til að fá svör við þeim spurningum sem hann hyggst bera fram.