Framkvæmdasjóður Íslands

74. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 12:39:00 (3255)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. forsrh. að það hefur verið afstaða okkar alþýðubandalagsmanna að í sjálfu sér væri ekki ástæða til að framlengja líf Framkvæmdasjóðs. Það er hins vegar nauðsynlegt að það komi fram eins og gerst hefur fyrr í umræðunum að málsmeðferðin á þinginu um þetta frv. er óeðlileg þegar stjórnarmeirihlutinn beitti sér fyrir því í efh.- og viðskn. að nefndarmönnum var neitað að fá að ræða við stjórnarmenn sjóðsins. Þegar það var loksins gert í gærdag kemur í ljós, ýmsum á óvart, að stjórnarmenn sjóðsins lýsa því yfir að þeir hafi ýmsar athugasemdir að gera við skýrslu Ríkisendurskoðunar og í sjálfu sér hafi þeir líka ýmsar aðrar efasemdir um málið.
    Þá kemur einnig fram í umfjöllun í nefndinni að lánveitendur sjóðsins hafa rétt til að gjaldfella öll lán ef neikvæðir ársreikningar koma fram eins og þeir hljóta að gera fyrir árið 1991. Hæstv. forsrh. upplýsti það nú að a.m.k. fjórir erlendir lánardrottnar og veigamiklir hefðu lýst því yfir að þeir mundu ekki fara í þá gjaldfellingu og það er mjög mikilvæg yfirlýsing. Hún hefur ekki komið fram fyrr. Við í forustu Alþb. höfum ákveðið að óska eftir sértakri skýrslu Ríkisendurskoðunar um þessa stöðu, þ.e. mótsagnir hennar í mati á sjóðnum á ólíkum dagsetningum og þegar sú skýrsla liggur fyrir gefst frekara tækifæri til að fara yfir þetta mál.
    En hitt er nauðsynlegt að hæstv. ríkisstjórn geri sér grein fyrir, og ég sakna þess nokkuð að hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. skyldu ekki fjalla um það hér enn sem komið er, með hvaða hætti verður farið með eignir Framkvæmdasjóðs þannig að trúverðugleika sé haldið, að ekki sé verið að selja þær á undirverði heldur verði allt gert til að tryggja sem mest verðmæti fyrir þær.