Endurnýjun skipakosts Landhelgisgæslunnar

75. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 11:16:00 (3288)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu fagna ég þessu máli. En ég vil benda á að það er nú öðru nær en að gæsluhlutverki Landhelgisgæslunnar sé lokið. Við eigum stórsigra í vændum. Við þurfum að verja Reykjaneshrygg út í 350 mílur og stugga öðrum skipum burt frá þessari eign okkar. Við þurfum að verja norðurslóðir og gæta þess að við náum þeim rétti sem hafréttarsáttmálinn bíður okkur. Við höfum kannski, bæði ég og aðrir, trassað þessi mál. Við höfum ekki hrint fram öllum þeim réttindamálum sem við eigum samkvæmt hafréttinum og við þurfum að kynna okkur þau betur.
    Möppu með kortum af svæðunum var útbýtt hér þannig að hv. alþingismenn hafa getað kynnt sér hvað hér um ræðir. Svo sannarlega þurfum við að styrkja Landhelgisgæsluna til þess að vinna fleiri sigra sem við eigum rétt á samkvæmt alþjóðalögum. Og það er miklu meira mál en svo að menn megi hika í sambandi við kostnað við eflingu Landhelgisgæslunnar.