Útflutningur á raforku um sæstreng

76. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 14:20:00 (3318)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil taka undir það sem kemur fram í upphafi till. þar sem segir að Alþingi álykti að láta fara fram ítarlega könnun á tæknilegum og fjárhagslegum forsendum þess að selja raforku til útlanda um sæstreng. Ég tel að Íslendingar eigi að kanna alla möguleika á nýtingu orkulindanna, sérstaklega þá þætti þar sem framleiðsla veldur ekki mengun. Ég hef hins vegar ákveðna fyrirvara á því að við förum að selja mjög mikla orku til útlanda um sæstreng almennt þar sem um er að ræða hráorku eða hráefni og því muni verða lítill virðisauki hér á landi með því að flytja mikið magn af orku til útlanda um sæstreng. Ég tel hins vegar að það komi mjög vel til greina að hluti af okkar framleiðslu fari þannig beint til útlanda. En ég tel að það eigi að reyna eftir megni að nýta orkuna innan lands í iðnað sem ekki veldur mengun eða þá iðnað þar sem mengunarvarnir eru það fullkomnar að það valdi ekki mengun.
    En það breytir ekki því að ég tel mikilvægt að við fylgjumst vel með á þessu sviði sem og öðrum. Og af því að talað var hér áðan um að það væri kostur við þessa tillögu að hún hefði ekki verið flutt áður þá er nú eins og mig minni að einhvern tímann hafi verið minnst á sæstreng hérna á árum áður svo það væri kannski ástæða til að athuga hvort þessi tillöguflutningur er ekki óþarfi.
    Það sem er hins vegar stórgalli við þessa tillögu miðað við það sem kom fram hér áðan er að hún lítur til framtíðar og ekki miðuð við það að við förum að flytja út raforku um sæstreng nú þegar eða strax á morgun heldur er verið að fara fram á að gera könnun til þess einmitt að við séum undirbúin ef þetta verður raunhæfur möguleiki í náinni framtíð.
    Það má búast við því að innan skamms --- ef má nota það orð, þegar maður talar um í þessu samhengi stuttan tíma þá er maður ekki að tala um eitt eða tvö ár, maður er jafnvel að tala um tug ára eða tugi, en það er samt skammur tími til stefnu --- tækninni hefur fleygt það fram að það má búast við að innan skamms verði ekki ómögulegt að flytja raforku um langan veg með sæstreng án þess að orkutap sé mjög mikið.
    Það kom fram m.a. í máli hv. síðasta ræðumanns og það vita það auðvitað allir sem fylgst hafa með þessu máli að áhugi þeirra sem framleiða sæstreng er langmestur á að flytja raforku um sæstreng milli landa. Það eru aðilar hér á landi sem hafa einmitt athugað möguleika á því að við mundum framleiða sæstreng, annaðhvort við sjálf eða þá í samvinnu við erlenda aðila. Ég heyrði ekki að það hefði komið fram í máli hæstv. iðnrh. að hann minntist á þá aðila sem hér er um að ræða. Hann talaði um að Orkustofnun væri að kanna þessi mál, en mér er kunnugt um að þrjár verkfræðistofur hér í Reykjavík hafa verið að athuga með stofnun hlutafélags til að kanna möguleikana á framleiðslu á sæstreng hér á landi. Mig langar, með leyfi forseta, að lesa hér örlítið upp úr þeirri greinargerð sem þeir hafa sent frá sér, en þessi fyrirtæki eru Rafteikning hf., Ráðgjöf og hönnun og Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen hf. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Tækniþekking eykst við uppbyggingu rannsókna, öflugrar framleiðslu og prófunaraðstöðu hér á landi sem allt verður rekið af Íslendingum í samvinnu við erlenda aðila eftir þörfum hverju sinni. Verkefnið mun krefjast 50--100 manna tækniliðs ásamt miklu fjölmennara starfsliðs við framleiðsluna, auk alls þess fjölda annarra starfa sem slíku fylgja.
    Þróa verður gæðaeftirlit í tengslum við Háskóla Íslands og aðra hagsmunaaðila, en slíkt eftirlit er forsenda hágæðaútflutningsframleiðslu. Ítarlegar rannsóknir með þátttöku ýmissa stofnana, svo sem Háskólans, Orkustofnunar, Hafrannsóknastofnunar, umhvrn. og fleiri, þurfa að fara fram.

    Framkvæmdin felur þannig í sér umtalsverða nýsköpun. Áhrif á íslenskt atvinnulíf verður víðtæk, samanber virkjanir og annað sem þeim tengist. Þó verður aðeins um að ræða takmarkaðan hluta þeirrar orku sem hagkvæmt mun að virkja á Íslandi, jafnvel við fjórföldun orkusölunnar.
    Auk þeirra beinu áhrifa sem lýst er hér að framan af því að framleiða strengi hérlendis verður á þennan hátt einnig mun stærri hluti þeirra tekna sem orkusalan skilar í þjóðarbúið eftir hérlendis þar sem hér er gert ráð fyrir að fjármagna verkefnið að verulegu leyti innan lands.``
    Þarna eru menn sem telja sig eygja möguleika á því að við munum framleiða þennan streng ef af verður hér á landi og hafa kannað möguleika á því og telja að þarna sé um raunhæfan kost að ræða. Ef um það verður að ræða þá verður auðvitað miklu meiri verðmæti eftir hér á landi ef um útflutning á raforku verður að ræða um sæstreng. Þá finnst mér þetta strax vera miklu fýsilegri kostur þó að ég vilji ítreka að ég tel að við eigum alls ekki að setja öll eggin í sömu körfuna, við eigum að kanna fleiri möguleika og mér finnst að það eigi aldrei að vera nema takmarkað magn af því sem við framleiðum hérlendis færi um sæstreng til annarra landa ef það verður möguleiki.
    Ég vildi aðeins minnast á þetta hér, virðulegur forseti, þar sem þessi þrjú fyrirtæki telja þetta vera það góðan möguleika að þau hafa í athugun að stofna með sér hlutafélag um frekari könnun á þessu máli. Þess vegna er þetta ekki neitt fjarlægt því þarna er auðvitað um að ræða þrjú verkfræðifyrirtæki sem öll ættu að hafa einhverja þekkingu á þessu sviði. Það eru því ekki bara misvitrir alþingismenn sem láta sér detta í hug að hægt sé að flytja út raforku um sæstreng. ( Gripið fram í: Er það Svavar sem er misvitur.) Nei, ég sjálf sem hér stend hef verið ásökuð um að tala um hluti sem séu svo langt fram í framtíðinni að það sé eins og hver önnur firra að vera að minnast á þá yfirleitt hérna. (Gripið fram í.) En ég er nú svo bjartsýn á að við getum framleitt sæstreng hér á landi og flutt út orku í náinni framtíð að ég tel að þetta sé mjög raunhæfur möguleiki fyrir okkur og beri að kanna þetta mál vel og vandlega, ekki eingöngu til að flytja raforku til útlanda, sem ég tel auðvitað koma til greina, heldur ekki síst fyrir okkur sjálf hér innan lands. Og minnist ég þá þess að ekki alls fyrir löngu vorum við að ræða hér í þinginu og var mikið rætt úti í þjóðfélaginu um línu yfir hálendið, en ég tel að það geti vel komið til greina og í rauninni miklu eðlilegra að við notum sæstreng til að flytja raforku milli landshluta fremur en leggja línur þvers og kruss yfir hálendi landsins með tilheyrandi landsskemmdum.