Lánasjóður íslenskra námsmanna

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 18:41:00 (3401)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Mér er nokkur vandi á höndum að ljúka því sem ég hefði hér gjarnan viljað segja hér við 1. umr. málsins á þeim stutta tíma sem eftir er þangað til ætlunin er að ljúka fundi. Ég mun byrja að gera einhverja grein fyrir mínu máli og við sjáum til hvernig mér gengur.
    Ég vil í upphafi segja um þetta frv. að ég get alls ekki fallist á það og mun ekki styðja það frekar en aðrar kvennalistakonur. A.m.k. þarf þá að gera á því mjög verulegar breytingar til þess að hægt sé að fallast á það og heyrist mér að það sé að fjölga í þeim hópi hér á Alþingi sem telur að breyta þurfi þessu frv. til að á því geti verið sú mynd sem nauðsynleg er.
    Það þarf e.t.v. ekki að rifja það upp fyrir alþingismönnum en þó væri kannski rétt að minna þá á að auðvitað var háð mikil barátta fyrir að koma þessum sjóði á, Lánasjóði ísl. námsmanna, og ég tel hann mjög mikilvægan til að auka jafnrétti til náms. Ég tel að þær breytingar sem nú á að gera á sjóðnum, ef þetta frv. verður að lögum, muni verða til að minnka jafnrétti til náms. Ég get alls ekki fallist á það sem kom fram í máli hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur að með þessu frv. sé verið að leggja áherslu á að auka jafnrétti til náms. Það er mjög einkennilegur skilningur og ég held að þingmenn ættu að lesa frv. aðeins nánar og komast þá að því að það er langt í frá.
    Ég hef ekki síst áhyggjur í því sambandi af konum sem hafa einmitt notið stuðnings frá Lánasjóði ísl. námsmanna til þess að afla sér menntunar. Það vita allir sem vita vilja að konur hafa miklu lægri laun en karlar og það gildir um ungar konur líka. Þær gátu mjög illa áður fyrr og geta ekki enn aflað sér nægilegra tekna á sumrin til þess að standa undir námskostnaði. Þess vegna er lánasjóðurinn þeim ekki síst mikilvægur og hefur gert fjölmörgum konum kleift að stunda nám sem annars hefðu alls ekki getað það. Þetta gildir auðvitað um aðra sem minna mega sín, sem hafa ekki möguleika á að afla sér tekna nema að litlu leyti og þess vegna tel ég að þetta frv. sé mjög stórt skref til baka. Ég tel að jafnrétti til náms sé mjög mikilvægt og það eigi að vera grundvallaratriði varðandi Lánasjóð ísl. námsmanna. Það er hins vegar ekki gert með þessu.
    Árið 1982, þegar gildandi lög um námslán og námsstyrki voru sett, þá var það gert í samvinnu við námsmenn og í sæmilegri sátt við alla sem hlut áttu að máli, bæði þá sem hér voru á Alþingi á þeim tíma og námsmenn. Núna er hins vegar horfið af þeirri braut. Það hefur t.d. ekki verið haft samráð við námsmenn að því er varðar samningu á þessu frv. Það kemur mjög greinilega fram í greinargerð með þessu frv., en fulltrúi samstarfsnefndar námsmannahreyfingarinnar var beðinn um að taka sæti í þessari nefnd sem skilaði þessu frv., hvernig staðið var að vinnubrögðum í þessari nefnd. Ég veit ekki hvort ég á að vera að endurtaka það. Það geta menn lesið á bls. 88 í greinargerðinni en þar er talað um að einungis hafi gefist 9--10 dagar ,,til að hrista fram úr erminni frv. til laga``, eins og þar er komist að orði. Það sama kemur einnig fram hjá fulltrúa Vöku, lýðræðissinnaðra stúdenta, sem einnig var skipaður í nefndina. Mér þótti mjög sérkennilegt að formaður eða fulltrúi eins félags í Háskólanum væri skipaður í nefndina en ekki fulltrúi allra námsmanna. Eðlilegra hefði verið að tveir væru skipaðir en hins vegar skiptir það engu máli fyrst það átti hvort sem er ekki að taka neitt tillit til námsmanna. Það breytti því kannski ekki neinu hvort þeir sátu þar eða ekki, enda segja báðir fulltrúarnir reyndar að það hafi greinilega ekki verið meiningin að taka neitt tillit til þeirra í þessari nefnd. Ég vil, með leyfi forseta, fá að lesa örlitla tilvitnun í sérálit Elsu B. Valsdóttur:
    ,,Í stuttu máli sagt var lítið sem ekkert tillit tekið til hugmynda námsmanna og það frv. sem meiri hluti hennar stendur að er að mestu óbreytt frá hugmyndum fyrri nefndarinnar.`` Þess vegna telur hvorki hún né fulltrúi samstarfsnefndar námsmanna sig geta staðið að þessu. Í lok álits þess fulltrúa sem var fyrir námsmenn segir, með leyfi forseta:
    ,,Námsmenn vilja setjast niður með fulltrúum ríkisvaldsins og komast að sameiginlegri niðurstöðu um þennan mikilvæga sjóð.``
    Ég held að aldrei hafi staðið á því hjá námsmönnum. Þeir hafa verið tilbúnir til að endurskoða þessi lög ef þess hefur verið óskað. Ég vil t.d. minna hæstv. ráðherra á að það var m.a. vegna tillögu frá námsmönnum á sínum tíma að námslán voru verðtryggð þannig að þeir gerðu sér grein fyrir því þá að það væri ekki hægt að halda úti þessum sjóði nema verðtryggja lán. Menn geta síðan deilt um hvort það var til góðs. En hins vegar er það ljóst að vandi LÍN hefur vaxið verulega, m.a. vegna þess að lán sem voru tekin fyrir 1976 voru óverðtryggð og þess vegna hafa þau ekki skilað sér til sjóðsins nema að óverulegu

leyti.
    Það hefur líka aukið vanda lánasjóðsins að ríkisstjórnir undanfarinna ára hafa ekki staðið við skuldbindingar sínar og sent Lánasjóð ísl. námsmanna út á lánamarkaðinn. Þar með hefur sjóðurinn þurft að taka lán með háum vöxtum og endurlána án vaxta þannig að ríkisstjórnir undanfarinna ára hafa m.a. skapað þennan vanda. Auðvitað er það hluti af vandanum að útlán hafa aukist. Nemendum hefur fjölgað verulega sem betur fer. Erum við ekki ánægð með það að menntun þjóðarinnar eykst? Framhaldsskólum hefur fjölgað og framhaldsskólanemendum hefur fjölgað verulega og einnig háskólanemum. Það hefur líka aukist að krafist sé skólagjalda, nú síðast hefur Háskóli Íslands tekið upp skólagjöld. Þótt ekki væri nema bara út af því er ósköp eðlilegt að fjárþörf sjóðsins hafi aukist. Samkvæmt núgildandi reglum skila sér til baka 10--15% af því sem sjóðurinn lánar.
    En aðalspurningin í þessu sambandi er sú hver eigi að taka á sig þann vanda sem LÍN á í núna. Er eðlilegt og rétt að námsmenn, sem nú eru í námi og þeir sem eiga eftir að fara í nám og taka lán hjá lánasjóðnum, leysi vanda sjóðsins sem nú er upp kominn? Ég tel svo ekki vera. Mig langar að spyrja menntmrh. hvort hann telur svo vera. Ég þarf varla að spyrja því það er greinilegt í frv., sem hér er lagt fram, að það er skoðun ríkisstjórnarinnar að svo eigi að vera. Er rétt að þeir sem nú eru í námi og þeir sem eiga eftir að taka lán eigi að taka á sig byrðar vegna óverðtryggðra lána frá því í fortíðinni? Ég segi nei. Ég tel það ekki rétt. Ég er ekki með þessu að segja að ekki megi endurskoða lögin um námslán og námsstyrki. En ég tel ekki rétt að vanda lánasjóðsins, fortíðarvanda, eins og er svo vinsælt er að segja, eigi að leysa með því að leggja auknar álögur á þá sem eftir koma, þá sem eiga eftir að taka lán.
    Ef við lítum á meginbreytingarnar sem felast í þessu frv., og eru reyndar alger stefnubreyting, er fyrst að nefna að lagðir eru vextir á lánin. Þetta er mikil breyting sem ég tel að sé ekki rétt. Einnig er miðað við að hefja endurgreiðslur ári eftir að námi lýkur og síðan á að stytta endurgreiðslutímann verulega og árlegar greiðslur líka. Þetta get ég alls ekki fellt mig við.
    Neðarlega á bls. 6 í greinargerð með frv. segir, með leyfi forseta: ,,Ekki verður deilt um að þessar lánareglur [þ.e. núgildandi reglur] eru ekki í samræmi við það sem almennt gerist í þjóðfélaginu.`` Ég er ekki viss um að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. menntmrh. átti sig á því að þarna er ekki verið að tala um fjárfestingarlán. Það er verið að tala um framfærslu. Mér þykir eðlilegt þegar ég þarf að fara í banka og taka lán til þess að kaupa mér húsnæði eða bíl eða eitthvað þess háttar að ég þurfi að greiða ákveðna leigu af því fé. En ég tel ekki eðlilegt að þeir sem eru að mennta sig og fá lán til þess eigi að greiða vexti af því eins og hverju öðru fjárfestingarláni. Það má svo sem rétt vera að námsmenn líti á menntun sem ákveðna fjárfestingu fyrir sjálfa sig. Ekki kannski peningalega heldur fyrst og fremst til að byggja sjálfa sig upp. Það eru vissulega forréttindi að fá að mennta sig. En ég lít fyrst og fremst á menntun sem fjárfestingu fyrir þjóðfélagið en ekki fyrir einstaklinginn sjálfan fyrst verið er að tala um fjárfestingu. Þess vegna tel ég mjög óeðlilegt að vextir skuli teknir upp með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Það má alls ekki bera þessi lán saman við önnur lán á markaðnum, eins og t.d. húsnæðislán sem hér var gert af hæstv. menntmrh.
    Í greinargerð með þessu frv. stendur að tilgangurinn sé fyrst og fremst að draga úr þeirri byrði sem ríkissjóður hefur af sjóðnum. Hvergi er talað um að tilgangurinn með þessu frv. sé að auka jafnrétti til náms eða að reyna að gera reglurnar réttlátari fyrir alla aðila. Nei, það er langt frá því. Og raunar, ef þetta frv. verður að lögum, sem ég vona auðvitað að verði ekki, þá mun það leiða til mikillar mismununar og óréttlætis í þjóðfélaginu að því er jafnrétti til náms varðar. Ekki er orð um það í þessu frv. að efla eigi menntun eða neitt þess háttar.
    Í útreikningum sem fylgja greinargerð með þessu frv., í fylgiskjölum, kemur berlega í ljós hvað þessar auknu álögur munu þýða fyrir fólk. Ef við tökum dæmi upp úr útreikningunum í fylgiskjölum með frv. þá kemur þetta fram. Miðdæmið sýnir stöðu hjúkrunarfræðings sem er einstætt foreldri með barn og hefur þurft að taka lán upp á 648 þús. kr. á ári. Ef litið er á hvernig þetta kemur út fyrir hjúkrunarfræðinginn, sem í flestöllum tilvikum er kona, þá kemur í ljós að þegar hún er orðin 67 ára gömul er hún búin að greiða 2,5 millj. kr. í vexti en hefur einungis getað greitt 533 þús. kr. niður af höfuðstólnum. Enn þá eru eftir 1,4 millj. kr. af höfuðstólnum þegar hún er 67 ára. Ekkert ákvæði er í þessu frv. sem segir að þegar fólk hættir að vinna eigi það að hætta að greiða af láninu. Ef þessi ágæti hjúkrunarfræðingur lifir til níræðs þarf hún að fara að pilla af ellilífeyrinum, ef hún fær þá nokkurn, og af lífeyrisgreiðslum og öðru sem hún hugsanlega fær ef ég skil þetta rétt. Ég gat hvergi fundið ákvæði í þessu frv. um að greiðslur féllu niður við ákveðinn aldur. Fólk þarf því lengi að greiða af þessu. Ég vil einnig vekja athygli fólks á því að meðallaun hjúkrunarfræðinga eru ekki það há að afborganir á ári eru u.þ.b. ein mánaðarlaun. Það gildir að vísu um flestalla að það eru u.þ.b. ein mánaðarlaun sem þarf að borga af lánunum.
    Mismunurinn er hins vegar töluverður þegar komið er að þeim sem hafa hærri tekjur. Við getum tekið verkfræðinga sem dæmi og úr sama flokki, þ.e. einstætt foreldri með eitt barn. Verkfræðingar hafa lokið við að greiða námslánin við 44 ára aldur og þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur af að greiða af ellilífeyrinum og eru vel settir eftir 45 ára aldur. Enn get ég tekið hér upp fleiri dæmi. T.d. ef hjúkrunarfræðingurinn, sem í flestum tilvikum er kona, er einstætt foreldri með tvö börn. Þá gerist það sama við 67 ára aldur, 3,8 millj. kr. á hún á eftir þegar hún er orðin 67 ára og sjálfsagt mun hún aldrei geta lokið við að greiða sitt lán jafnvel þótt hún verði tíræð. Á þessum töflum sem hér eru aftast í frv. sést mjög vel hvað verið er að gera. Það getur svo sem vel verið að með þessu sé ríkisstjórnin að gera ráð fyrir því að tekjur hjúkrunarfræðinga hækki verulega. Það er vel ef verið er að tala um að allir sem hafa háskólamenntun eigi að hækka í launum. En þá held ég að launamunurinn verði ansi mikill í þjóðfélaginu milli þeirra sem fara í háskólanám, sem frv. gerir þá ráð fyrir, og hinna sem ekki fara í háskólanám og eru ekki með þessar byrðar á herðunum. Þarna er að mínu mati verið að fara út á mjög hættulega braut og þarf ekki annað en að fletta upp í greinargerð með sjálfu frv. til að sjá að þetta gengur auðvitað alls ekki.
    Virðulegur forseti. Ég á eftir að fara yfir nokkuð af frv. Ég hafði reiknað með að hlé yrði gert á fundinum kl. 7. Er það ekki meiningin lengur? ( Forseti: Meiningin er sú, hv. þm., að að lokinni þinni ræðu ljúkum við þessum fundi.) Ég vil upplýsa forseta um að ég á þó nokkuð eftir af minni ræðu. Búið var að ræða um það við mig að hlé yrði á fundinum kl. 7. ( Gripið fram í: Þetta er góð ræða, við viljum hlýða á hana.)
    Ég vil þá víkja örlítið að frv. sjálfu úr því að meiningin er að halda áfram í kvöld, það er mér að meinalausu --- ég hefði þó gjarnan viljað ljúka þessu fyrir kl. 9. Ég sný mér þá að 1. gr. frv. Þar segir að meginhlutverk lánasjóðsins sé að veita námsmönnum lán til framhaldsnáms við skóla. Þar er ekki talað neitt um að það eigi að vera íslenskir námsmenn, íslenskir ríkisborgarar eða námsmenn búsettir hér á landi. Ég les þetta með 13. gr. þar sem sérstaklega er talað um námsmenn frá Norðurlöndum en þar segir: ,,Einnig er heimilt að láta ákvæði þessarar greinar taka til einstakra annarra erlendra ríkisborgara . . .  `` Það er talað eins og á öðrum stað í frv. sé ákvæði um að íslenskir ríkisborgarar einir séu lánshæfir. Ég held að það geti engan veginn staðist að hafa þetta svona, það verður að breyta þessu. Ég velti því fyrir mér hvernig þetta kemur út ef af hinu Evrópska efnahagssvæði verður. Verður þá heimilt að mismuna fólki með þessu móti? Þetta er spurning sem ég vil spyrja hæstv. menntmrh. að ef hann hefur velt því fyrir sér. Ég held að þetta geti engan veginn staðist.
    Með þessu frv. er verið að hverfa frá því að lána til verkmenntunar en það þykir mér þurfa sérstakrar athugunar við. Ef borinn er saman stuðningur hins opinbera til náms, t.d. annars staðar á Norðurlöndum, er greinilegt að þar er gert ráð fyrir heilmiklum stuðningi við þá sem eru í framhaldsskólum, menntaskólum og fjölbrautaskólum. Ég tel því eðlilegt að það verði athugað með hvaða hætti þetta er í nágrannalöndunum og hvort eðlilegt sé að hætt verði að styðja fólk á framhaldsskólastigi hér á landi enda geta aðstæður nemenda verið mjög mismunandi.
    Ég velti því einnig fyrir mér hvort eðlilegt er að miða við að þeir einir sem eru orðnir 20 ára séu lánshæfir eins og gert er í 2. gr. Mér finnst að það þurfi að kanna mjög vel. En ég tek undir það sem hæstv. menntmrh. sagði varðandi þetta atriði í framsöguræðu sinni þar sem hann talaði um mismunun á milli nema á framhaldsskólastigi. Ég veit vel að mismunun hefur viðgengist en það er ekki þar með sagt að eðlilegast sé að fella niður alla námsaðstoð ef jöfnuði á að ná fram.
    Síðan langar mig til að varpa fram einni spurningu til hæstv. menntmrh. varðandi skólagjöld við Háskóla Íslands, og reyndar getur hún gilt um öll skólagjöld. Spurningin er hvort reiknað er með því að veita lán til greiðslu skólagjalda almennt og hvort það hafi verið gert ráð fyrir því. Nú hlýtur að vera mikil aukning á útgjöldum þegar nemar við Háskóla Íslands þurfa allir að greiða skólagjöld og sú aukning hlýtur að lenda á lánasjóðnum. Ég gat ekki séð það við lestur greinargerðarinnar þegar verið var að meta niðurskurð eða sparnað eða hvað sem á að kalla það að skólagjöld hafi verið tekin með. Kannski hefur það verið gert án þess að það sé sérstaklega tekið fram.
    Ég tók eftir því að hæstv. menntmrh. minntist á að það væru bankarnir sem fyrst og fremst tækju að sér að lána fyrsta árs nemum og að þær heimildir hafi ekki verið notaðar sem eru í núgildandi lögum, alla vega ekki núna í seinni tíð, um að veita fyrsta árs nemum víxillán. Ég tel nauðsynlegt að athuga þetta nánar vegna þess að ég veit ekki hvort bankarnir lána öllum, alveg án tillits til efnahags eða þess hvort þeir hafi einhvern bakhjarl, t.d. efnaða foreldra. Ég tel að þetta atriði þurfi að kanna og spyr hvort ekki væri rétt að hafa heimild inni í lögum um að veita fyrsta árs nemum lán jafnvel þótt þeir hafi ekki sýnt tilskilinn árangur. Það er mjög mikilvægt að þeir séu ekki settir út í kuldann sem eiga erfitt með að afla sér fjár á öðrum vettvangi. Eftir því sem kom fram í máli hæstv. menntmrh. var þetta ákvæði lítið eða ekkert notað ef ég skildi hann rétt. Ég hefði talið eðlilegt að sú heimild gæti verið inni í lögunum þótt hún væri kannski ekki mikið notuð því það gæti þurft að grípa til hennar.
    Ég set stórt spurningarmerki við ákvæði sem kemur fram í 6. gr. um sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lána, þ.e. að tveir menn þurfi að vera ábyrgðarmenn. Ég veit ekki hvort þetta er yfirleitt eðlilegt. Þetta hefur auðvitað tíðkast í bönkum en ég er ekki á því að þetta sé endilega mjög gott ákvæði eins og látið er að liggja í greinargerð með frv. Þarna getur skipt verulegu máli að lántakendur eigi sterka að sem geta tekið á sig þessa sjálfskuldarábyrgð. Ég held að kanna verði málið mjög vel og mig langar reyndar að vita og væntanlega getur hæstv. menntmrh. upplýst það hvort algengt sé að lántakendur í Lánasjóði ísl. námsmanna standi ekki við skuldbindingar sínar og að þeir sem hafa skrifað upp á lánin þurfi að greiða þau. Af hverju er lagt til að í stað eins ábyrgðarmanns áður þurfi þeir að vera tveir? Einhver sérstök ástæða hlýtur að vera til þess. En það kemur ekki fram í frv., aðeins að verið sé að gera þetta líkt því sem tíðkast hjá öðrum lánastofnunum. Það eru rökin að því er ég fæ best séð. Ég tel það engin rök. Ég hefði talið að nóg væri að hafa einn ábyrgðarmann eða engan. Það ætti að vera hægt að treysta námsmönnum til að greiða þetta til baka.
    Ég tel að lánstími sem er fjórfaldur eðlilegur námstími, eins og talað er um í 7. gr., sé allt of stuttur, alla vega fyrir mjög marga. Í máli hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur kom fram að það þyrfti e.t.v. að hafa ákvæði í frv. eða koma með brtt. um það að þeir sem hafa hærri laun ættu að greiða lánin hraðar niður. Ég hef ekki neitt sérstaklega á móti því en ég hef minnstar áhyggjur af þeim sem hæstu launin hafa eftir að út á vinnumarkaðinn kemur. Ég hef miklu meiri áhyggjur af þeim sem hafa lág laun. Ég hef áhyggjur af hjúkrunarfræðingnum og framhaldsskólakennaranum sem eru teknir sem dæmi í þessari greinargerð. Ég hef minnstar áhyggjur af því hvort verkfræðingurinn og viðskiptafræðingurinn, sem hér eru teknir sem dæmi, verða búnir að greiða lánið upp einu eða tveimur árum fyrr eða síðar. En ég hef áhyggjur af því hvernig hjúkrunarfræðingar og framhaldsskólakennarar fara að því að greiða af námsláninu ein mánaðarlaun alla ævi. ( ÖS: Er þá ekki réttlátt að þeir greiði það miðað við tekjur?) Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur ekki skilið það sem ég sagði. Ég sagði að ég hefði síst á móti því en ég hefði bara ekki áhyggjur af því hvort þeir borguðu meira eða minna. Þeir borga lán sín upp á tiltölulega skömmum tíma og það er ágætt. Þeir hafa alveg efni á því. Þeir eru með það há laun. Ég get tekið sem dæmi einstakling, verkfræðing, í leiguhúsnæði, verkfræðingur sem búinn er að greiða upp öll sín lán. Síðasta afborgunin er þegar hann er 39 ára og einmitt það ár er hann með 346 þús. kr. í mánaðarlaun. Ég vorkenni honum ekki. Hins vegar vorkenni ég hjúkrunarfræðingnum sem þarf að borga ein mánaðarlaun til níræðs eða tíræðs eða hvað sem viðkomandi lifir lengi. (Gripið fram í.) Það breytir ekkert þessu frv. til handa láglaunafólki og þeim sem illa standa. Það breytir eingöngu því að þeir sem hafa hærri tekjur greiða hraðar en hinir greiða ekkert hægar. Tillagan gengur ekki út á það. Hún gengur ekki út á það að rétta hlut þeirra sem hafa lág laun eftir að námi lýkur. Hún gengur eingöngu út á það að þeir sem hafa hjá laun eiga að greiða hraðar. Því miður hjálpar það ekki hinum. Ef ég heyrði rétt það sem kom fram í máli hv. þm. þá talaði hún eingöngu um þá sem hafa hærri launin, þeir ættu að greiða hraðar niður, en ekki neitt um að lækka ætti greiðslubyrði hinna eða falla frá henni.
    Ég vil geta þess sem gott er. Í 8. gr. segir, með leyfi forseta:
    ,,Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að veita undanþágu frá ársgreiðslu, skv. 1. mgr. ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans.``
    Það er auðvitað til bóta að þetta skuli vera hægt en það fer eftir túlkun en hefur ekkert með það að gera að láninu sé breytt í styrk eða á neinn annan hátt.
    Virðulegi forseti, mig langar síðan að minnast á 18. gr. sem fjallar um endurgreiðslu á lánunum. Þar er talað um þá sem skulda samkvæmt tvennum lögum, bæði þessu frv. ef það verður að lögum og síðan hafa fengið eldri lán, þá er gert ráð fyrir að þeir eigi að greiða það til viðbótar, þ.e. tvenns konar greiðslur bætast við. Þetta getur þýtt að endurgreiðslan sé aukin verulega. Hún getur mest orðið 11,75% sem er verulega hærra en það sem hér er talað um. Hinn kosturinn er að sameina eldri skuldina við það skuldabréf sem hefur þá verið gefið út sem þýðir þá að það mundi stytta endurgreiðslutímann verulega og breyta þeim kjörum sem námsmenn hafa tekið lánin á og má þá segja að komið hafi verið aftan að fólki.
    Ég minntist áðan örlítið á framhaldsnám, að okkar lánakerfi væri verulega ólíkt því sem gerist á Norðurlöndum. Á Norðurlöndum eru námslán eða námsstyrkir með allt öðrum hætti en hér er gert ráð fyrir. ( Forseti: Forseti vildi trufla hv. þm. í ræðunni og spyrjast fyrir um það hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni. Nú er klukkan farin að ganga átta og ef hv. þm. óskar er hægt að gefa honum færi á því að fresta ræðunni þannig að hægt yrði að halda áfram á næsta fundi á morgun.) Já, virðulegi forseti, ég á ekki mjög mikið eftir, ég gæti áætlað 10 mínútur en ég er tilbúin til bæði að fresta eða halda áfram ræðu minni eftir því sem forseti óskar. ( Forseti: Já, ég held að það sé rétt að gefa þingmanninum færi á því að fresta ræðu sinni og ljúka henni á morgun. Ef þingmaðurinn vill velja þann kostinn þá er forseti tilbúinn til þess.) Ég hefði nú kosið að forseti ákvæði það, en ég er tilbúin til að fresta ef það er ósk forseta. ( Forseti: Þá frestum við þessari umræðu.)