Ferða- og dagpeningar opinberra starfsmanna

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 10:41:00 (3431)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Mig langar til þess að gera örstutta athugasemd vegna þess sem kom fram í máli hæstv. fjmrh. um dagpeninga til maka í ferðalögum. Nú vil ég að það komi skýrt fram að ég sé ekki ofsjónum yfir því að maka ráðherra séu greiddir dagpeningar þegar beinlínis er til þess ætlast eða farið fram á það af ríkisins hálfu að þeir fylgi maka sínum til útlanda í opinberum erindagjörðum og þá er auðvitað sjálfsagt að greiða fyrir það. Ég sé hins vegar enga ástæðu til þess að ríkið sé að greiða dagpeninga til maka í þeim tilvikum þar sem það er að ósk ráðherrans að maki hans fylgir með. Við eigum sjálfsagt flest hér inni ágæta maka sem við erum allt of lítið samvistum með og vildum gjarnan eiga fleiri samverustundir og það á sjálfsagt líka við um ráðherrana og þess vegna held ég að oft kjósi þeir að hafa maka sína með til þess að eiga þá einhverjar stundir með þeim. En mér finnst ekki rétt að ríkið sé að greiða fyrir þá með þessum hætti.