Dimmuborgir

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 11:58:00 (3471)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég ætlaði að gera athugasemd varðandi sandfokið við Dimmuborgir. Landbn. Alþingis ferðaðist um þessi svæði í sumar og kynnti sér aðstæður þar. Eftir þá ferð og það sem ég hef kynnt mér síðar er það mín skoðun að þær 3,9 millj. sem hér hafa verið nefndar til úrbóta í sandfoksmálum við Dimmuborgir séu einungis bráðabirgðaplástur. Höfuðmeinsemdin er, eins og kom fram í ræðu hæstv. forsrh., mikið sandfok og sandskaflamyndun fram á hálendinu sem getur hvenær sem er, og þetta er nánast eins og tímasprengja, brotist fram og þá yfir miklu stærri svæði en eingöngu Dimmuborgir. Þannig er málið að mínu mati það stórt að það verður ekki leyst öðruvísi en með stórátaki á hálendinu upp af Mývatnsöræfum, eitthvað í líkingu við það sem gert var á Rangárvöllum á sínum tíma.