Samskipti ráðherra og sendimanna erlendra ríkja á Íslandi

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 12:15:00 (3477)

     Björn Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Mér finnst tilefni þessarar fyrirspurnar harla léttvægt og lítilvægt. Mér finnast líka svör hæstv. forsrh. fullnægjandi í þessu máli. Ég tel að það sé kjarni málsins, sem hv. fyrirspyrjandi kom inn á áðan, að það eru einstaklingar sem hlut eiga að máli. Í störfum mínum sem blaðamaður kom sú spurning oft upp hvort blaðamenn ættu að þiggja boð gestgjafa og ég taldi alltaf einsýnt og er þeirrar skoðunar að það fari eftir þeim sem þiggur boðið hvernig að slíkum málum er staðið og hvort slíkar ferðir séu ámælisverðar en ekki eftir þeim sem býður. Ég held að í þessu tilviki sé ekki unnt að benda á nokkurn skapaðan hlut sem gerir það ámælisvert að þessir þrír einstaklingar sem hér er um að ræða hafi þegið boð að gista hjá sendiherra.