Innheimta skyldusparnaðar ungs fólks

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 12:43:00 (3487)

     Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. félmrh. um innheimtu skyldusparnaðar ungs fólks til íbúðabygginga. Um skyldusparnað eru ákvæði í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins og sérstakri reglugerð sem gefin er út með stoð í þeim lögum. Samkvæmt þessari lagaumgerð er ungu fólki skylt að spara og launagreiðanda er skylt að halda eftir af launum unga fólksins og launagreiðendum er skylt að skila því til Húsnæðisstofnunar ríkisins. Húsnæðisstofnun ríkisins er skylt að annast innheimtu og jafnframt ber henni að fylgjast með því að launagreiðendur geri skil á skyldusparnaðinum.
    Í ljósi þessara lagaákvæða mætti ætla að það væri tryggt með fullnægjandi hætti að skyldusparnaður skilaði sér ævinlega til Húsnæðisstofnunar ríkisins. Því miður er ekki svo. Ég hef þurft að hafa afskipti af málum þar sem um verulega háar upphæðir skyldusparnaðar er að ræða sem tekinn hefur verið af ungu fólki og ekki skilað til Húsnæðisstofnunar ríkisins. Sum málin eru orðin býsna gömul eða nokkurra ára og þessar upphæðir hafa skipt tugum milljóna kr.
    Það sem ég er einkum að benda á og spyrjast fyrir um er hversu mikið er í vanskilum hjá Húsnæðisstofnun ríkisins af skyldusparnaði og hversu mikið af þeim vanskilum er eldri en sex mánaða og ég óska eftir sundurliðun eftir kjördæmum. Það hefur verið litið á skyldusparnaðinn sem hluta af launum og því litið svo á að um hann gildi lög um ríkisábyrgð á launum og þannig með hann farið að ríkisábyrgðin nái til síðustu sex starfsmánaða, þó innan síðustu 18 mánaða. Þetta hefur vissulega breyst eftir að fyrirspurnin var lögð fram þannig að með nýju lögunum, sem kölluð hafa verið bandormurinn, hefur þessi ríkisábyrgð verið stytt í þrjá mánuði.
    Annað atriði sem ég vil spyrja hæstv. félmrh. um er hvernig stofnunin fylgist með því að launagreiðendur geri skil á skyldusparnaði, þ.e. hvernig stofnunin fer að því að ná í upplýsingar um skil á skyldusparnaði þegar launagreiðendur senda ekki sjálfviljugir þær upplýsingar til Húsnæðisstofnunar.
    Í þriðja lagi spyr ég hæstv. félmrh. hvort ráðherra muni beita sér fyrir aðgerðum sem tryggi betri skil á skyldusparnaði innan sex mánaða frá útborgun launa og hafði ég þá með þeirri tímasetningu í huga þágildandi lög um ríkisábyrgð sem þá voru til sex mánaða.