Síldarverksmiðjur ríkisins

81. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 13:44:00 (3495)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég held að segja megi að á þessu máli séu margar hliðar og að til sanns vegar megi færa hið fornkveðna að tvær hliðar, hið minnsta, séu á hverju máli og eigi nú mjög vel við hér. Það má auðvitað ræða þetta mál fyrst og fremst út frá spurningum pólitísks eðlis um afstöðu manna til einkavæðingar versus annarra rekstrarforma í landinu og láta það liggja á milli hluta hvers eðlis atvinnustarfsemin er og hvaða áhrif hún hefði t.d. á atvinnuhagsmuni í einstökum byggðarlögum. Það er ein nálgun í málinu en ekki sú skynsamlegasta að mínu mati þó sjálfsagt sé að hafa hana undir.
    Í öðru lagi má líta á þetta frá algerlega gagnstæðri hlið og velta fyrst og fremst fyrir sér spurningum um framtíð Síldarverksmiðja ríkisins frá sjónarhóli mjöliðnaðarins í landinu, stöðu hans, afkomu og framtíðarhorfum.
    Í þriðja lagi mætti skoða þetta fyrst og fremst út frá ástandi efnahags- og atvinnumála, ástandi á peningamarkaði og þeirra líklegu áhrifa af því að setja slíkt fyrirtæki á markað sem hér á í hlut.
    Ég vil byrja á því að taka það fram að ég hef verið þeirrar skoðunar og margoft lýst henni á Alþingi og annars staðar að fyrirtæki af tagi Síldarverksmiðja ríkisins sé eitt þeirra í opinberri eigu sem ég tel fyllilega ástæðu til að skoða hvort betur væri komið undir öðrum rekstrarformum. Ég hefði gjarnan viljað skipta umræðum um þátttöku ríkisins í atvinnurekstri eða spurningu um einkavæðingu, allt hvað menn vilja nú kalla það, eftir því hvers eðlis viðkomandi rekstur væri og hvaða stöðu hann hefði í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar. Ég er þeirrar skoðunar að þar sem um er að ræða þátttöku ríkisins í atvinnurekstri, í fyrirtækjum sem ekki hafa einokunarstöðu eða drottnunarstöðu á íslenskum markaði sem eru í beinni samkeppni við einkarekin fyrirtæki og eru ekki það stór hluti af viðkomandi atvinnugrein að sköpum skipti, þá sé sjálfsagt mál að skoða hvort eðlilegt sé að ríkið dragi sig út úr slíkum rekstri. Dæmi um þetta hafa verið til umræðu á undanförnum árum. Fyrirtæki eins og Ferðaskrifstofa ríkisins á sínum tíma, ríkisprentsmiðjan Gutenberg og segja má að að nokkru leyti eigi hið sama við um Síldarverksmiðjur ríkisins. Af þessum sökum er því fullkomlega eðlilegt að menn taki málið til skoðunar. En á sama tíma er nauðsynlegt að hafa í huga að margt er að athuga og ég vona svo sannarlega að í þessu máli séu menn tilbúnir að ræða gersamlega hleypidómalaust á báða bóga um vænlegustu aðferðir í þessu sambandi, bindi sig ekki í einhverjar kennisetningar um einkavæðingu einkavæðingarinnar vegna eða öfugt ef einhverjum skyldi detta í hug að leggjast algerlega gegn þessu máli vegna þess að hann vildi fyrir alla muni sjá þennan rekstur um aldur og ævi í opinberri eigu. Til þess að fyrirbyggja allan misskilning, ef hann skyldi ella láta á sér kræla, þá er rétt að taka fram að ræðumaður er ekki í þeim hópi og hefur ekki verið um árabil.
    Mér finnst reyndar tvennt vega þyngst í því að eðlilegt sé að taka þetta mál til skoðunar og þarft að mörgu leyti. Hið fyrra er að hér á akkúrat við að einkarekin fyrirtæki eru í samkeppni og starfa og eru stærri hlutinn af þessari atvinnugrein í landinu. Hið síðara er svo að fullkomin þörf og nauðsyn er á því að taka málefni fyrirtækisins Síldarverksmiðju ríkisins til skoðunar, taka þann rekstur til skoðunar og fara ofan í saumana á honum og hefur verið um árabil að mínu mati. Þetta tvennt tel ég að vegi þarna þyngst.
    Í fyrsta lagi vil ég svo nefna að verði af þeim breytingum sem lagðar eru til í frv. hvað starfssvið Síldarverksmiðja ríkisins snertir, þá er þar um grundvallarbreytingu að ræða. Það er víðtæk breyting á hlutverki þessa fyrirtækis því að þær kvaðir sem á því hafa verið samkvæmt gildandi lögum, m.a. að taka ekki þátt í veiðunum, eru hér afnumdar. Í öðru lagi segir í síðari mgr. 2. gr. frv. að heimilt sé að breyta tilgangi félagsins á hluthafafundi. Þannig gæti mönnum með einfaldri samþykkt á hluthafafundi fyrirtækisins Síldarverksmiðja ríkisins hf., þó svo það væri jafnvel enn þá í meirihlutaeigu eða algjörlega í eigu ríkisins, dottið í hug að gerbreyta tilgangi þess og fyrirtækið færi að hasla sér völl á einhverjum nýjum skyldum eða jafnvel óskyldum sviðum. Þetta er auðvitað mjög víðtæk breyting því að fram að þessum tíma hafa Síldarverksmiðjur ríkisins verið reknar í ákveðnum tilgangi að mestu leyti að óbreyttri skipan frá 1938, ef ég man rétt.
    Í öðru lagi vil ég nefna það sem reyndar hefur þegar komið fram hjá einum ræðumanni og ég tel að ástæða sé til að staldra við og væri æskilegt að heyra nánar um viðhorf hæstv. sjútvrh. til þess. Það er hið einfalda form á alræðisvaldi til handa hæstv. sjútvrh. sem 3. gr. frv. gerir ráð fyrir. Ég tel það orka tvímælis þegar staðið er að einkavæðingu eða breyttu formi ríkisfyrirtækis með þeim hætti sem hér er lagt til, að fyrirtæki sem hefur verið í eigu ríkisins og kosin hefur verið stjórn til af Alþingi, eins og átt hefur við um Síldarverksmiðjur ríkisins um langt árabil, sé þannig með einfaldri lagabreytingu tekið út úr þeim farvegi og sett undir vald ráðherra með mjög víðtæku framsali alræðisvalds til handa þeim hæstv. ráðherra.
    Mér finnst koma mjög vel til greina, a.m.k. í ákvæðum sem væru að einhverju leyti bráðabirgðatengd, að séð væri fyrir stjórn þessa fyrirtækis áfram með svipuðum hætti og verið hefur þangað til breyttir tímar og/eða ákvarðanir um sölu þess eða endurskipulagningu í rekstri gerðu það að verkum að slíkt form væri orðið úrelt. Til dæmis gæti það verið þannig að meðan fyrirtækið væri í einu lagi og í eigu ríkisins eða að meiri hluta til í eigu ríkisins, þá sæi Alþingi áfram um að kjósa því stjórn. Það fyrirkomulag hefur tryggt aðild flestra stjórnmálaflokka að stjórn þessa fyrirtækis, breiðari skipun þeirrar stjórnar og meiri valddreifingu að mínu mati heldur en felst í því að setja þetta alfarið undir vald eins ráðherra. Ég veit að hæstv. sjútvrh er svo þroskaður stjórnmálamaður að hann tekur þetta ekki persónulega til sín enda ekki þannig meint. Ég treysti hæstv. sjútvrh. mörgum mönnum betur til að fara með umsjón þessa fyrirtækis ef sú yrði niðurstaðan og reyndin. En ég tel þetta umhugsunarefni hvað stjórnskipulag snertir og afturför í reynd og því verður tæplega á móti mælt að í þessu felist ekki valddreifing heldur valdasamþjöppun og þannig væri það skref aftur í tímann að ég hygg og er það að flestra mati.
    Í þriðja lagi vil ég svo nefna það sem mér finnst sérstaklega áfátt í frv. er að þar er ekki stafkrók að finna um það hvernig gæta skuli við þessar breytingar hagsmuna heimamanna, starfsfólks í verksmiðjunum eða viðkomandi atvinnuhagsmuna og efnahagshagsmuna í viðkomandi byggðarlögum. Hæstv. sjútvrh. nefndi þá hluti að vísu lauslega í framsöguræðu sinni en í frv. sjálfu, væntanlegum lagatexta yrði ekki stafkrók um það að finna. Þvert á móti er það algerlega opið samkvæmt þessu hvernig með þau mál yrði farið og hvernig að þeim yrði staðið. Þetta tel ég jafnframt mikið umhugsunarefni og ég held að hv. Alþingi hljóti að velta því fyrir sér, ekki síst ef það á nú fyrir okkur að liggja að standa hér áfram í miklum umræðum um einkavæðingu og uppskiptingu fyrirtækja sem verið hafa í eigu hins opinbera á næstu mánuðum og/eða árum, hvers konar verklag menn hyggjast móta sér í þeim efnum.
    Ég vil í þessu sambandi aftur minna á það fordæmi sem hér var gefið fyrir nokkrum árum síðan þegar fyrirtækið Ferðaskrifstofa ríkisins var einkavædd, skulum við segja eins og nú er í tísku að kalla það eða breytt í hlutafélag og seld að hluta til. Þá var þannig um hnútana búið af hálfu Alþingis að mjög skýr leiðsögn var í lagatextanum sjálfum hvernig standa skyldi að þeim breytingum. Þar var fyrst og fremst kveðið á um það að starfsfólki fyrirtækisins skyldi tryggður réttur til þess að taka yfir fyrirtækið. Jafnframt var ákveðið í þeim lögum að ríkið skyldi áfram eiga aðild að fyrirtækinu, a.m.k. um sinn og að lágmarki að 1 / 4 hluta þannig að ríkið gæti enn um sinn haft hönd í bagga með rekstrinum. Má þó til sanns vegar færa hvað snertir þetta eina fyrirtæki í ferðaþjónustu, sem var Ferðaskrifstofa ríkisins og var hlutfallslega miklu minni aðili í þeirri atvinnugrein heldur en Síldarverksmiðjur ríkisins eru í mjöliðnaðinum, að þá hafi ekki borið jafnbrýnar ástæður til að veita þessa leiðsögn í lagatextanum eins og hér gæti átt við að mínu mati. Síðan er það önnur saga sem ekki verður rakin hér, hvernig þetta tókst allt saman til með Ferðaskrifstofu ríkisins, reyndar að lokum allvel að mínu mati og starfsfólkið náði með góðra manna hjálp að hafa tögl og hagldir í þessu fyrirtæki og rekur það nú með myndarbrag. En það hefði ekki endilega gerst og sennilega alls ekki nema vegna þess að Alþingi tryggði stöðu starfsfólksins í þessu sambandi beinlínis með lagasetningunni sjálfri og stjórnvöld sem að þeim málum komu þegar til framkvæmdarinnar kom lögðu sitt af mörkum til þess að starfsfólkinu væri kleift að eignast þennan hlut. Ríkisvaldið var áfram þátttakandi í fyrirtækinu með minni háttar eignaraðild sem auðveldaði starfsfólkinu á hinn bóginn að ná til sín sínum hluta þar sem það þurfti ekki að ráðast í það að kaupa fyrirtækið allt á einu bretti.
    Þetta vil ég sérstaklega nefna, hæstv. forseti, og ég áskil mér allan rétt til þess að skoða, og vona að menn fallist á að það verði gert, hvort ekki sé eðlilegt að setja inn í lögin ákveðna skilmála, ákveðna leiðbeiningu um það hvernig að þessum breytingum verður staðið ef út í þær verður farið. Menn geta kallað það eftir atvikum hömlur eða skilmála sem fyrirtækinu Síldarverksmiðjum ríkisins yrðu settar þegar því yrði breytt í hlutafélag og síðan e.t.v. selt eða komið í hendur heimamanna í einu lagi eða fleiri hlutum. Þar held ég að eigi að koma til skoðunar hlutir eins og forkaupsréttur starfsmanna, heimamanna eða sveitarfélaga, allt eftir því hvernig menn vilja um þá hnúta búa. Ég tel það satt best að segja nokkurt undrunarefni að menn skuli a.m.k. ekki hafa lagt þetta mál fram og kynnt það hér með slíkum forkaupsréttarákvæðum. Það hefði ég talið hið minnsta til þess að sýna lit að um slíkan forkaupsrétt væri að ræða. Ég bendi á að í vissum byggðarlögum eru þessu fyrirtæki afar afdrifarík með sínum rekstri, annars vegar sem vinnustaðir en þó enn fremur vegna þeirra miklu tekjuáhrifa sem þau hafa í sínum byggðarlögum. Menn þekkja það að velta er geysimikil í gegnum þessa vinnslu og t.d. er það þannig að tekjur hafnarsjóðanna á mörgum þeim stöðum þar sem afkastamiklar loðnubræðslur eru reknar sveiflast um 50--70% og jafnvel 100% milli ára allt eftir því hvort veiðist meira eða minna af loðnu eða hversu mikið kemur til löndunar á viðkomandi stað og síðan afurðum til útskipunar. Með slíkum hætti hafa þessi fyrirtæki, til viðbótar því að vera auðvitað mikilvægir vinnustaðir í mörgum þessum byggðarlögum, haft afdrifaríka þýðingu fyrir afkomu fólks og sveitarfélaganna sem í hlut eiga.
    Ég tel til viðbótar því sem ég nefndi um forkaupsrétt og væri hið minnsta að mínu mati sem ætti að vera þarna til skoðunar, þá hljóti menn að eiga að hugleiða hvort ekki sé rétt að binda jafnvel enn frekar um hnútana hvað framkvæmd þessarar breytingar snertir. Ég nefndi sem dæmi þá möguleika að starfsmenn eða viðkomandi byggðarlög hefðu ákveðinn tíma, ákveðið forskot, til þess að kanna möguleika sína til að bindast samtökum, annaðhvort í heild eða hvert á sínum vettvangi, hvert á sínum stað til þess að yfirtaka fyrirtækið. Væri það óeðlilegt að þannig væri um hnútana búið með bráðabirgðaákvæði í lögunum að fyrstu 1--3 árin hefðu viðkomandi aðilar, starfsmenn, heimaaðilar eða sveitarfélög, forgang til þess að bindast samtökum eða ráðast í það að yfirtaka viðkomandi rekstur? Ég tel svo ekki vera. Menn hljóta að gera sér grein fyrir því í sambandi við atvinnustarfsemi af þessu tagi, sem ríkið hefur staðið fyrir og hefur afgerandi áhrif á atvinnuhagsmuni og fjárhag í viðkomandi byggðarlögum, að það er ekki sanngjarnt að henda mönnum fyrirvaralaust út í óvissuna og gerbreytt umhverfi í þeim efnum. Ég tel að það sé ekki sanngjarnt. Hið minnsta væri að gildistökuákvæði þessara laga væri þannig úr garði gert að menn hefðu einhvern undirbúningstíma eftir að þeir sjá hina nýju framtíð, lögfesta þá fyrir sér, til þess að safna kröftum ef menn vilja reyna slíkt. Auðvitað eru ýmsar fleiri leiðir hugsanlegar. Til greina gætu t.d. komið reglur sem miðuðu að því að tryggja heimamönnum meirihlutaaðild í félögum eða félagi sem yrði stofnað ef starfsmenn og heimamenn á viðkomandi svæðum þar sem Síldarverksmiðjur ríkisins hafa verið reknar vildu t.d. bindast samtökum um að reyna að tryggja sér meiri hluta, 51%, í hinu nýja fyrirtæki. Væru menn viljugir til þess að skoða það og auðvelda slíkt? Ég held að menn hljóti að átta sig á því að stórt fyrirtæki eins og Síldarverksmiðjur ríkisins á Siglufirði er gífurlega afkastamikil verksmiðja með 1.500 tonna afkastagetu á sólarhring. Það er stórt fyrirtæki í að ráðast að yfirtaka slíka verksmiðju. Og annað kemur svo til og það er að þessi rekstur er áhættusamur. Innan hans eru miklar sveiflur milli ára, bæði vegna sveiflna í veiðum og þó ekki síður vegna þess að þessi markaður er mjög sveiflukenndur eins og menn eru m.a. minntir á þessa dagana. Það er því augljóslega mikil áhætta í því fólgin að binda sér þungar byrðar skuldbindinga við yfirtöku á svona fyrirtæki og eðlilegt að menn sem eru þegar skuldsettir og í erfiðleikum hiki við slíkt, jafnvel á viðkomandi stöðum. Ég tel sem sagt að ef vilji er fyrir hendi til þess að tryggja með skynsamlegum og sanngjörnum hætti hagsmuni starfsfólks og byggðarlaga séu margar leiðir færar til þess og ég er þar viljugur til að skoða nánast hvaða fyrirkomulag sem menn telja heppilegast. Þess vegna mætti mín vegna bæta við í þennan hugmyndabanka möguleikum á einhvers konar kaupleigu eða leigusamningum við heimamenn yfir nokkurn tíma sem væri e.t.v. viðráðanlegri aðferð fyrir þá til þess að ná undirtökum í rekstri þessara fyrirtækja á einhverjum tíma heldur en þurfa að standa frammi fyrir spurningunni um að kaupa þau jafnvel í heilu lagi strax í upphafi.
    Síðan koma ýmsar fleiri spurningar upp í þessu sambandi sem tengjast frekar atvinnugreininni sjálfri, mjöliðnaðinum sem slíkum. Þar er langveigamesta spurningin í mínum huga: Er það skynsamlegt að hluta þetta fyrirtæki í sundur? Er það af hinu góða fyrir skipulag veiða og vinnslu í landinu í þessari grein? Ég held að það sé óhjákvæmilegt að setja ákveðið spurningarmerki í því sambandi. Styrkur Síldarverksmiðja ríkisins þrátt fyrir allt hefur verið sá að þetta fyrirtæki hefur vegna landfræðilegrar dreifingar verksmiðjanna verið betur varið fyrir sveiflum í veiðum og vinnslu að þessu leyti en önnur fyrirtæki sem bundin eru við einn tiltekinn stað. Það hafa menn m.a. séð á loðnuvertíðinni sem yfir stendur að loðnan fór ekki að verða veiðanleg að neinu ráði fyrr en hún var komin austur um Melrakkasléttu og Langanes og veiðitímabilið hefur nánast allt verið út af Austfjörðum. Þá hafa Síldarverksmiðjur ríkisins brætt af fullum krafti á Seyðisfirði og fyrirtækið notið þess að sjálfsögðu að geta keyrt þá nýju og ágætu verksmiðju af fullum krafti á sama tíma og verksmiðjur fyrir norðan hafa staðið tómar. Þannig geta sveiflurnar jafnast út vegna þess að fyrirtækið er þetta stórt og hefur bræðslur á nokkrum stöðum á landinu. Þessu yrði að sjálfsögðu fórnað ef fyrirtækinu yrði skipt upp í sjálfstæðar rekstrareiningar sem bundnar væru við hvern stað. Ég tel þess vegna, jafnframt þeim möguleika að heimamenn á hverjum stað gætu með einhverjum hætti náð undirtökum í rekstrinum á þeirri einingu sem þar er staðsett, að skoða eigi þá leið hvort byggðarlög, starfsmenn og e.t.v. fleiri aðilar sem hagsmuna eiga að gæta gagnvart Síldarverksmiðjum ríkisins í heild gætu e.t.v. sameiginlega myndað einhvers konar félagsskap um kaup á verksmiðjunum eða hlut í þeim eða yfirtöku þeirra að einhverju leyti. Það gæti haft ýmsa kosti í för með sér fyrir skipulag mjöliðnaðarins í landinu. Ég vona að ég þurfi ekki að rökstyðja frekar hvers vegna ég tel að svo sé.
    Ég vil skjóta því að í leiðinni, þótt það sé e.t.v. annað og óskylt mál en ég efast um að betra tækifæri gefist til að nefna það hér, að ég er þeirrar skoðunar að svo sannarlega væri ástæða til að taka jafnframt til skoðunar skipulag markaðs- og sölumála fyrir mjölframleiðsluna í landinu. Það er enginn vafi á því í mínum huga að við Íslendingar bíðum nokkurn veginn árlega stórtjón af því að þeir hlutir skuli ekki vera betur skipulagðir en raun ber vitni. Ég tel að sárlega vanti sölusamtök eða sölufyrirtæki, eitt eða tvö ef menn vildu frekar það fyrirkomulag, öflug og sterk, sem annist sölu á þessari vöru með samræmdum og öflugum hætti til að ekki séu þessar geysilegu sveiflur og afföll sem verða í viðskiptunum út af þeirri stöðu sem þarna er, að fjöldi smáaðila er að baksa við að selja hist og her. Það eru kauptilboð út og suður og kæmi ýmislegt skrautlegt í ljós í þeim efnum ef það væri allt saman rakið fyrir mönnum. Hér kunna að vera menn sem gætu staðið fyrir ágætri kynningu á því ef út í það væri farið. Ég er þeirrar skoðunar a.m.k. að lítill vafi sé á því að við gætum í mjöliðnaðinum með sama hætti og við höfum um áratuga skeið, t.d. við sölu á saltfiski, náð þarna miklu betri árangri ef sterk heildarsamtök önnuðust markaðsfærslu og sölu þessarar vöru erlendis fyrir okkar hönd. Það er enginn vafi á því í mínum huga. Sú er að mínu mati skýringin á því að við Íslendingar höfum með miklu færri mönnum selt miklu meira af saltfiski á miklu hærra verði en nágrannaþjóðirnar að hér hafa framleiðendur borið gæfu til þess að bindast samtökum nokkurn veginn allir í einum stórum og sterkum og öflugum sölusamtökum sem fara með þeirra hagsmuni.
    Ég veit að það er ekki í tísku í dag að halda svona ræður. Það er afskaplega ófínt og lítið í tísku

og lítið móðins að tala um svona stór sölusamtök. Þetta heitir víst einokun og er víst vont mál og jafnvel guðlast í augum ýmissa nýfrjálshyggjumanna að bera sér þetta í munn. En það er nú þannig með þetta furðulega eintak sem hér stendur, mér er alveg sama þótt þeir segi það við mig því ég hef þá sannfæringu að þetta sé svona og ég tala fyrir minni sannfæringu hvaða einkunnir sem menn gefa mér út á það. Ég er viss um það að ef við berum saman árangur Íslendinga í sölu t.d. á saltfiski svo að aftur sé tekið það dæmi og hins vegar Norðmanna og Færeyinga þá geta menn ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri að það hafi verið sérstök gæfa okkar Íslendinga að hafa náð að varðveita þessa einingu sem ríkt hefur um sölumálin á þessari vöru hér á Íslandi undanfarin ár og áratugi. Þeir dauðöfunda okkur auðvitað í Noregi, Færeyjum, Kanada og víðar út af þessari einingu sem Íslendingar hafa þarna varðveitt. Þeir eru ekki í neinum vafa um að hún er skýringin á því að Íslendingar hafa haft og halda enn að mestu leyti sinni sterku yfirburðarstöðu í markaðsmálum á þessu sviði. Sama gætum við að verulegu leyti gert innan mjölmarkaðarins, a.m.k. hér í norðurálfu og norðurhveli, því við erum langöflugustu framleiðendurnir a.m.k. á sumum tegundum fiskimjöls og stærstu útflytjendurnir. Við erum að vísu þar í samkeppni við ýmsar þjóðir, t.d. Suður-Ameríkuþjóðir, og erum ekki jafnráðandi á þessum markaði og við erum á sumum mörkuðum fyrir aðrar fiskafurðir. En það mundi vissulega styrkja stöðu okkar geysilega ef við hefðum slíkt skipulag. Ég læt þetta nægja um þennan þátt málsins sem kemur ekki beint við efni þessa frv. en mér leyfist vonandi að ræða þetta undir þessum lið, enda eins og ég segi þá er ekki víst að dagskrárefnið ,,skipulag sölumála mjölframleiðslu á Íslandi`` verði hér á dagskrá alveg á næstunni.
    Ég vil þá enn nefna það sem reyndar hefur verið bent á af nokkrum mönnum að nú stendur svo á að það horfir vænlegar í þessum atvinnurekstri en gert hefur undanfarin 2--3 ár. Það er nokkurn veginn víst að búast má við mun meiri veiði á þessari vertíð og hinni næstu og verð er a.m.k. enn þá þokkalega gott. Þetta tel ég að menn þurfi auðvitað að hafa í huga þegar ræddar eru hugmyndir um einkavæðingu og ég tala nú ekki um sölu þessa fyrirtækis nú á næstunni. Ég tel að annað tveggja hljóti að koma til álita, að ríkið skoði eignarhlut sinn í fyrirtækinu í því ljósi að vænta megi hagnaðar af því að starfrækja þessar verksmiðjur á næstu einu eða tveimur árum. Spurningin er þá sú: Vill ríkið afsala sér þeim hagnaði með því að láta hann strax úr sínum höndum eða er þá ekki eðlilegt að tillit verði tekið til þessa við verðlagningu fyrirtækisins núna? Ég minni á þau ósköp sem hentu menn í umferðarslysinu mikla, þessu eina stóra máli sem hæstv. iðnrh., þáv. dómsmrh., hefur komið hér í gegn á fimm ára embættisferli sínum þegar hann bjó til Bifreiðaskoðun Íslands hf. Glöggir menn hafa vakið athygli mína á því að það sé stærsta og reyndar má segja eina stóra framlag þáv. hæstv. dómsmrh., núv. hæstv. iðnrh. til stjórnmálasögunnar sl. fimm ár að búa til Bifreiðaskoðun Íslands. Og hvað gerðist þar? Jú, menn bjuggu til þetta einkafyrirtæki með þessum hörmulegu afleiðingum sem raun ber vitni. Búið er að okra á þjóðinni alveg gegndarlaust síðan og safna upp miklum gróða. Það versta er að svo kom í ljós að þarna var einmitt skorin niður ein besta mjólkurkýrin því að gamla, góða Bifreiðaskoðun ríkisins hafði skilað ríkissjóði hundruðum milljóna í hagnað á hverju ári. (Gripið fram í.) Það er alveg sama hvar litið er á þetta slys og hér kallar fram í góður bóndi sem veit að það er best að skera niður bestu mjólkurkýrnar og halda engu nema kálfunum, eins og núv. ríkisstjórn gerir og það geldneytum náttúrlega. (Gripið fram í.) Margt verra getur hent menn í tvísýnu ástandi en að eiga svolitlar smjörbirgðir, hv. frammíkallandi, það kennir saga íslensku þjóðarinnar okkur. Það er margt verra sem menn eiga í fórum sínum en nokkrar skökur af smjöri. En ég tel sem sagt að hæstv. sjútvrh. þurfi að skoða þetta og ég vona að hann sé tilbúinn til að taka þátt í því eða leggja því lið að sjútvn. sem væntanlega fær þetta mál til skoðunar líti á þessa hlið málsins.
    Ég vil aðeins vegna þess að hv. 3. þm. Vestf. missti það hér út úr sér að þessar verksmiðjur væru allt of margar og þyrfti m.a. að líta á þetta mál í því ljósi ræða örlítið um þá hlið málsins. Búið er að segja það býsna oft að þessar loðnuverksmiðjur séu auðvitað allt of margar og svo bullandi og gegndarlaus offjárfesting sé í þessu að engu tali tekur, þetta sé náttúrlega eins og með flotann sem sé allt of, allt of stór og þeir séu búnir að reikna það út uppi í Háskóla að helmingi minni floti gæti veitt þetta allt saman. Á þessu eru tvær hliðar eins og svo mörgu fleiru. Og ég hlýt að spyrja hv. 3. þm. Vestf. úr því að hann hóf máls á þessu: Er hann þeirrar skoðunar að loðnuverksmiðjurnar séu núna of margar eða öllu heldur of afkastamiklar? Eru þær það í dag? Er hv. 3. þm. Vestf. þeirrar skoðunar að afköstin í veiðum og vinnslu mjöliðnaðarins eða bræðslunnar í landinu séu of mikil í dag? Hvað segir reynslan okkur á yfirstandandi vertíð? Hvað segir hún okkur? Þegar við erum menn til þess að taka tillit til ógæfta og frátafa sem alltaf verða og erum því skyni bornari en reiknimeistararnir sumir að við vitum að það er ekki hægt að taka hámarksafköst verksmiðja og hámarksafköst veiðiskipa og margfalda þau með 365 dögum á ári og segja: Svona á þetta að vera. Verksmiðjurnar eiga að bræða á fullu og skipin eiga að veiða á fullu 365 daga. Þar með fáum við út þessi afköst. Þetta er allt of stórt, allt of margar verksmiðjur, of mörg skip, of mikil afköst. Þetta er auðvitað kjaftæði. Staðreyndin er sú að eins og ástandið er í dag á yfirstandandi vertíð, þá veitir ekkert af öllum afköstum loðnuflotans og bræðslnanna ef við eigum að bjarga þeim verðmætum sem loðnustofninn getur fært okkur að teknu tilliti til ógæfta og þess hvernig loðnugangan hefur hegðað sér á þessu ári. Það er staðreynd og dugir e.t.v. ekki til ef við verðum ekki þeim mun heppnari með veður og gönguna. Þetta er staðreynd sem við þurfum að muna. Það er út af fyrir sig reikningsdæmi hvort það geti borgað sig að missa stundum af örlitlum toppum í svona göngum og jafnvel afskrifa, þegar hámarksvertíðir gefast, kannski síðustu 10--20% vegna þess að reikningsdæmið kemur betur út þannig að það borgi

sig ekki að liggja með fjármagn eða fjárfestingu til þess að ná toppunum. Út í þá umræðu er ég alveg tilbúinn. En hitt er mér ljóst að ef menn ætla að ná öllum verðmætum út úr göngunni sem núna er á ferðinni, miðað við þann kvóta hefur verið leyfður og þann tíma sem er til stefnu, þá veitir ekkert af þessum afköstum.
    Ég er að vísu þeirrar skoðunar, svo að ég rói nú hv. 3. þm. Vestf., sem er farinn að ganga hér um gólf, að nokkrar af lélegustu og minnstu verksmiðjunum mættu auðvitað missa sig enda eru einhverjar þeirra sennilega á útleið. Það er því kannski réttara að reikna með svona 15 bræðslum til frambúðar en þeim 20 eða 21 sem hér eru á skrá og það er eðlilegt. Tæplega er raunhæft að endurbyggja sumar þeirra eins og þær eru á sig komnar. Ég held, eins og horfur eru varðandi loðnustofninn og þær væntingar sem við höfum stundum verið að gera okkur undafarin ár um afrakstur jafnvel úr norsk/íslenska síldarstofninum í þessu sambandi, að þá hljótum við að fara mjög varlega í því að fella stóra dóma um að þarna sé um allt of mikil afköst að ræða, offjárfestingu og þar fram eftir götunum. Það er síðan þannig að á næstum sama tíma og menn halda ræður um nauðsyn þess að auka gæði, bæta nýtingu, spara orku og draga úr umhverfismengun þá hneykslast menn á fjárfestingunni, tala sig alveg upp í hita út af því hvílíkum ósköpum sé búið að eyða í þessa grein. Staðreyndin er auðvitað sú að það hefur gengið hægt að endurbyggja og tæknivæða íslenska mjöliðnaðinn til samræmis við nútímakröfur og nútímaðastæður. Það hefur gengið mjög hægt af því að afkoman hefur verið sveiflukennd, fyrirtækin sem eiga verksmiðjurnar búa mörg hver við bágan fjárhag vegna þess að þau eru í öðrum rekstri sem ekki hefur gengið vel o.s.frv. Og því miður er það svo að enn eru margar íslensku bræðslurnar að gera allt of lítil verðmæti úr þessu hráefni af því að þær eru gamaldags með eldþurrkurum, fyrir svo utan það að þær menga stórlega umhverfi sitt. Ég held að það megi alveg eins halda ræður um hið gagnstæða að það hafi í raun verið gengið of seint að endurnýja, endurbyggja og tæknivæða íslenska mjöliðnaðinn þannig að hann væri vel í stakk búinn til að gera hámarksverðmæti úr því hráefni sem þarna er í boði. Staðan er þannig hjá okkur Íslendingum ef við lítum yfir sjávarútvegssviðið og reyndar atvinnulífið allt að það er ekki svo víða sem við sjáum fyrir okkur sæmilegar framtíðarhorfur í auðlindanýtingu af þessu tagi. Ég held að mönnum ætti að vera það ljóst núna þegar menn horfa á það hrikalega tregfiskerí sem verið hefur á bolfiski alveg síðan síðsumars og í haust sem er auðvitað svo alvarlegt að maður talar helst ekki um það ógrátandi eða upphátt. Þannig er beygurinn í mönnum sem hafa fylgst með því hvernig það hefur gengið undanfarna mánuði. En það má þó hugga sig við það og sjálfsagt að gleðjast yfir því litla sem er gott að ástandið í þessum stofnum, loðnu og síld, er þokkalegt og horfurnar a.m.k. nokkuð góðar svona nær okkur litið auk þess sem menn hafa af og til verið að gæla við stóra happdrættisvinninginn sem gæti birst hér á nýjan leik ef göngur úr norsk/íslenska síldarstofninum færu aftur að leggja leið sína hingað til Íslands.
    Áður hefur verið á það bent af hálfu ræðumanna að ríkið hefur ekki verið að leggja þessu fyrirtæki fé í gegnum tíðina. Síldarverksmiðjur ríkisins hafa ekki verið baggi á ríkissjóði Íslendinga, öðru nær. Fyrirtækið hefur byggst upp fyrir eigið rekstrarfé og auðvitað skilað stórkostlegum fúlgum í ríkissjóð með rekstri sínum og verðmætasköpun til viðbótar því sem þjóðarbúið allt hefur notið af þeim rekstri á undanförnum árum og áratugum. Það er því kaldranalegt að fjalla um þetta fyrirtæki með þeim hætti sem ýmsir hafa gert í þjóðfélagsumræðunni á undanförnum mánuðum eins og hér sé nú enn einn fortíðarvandinn á ferðinni, enn eitt sukkið, enn ein bölvuð óráðsían, einn einn ómaginn á höfuðborgarsvæðinu skilst manni. Þessar vitlausu síldarverksmiðjur ríkisins úti um allt land sem eru ekkert nema sukk og svínarí og allt það. Undir þetta hafa valdamestu valdamenn þjóðarinnar í raun og veru ýtt með sínum málflutningi. Það er a.m.k. ljóst að þetta á ekki við um Síldarverksmiðjur ríkisins. Þetta fyrirtæki hefur ekki verið ómagi á hinu opinbera. Það hefur ekki þegið þaðan fé áratugum saman og þó svo staða þess hafi versnað núna sl. 2--3 ár vegna þess aflabrests sem þá varð, eins og hjá öllum öðrum fyrirtækjum sem unnið hafa úr þessu afurðum, þá breytir það engu um það að þetta er í gegnum tíðina búið að vera hið mesta þjóðþrifafyrirtæki og á sinn þátt í þeirri verðmætasköpun, velmegnun og hagvexti sem hér hefur orðið á undanförnum áratug. Amen.
    Að lokum, hæstv. forseti, vil ég eindregið færa þá frómu ósk fram við hæstv. sjútvrh. að hann verði því velviljaður að þeir skilmálar breytinganna á Síldarverksmiðjum ríkisins sem að lokum verði hér lögfestir verði vandlega athugaðir Í nefnd Alþingis. Það geri menn með því góða hugarfari að þeir vilji gjarnan reyna að ná sátt um það hvernig að þessum breytingum verður staðið. Ég tel að það eigi ekkert sérstakt að þurfa að koma í veg fyrir það að hér geti tekist þverpólitísk samstaða um að breyta þessu fyrirtæki í hlutafélag og jafnvel að ríkið minnki síðan eignarhlut sinn í því hlutafélagi ef það verður gert með þeim hætti að sæmilega góð pólitísk samstaða takist um það. Ef skilmálarnir verða þannig útfærðir, hagsmunir starfsfólksins og byggðarlaganna verði það vel tryggðir í þessu sambandi að við getum öll orðið ásátt um það. Ég ítreka þess vegna þá ósk mína til hæstv. fjmrh. að hann verði því velviljaður að þannig verði að þessu staðið. Fáist því hins vegar ekki framgengt og verði það eitthvert trúaratriði að knýja þetta frv. hér í gegn óbreytt, þá hlýt ég því miður, herra forseti, að boða fyrirvara minn um að ég geti staðið að þeirri breytingu þótt ég sé að öðru leyti efnislega velviljaður málinu eins og ég hef hér gert sæmilega rækilega grein fyrir.