Lánasjóður íslenskra námsmanna

82. fundur
Mánudaginn 17. febrúar 1992, kl. 18:25:00 (3533)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hér hafa farið fram miklar umræður um Lánasjóð ísl. námsmanna. En það hefur verið dálítið bagalegt að hluti af þeirri umræðu hefur ekki farið fram á íslensku og ákaflega sérstætt að menntmrh. þjóðarinnar gangi fram fyrir skjöldu og ræði um mál eins og Lánasjóð ísl. námsmanna án þess að nota íslensku. Ég verð að segja eins og er að þetta hefur skapað verulegan vanda og valdið mér hugarangri ef þessi stefna á að vera viðvarandi.
    Ég hef leitað að orðinu fortíðarvandi bæði í þeirri bók sem kennd er við Blöndal og einnig nýrri útgáfu og þetta orð er ekki til. Það er til ein skilgreining á þessu orði hjá hæstv. ríkisstjórn þar sem hún felur ákveðinni nefnd ákveðið verkefni. Samkvæmt þeirri skilgreiningu er orðið fortíðarvandi hugsað á þann veg að ef sjóður á ekki fyrir skuldum, hætti hann út- og innlánum á þeim tímapunkti sem nefndin var skipuð, þá búi sjóðurinn við fortíðarvanda. Nú er farið að nota orðið á þann hátt að Lánasjóður ísl. námsmanna búi við fortíðarvanda. Það er þó vitað að hann á fyrir öllum sínum skuldum. Mér er gjörsamlega óskiljanlegt, herra forseti, hvernig hægt er að halda umræðu áfram án þess að settur sé túlkur við hlið þessara manna til að skilgreina hvað þeir eru að tala um. Hver er forsendan fyrir því að hæstv. menntrmh. leyfir sér í þingsölum að tala á öðrum tungumálum en íslensku úr þessum ræðustól þegar hann er að ræða þessi mál? ( Menntmrh.: Ég átti ekki frumkvæði að því að nota þetta orð, ég var að svara ræðu.) Það er engin afsökun hjá hæstv. ráðherra að það þurfi að skipta af íslenskri tungu yfir í einhver orðskrípafræði hér á þeirri forsendu að verið sé að svara því sem verið er að bera upp í þinginu. Ég mundi mælast til þess einnig við hv. þm. Kvennalistans að þeir haldi sig við íslensku í þessum efnum og ef þær þurfa að nota þetta orð að þær skilgreini hvað þær eru að tala um meðan ekki er hafður túlkur til þess að gera grein fyrir því hver sé hugsunin á bak við þetta. Mér þætti vænt um ef hæstv. menntmrh. notar þetta orð eftirleiðis að það fáist skilgreint, það verði sent til Orðabókar Háskólans sem nýyrði í íslenskri tungu og kannað hvort nýyrðið hlýtur samþykki þar.
    Ég vil aftur á móti víkja hér að frv. sem slíku og tala um þá stefnumörkun sem í því felst. Mér finnst það sérstæða við þá stefnumörkun að í staðinn fyrir að Alþingi Íslendinga sé gerð grein fyrir heildstæðri menntastefnu núv. ríkisstjórnar þá staðsetur hæstv. menntmrh. sig í lánasjóðnum og horfir á þjóðfélagið og menntamenn út frá því hvað hann telur að séu hagsmunir lánasjóðsins. Nú er það svo að við erum hér í þessum sal kosnir til þess að gæta hagsmuna þjóðarinnar og hljótum að verða að horfa á þetta mál út frá þeim hagsmunum. Ef kostnaður íslenskra námsmanna við nám verður stórlega hækkaður þá hlýtur það að hafa í för með sér þá kröfu að menntamenn þessa lands munu krefjast þess að fá launahækkun. Það er mjög trúlegt að sú krafa komi strax fram. Af þeim sem stunda háskólanám og koma til starfa hér innan lands fer mjög stór hluti í störf hjá ríkinu. Það má ganga út frá því sem vísu að sú krafa sem kæmi fram um launahækkun hjá þessum starfsmönnum mundi strax leiða til stórkostlegra átaka milli ríkisstarfsmanna og ríkisins, milli annarra launþega í landinu og þeirra viðsemjenda og þannig værum við að kasta boltanum í þá veru að menn væru raunverulega að efla hér stéttastríð. Mér þykir aftur á móti vænt um það og það vil ég virða við hæstv. ráðherra og er honum til mikilla málsbóta að þegar hann hefur talað um þetta mál alllengi og setið undir harðri umræðu þá hefur hæstv. menntmrh. verið maður að meiri fyrir það að hann er reiðubúinn til að vera ekki sá bókstafstrúarmaður að hann geti ekki bakkað frá vissum atriðum sem ekki fá staðist þegar menn hafa skoðað þau af íhygli. Þetta virði ég við hæstv. menntmrh. Ég virði það jafnframt við hv. 17. þm. Reykv. að hann vill að þetta mál verði skoðað vel í nefnd, farið yfir það og að þar reyni menn að komast að einhverri niðurstöðu sem gæti þó verið á breiðari grunni en það sem upphaflega var rætt um.
    Ég segi eins og er að ég óttast að þær hugmyndir, sem hér koma fram, kalli á stéttastríð í landinu. Nýtt tímabil átaka á vinnumarkaðinum. Ég óttast líka að ef þetta er sett fram með þeim hætti sem hér er verið að tala um séu menn að ýta út af borðinu möguleikum hjá stórum hópi Íslendinga til að komast inn í húsnæðislánakerfið. Ég tel hreinlega að það gangi ekki upp hjá Alþingi Íslendinga að horfa á þetta mál án þess að horfa á það í samhengi, þ.e. húsnæðismálin og þetta mál. Auðvitað geta einhverjir menn úti í bæ horft á þetta bara út frá hagsmunum lánasjóðsins. Hér í þessum sal hljóta menn að horfa bæði á þessa lagsetningu og einnig á lögin um húsnæðismál og reyna að láta þetta passa saman. Það var gert 1982. Þess vegna eru ákvæðin um lífeyrissjóðsgreiðslurnar inni.
    Ég tel að eitt atriðið í þessu sem hér hefur verið rætt þó nokkuð fram og til baka hljóti að koma einnig til álita og það er það hvort skilyrðislaust eigi að vera eitt skuldabréf í lokin. Það er mikill misskilningur að þeir sem stóðu að því á Alþingi Íslendinga, og þar á meðal sá sem hér stendur, að hafa þetta á þennan veg hafi gert það af einhverjum misskilningi. Við litum einfaldlega svo á að þótt maður treysti sér til að gangast undir ábyrgð hjá viðkomandi námsmanni sé ekki sjálfgefið að sami ábyrgðarmaður treysti sér til að fylgja þeirri upphæð áfram án tillits til þess hversu há hún verður. Þess vegna tek ég fullkomlega undir það sem hér hefur komið fram og 10. þm. Reykv. hefur m.a. verið talsmaður fyrir að rökrétt sé að hafa það opið að fleiri en eitt eða fleiri en tvö skuldabréf verði gefin út til að tryggja það að ábyrgðarmennirnir geti verið fleiri. Það er nefnilega hárrétt hjá hæstv. menntmrh. að menn þurfa að gera sér grein fyrir því þegar þeir skrifa undir ábyrgðir að þeir eru að skrifa undir ábyrgðir. En hæstv. ráðherra getur ekki á sama tíma gert ráð fyrir því að sá maður sem í fyrsta skipti skrifar undir hjá ungum námsmanni sjái fyrir hvaða blöð komi næst og þar næst. Það er gjörsamlega vonlaust að gera ráð fyrir þeirri framsýni hjá manni sem skrifar undir fyrsta skuldabréfið.
    Ég hef talað um það hér og vil enn ítreka það að að mínu viti skiptast lánþegar hjá Lánasjóði ísl. námsmanna í tvo hópa. Annars vegar í þann hóp sem stundar sitt nám og starfar hér á landi að námi loknu. Hins vegar þann hóp, sem vissulega stundar sitt nám, en starfar erlendis að námi loknu. Sá sem stundar sitt nám og starfar hér að námi loknu greiðir til baka að fullu öll sín námslán. Hann greiðir þau til baka með tvennum hætti. Annars vegar greiðir hann þau til baka í gegnum skuldabréf lánasjóðsins og hins vegar með sköttum sínum til þessa samfélags. Með sköttum sínum til samfélagsins er hann að greiða þann hluta sem upp á vantar. Hinn sem stundar sitt nám hér og hlýtur sín námslán en flytur af landi brott, gerist t.d. læknir í Svíþjóð, greiðir aldrei til baka nema hluta af námsláninu, hluta af þessum kostnaði hins íslenska samfélags. Sá hluti sem greiðist með sköttunum verður einfaldlega eftir og það er hárrétt athugað hjá hv. 17. þm. Reykv. að ég hef talið að við eigum að breyta þessu. Ég vil ganga það langt í þessum efnum að ég vil að þeir sem hasla sér völl og starfa ekki á Íslandi í framtíðinni þurfi að greiða námslánin til baka með vöxtum vegna þess að mér finnst það óeðlilegt að sum ríki leiki það að hafa lélegan stuðning við námsmenn en há laun við menntamenn. Þau eru raunverulega að kaupa þessa menn frá öðrum löndum inn í sitt efnahagslíf og ég veit að það eru ódýr kaup að gera þetta. Það er hagstætt að kaupa mann þegar hann er búinn að fara í gegnum háskóla, kaupa hann þá inn í t.d. sænskt samfélag og borga honum dálítið hærra kaup en hann fengi ef hann vildi starfa hér. En ég vil hvorki una Svíum né öðrum svo auðveldra leikreglna til að ná mönnum til sín. Það kannast allir við það að á sínum tíma þegar Austur-Þýskaland menntaði sitt fólk á kostnað ríkisins voru margir úr þeim hópi sem vildu flytja beint yfir í hinn vestræna heim á eftir og komast hjá því að greiða með sköttum sínum og lágum launum í Austur-Þýskalandi til baka til samfélagsins það sem þeir höfðu fengið þar. Það var miklu betra að fara yfir til Vestur-Þýskalands eða annars lands í Evrópu og njóta þess að hafa fengið menntunina heima en geta svo komist í hálaunaðan skala á eftir.
    Ég tel að Íslendingar séu með þessu að tryggja það í fyrsta lagi að nemandinn getur valið. Gott og vel. Hann vil fara í þetta nám, hann vill læra þetta, við viljum ekki hefta það og við viljum ekki hefta það að hann flytji til útlanda á eftir. En taki hann þá ákvörðun þá greiðir hann íslensku samfélagi til baka sín námslán með vöxtum. Vissulega höfum við engu að síður greitt mikinn heimanmund með þessum manni. Við höfum greitt fyrir hann skólakostnaðinn hér á landi.
    Það er aftur á móti algjörlega andstætt öllum mínum hugmyndum um menntastefnu að setja vexti á námslánin. Ég tel að það sé gjörsamlega út í hött. Ég sé ekki skynsemina í tiltækinu. Ég sé ekki einu sinni að það sé hægt að snúa því við og segja að námsmennirnir séu til vegna lánasjóðsins en ekki lánasjóðurinn til vegna námsmannanna. Hver er ávinningurinn af því tiltæki ef við gerum þetta? Þá erum við fyrst og fremst að setja tímasprengju inn í launakerfi opinberra starfsmanna. Þá erum við að búa til vandamál sem mundi springa innan örfárra ára. Kannski strax í næstu samningum. Kannski mundum við tryggja það að mennirnir sem komust í gegnum nám á því tímabili þegar verðbólga var hvað mest og þurftu þess vegna sáralítið að endurgreiða, fái nú gott tímabil launalega séð í þessu landi. Er það sanngjarnt? Er það keppikefli að gera það? Er það það sem við stefnum að? Erum við að tryggja að skólabræður hæstv. fjmrh. eigi kost á því að fá nú sérstaka kauphækkun af því þeir sluppu við að borga sínar námslánaskuldir til baka? Þá fá þeir sérstaka kauphækkun hjá ríkinu af því að nú vill hæstv. fjmrh. setja vexti á þá sem fara í gegn í framtíðinni? Ég sé ekki nokkra vitræna stefnu í þessum hugmyndum. Ég spyr þá sem hugleiða þessi mál í alvöru: Halda þeir að það verði til bóta í kjaraátökum í framtíðinni í landinu að stilla þessu upp á þennan hátt? Halda menn virkilega að það standi til að sú æska sem fer í þessa skóla geri það síðan af góðmennsku við ríkið að búa við launakerfi sem er það lélegt að það borgar ekki upp námsskuldirnar vegna þess að vextirnir eru komnir á þær? Trúa menn því virkilega að sparnaður verði hjá ríkinu með slíkum vinnubrögðum? Ég þekki engan sem trúir því. Ekki nokkurn aðila í reynd. Það er bara horft á málið út frá lánasjóðnum ef menn vilja líta þannig á það.
    Ég geri mér grein fyrir því að því ákvæði, sem sett var inn á sínum tíma um að við vildum styðja sérstaklega við verkmenntun í þessu landi, er hægt að stilla upp eins og hæstv. menntmrh. segir: Það er ekki sanngjarnt að mennirnir sem sitja hlið við hlið í fjölbrautaskóla búi við svo ólíka aðstöðu að annar fái námslán en hinn ekki. Það er hægt að stilla þessu upp á annan hátt. Líka er hægt að segja: Er sanngjarnt að maðurinn sem fer í gegnum verknám fái enga krónu í námslán en hinn sem fer í gegnum háskólann fái háa upphæð? Er það sanngjarnt? Er það eðlilegur stuðningur við verknám og bóknám? Og hvernig hyggst hæstv. menntmrh. bæta verknámið í landinu ef hann telur að taka beri burtu það sem verknámið þó hefur fengið í stöðunni?
    Ég hef miklar efasemdir við að þetta hafi verið hugsað í botn. Mér er vissulega ljóst að það er hugsanlegt að menn standi þannig að málum að þeir fari í verknám. Síðan haldi þeir áfram og fari líka í háskólanám á eftir. Ég vil sjá hversu algengt þetta er og hversu hættan er stór áður en ég skrifa upp á að það geti réttlætt þær hugmyndir um breytingu sem hér er verið að leggja fram. Það er líka hugsanlegt að hafa það ákvæði inni að ef menn hafa þannig staðið að málum þá dragist það frá þegar kemur að því að þeir fari í háskóla. Það væri þó ögn meira réttlæti að setja það ákvæði inn að vegna þess að maðurinn notfærði sér þetta kerfi meðan hann var í fjölbrautaskóla að þá komi það til frádráttar þegar hann fer í háskólann. Hitt er afleit hugmynd og það vona ég að hæstv. menntmrh. geri sér grein fyrir að láta sér detta í hug að gera nokkuð það sem verður til þess að fækka þeim Íslendingum sem vilja fara í verknám. Ég trúi því ekki að hæstv. menntmrh. telji að rétt sé að standa þannig að málum.
    Ég vil einnig ræða það hér að mér finnst að mál, eins og það sem hér er til umræðu, hljóti að vera mál fleiri en einnar ríkisstjórnar. Ég tel ákaflega óheppilegt að standa þannig að málum að við hver stjórnarskipti geti menn átt von á því að stuðningi við námsmenn sé gjörbylt. Það hlýtur að skapa verulegt öryggisleysi. Hver vildi búa við þær aðstæður að vera hálfnaður í læknisnámi og standa þá frammi fyrir svo gjörbreyttu lánakerfi að hann geti ekki lokið námi? Auðvitað er það ekki rökrétt að standa þannig að hlutunum. Þess vegna vil ég líka trúa því að þó að þeir aðilar sem í dag fara með meiri hluta á Alþingi Íslendinga hafi vissulega valdaaðstöðu og allan lagalegan rétt til að kollvarpa þessu, þeir hafa umboðið til þess, þá hugsi þeir sig tvisvar um áður en þeir kalla yfir sig þau átök sem af slíku getur leitt. Ég held nefnilega að það hafi verið staðreynd að hvort sem sjálfstæðismenn, framsóknarmenn eða alþýðubandalagsmenn stýrðu þessum málum, þá þurftu þeir allir að leita eftir samkomulagi við íslenska námsmenn um þessi mál og reyna að ná fram vissum sáttum. Það er nú einu sinni svo að þetta þjóðfélag byggist ekki að öllu leyti upp á því að einhverjir örfáir hafi völdin og svo verði hinir að hlýða. Það er nefnilega staðreynd, hvort sem okkur líkar það betur eða verr og ég ætla ekki að fara að lofsyngja það, að það eru ansi margar leiðir sem þessir hópar hafa til að gera samfélaginu lífið erfitt ef algerlega á að valta yfir þá. Það hafa menn viðurkennt í gegnum tíðina. Þess vegna gerðist það að í staðinn fyrir að hér á landi yrði stúdentauppreisn --- það varð aldrei nein stúdentauppreisn í þessu landi --- sáu báðir þáv. leiðtogar þessarar þjóðar sem áttu í samskiptum við íslenska námsmenn, Bjarni heitinn Benediktsson og Gylfi Þ. Gíslason, að skynsamlegra var að leita sátta og veita þeim óróleika útrás í skynsamlegri framþróun þessara mála en fara í kalt stríð.
    Ég minnist þess að þau mál voru mjög á lofti á þeim tíma þegar ég var við nám í Kennaraskóla Íslands og því er mér þetta mjög minnisstætt. Ég tel þess vegna að íslenska þjóðin hafi oft notið þess að hér voru víðsýnir menn sem sátu á valdastólum. Þeir áttuðu sig á því að það var ekki rétt í þeirri stöðu frekar en til sjós að beita kröftum einum og það þurfti líka að fara með lagni.
    Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa hér langt mál. Ég lít svo á að þetta mál hljóti

að koma til ítarlegrar umfjöllunar í menntmn., þar sem ég sit, og hér er búið að ræða það mikið um þetta mál að það yrði mikil endurtekning ef ég færi að flytja langa ræðu. Hins vegar vonast ég eftir því að sú umræða og sú vinna sem þar fer fram verði til þess að menn reyni að ná landi með breytingar á þessum lögum á þann veg að hæstv. ríkisstjórn geti við unað og einnig að stjórnarandstaðan þurfi ekki að fara í þann harða leik að greiða atkvæði gegn öllu sem lagt er til heldur að einhverjar málamiðlanir náist fram. Ég segi þetta hér vegna þess og það vil ég undirstrika að ég lít svo á að þetta mál sé stærra en svo að skynsamlegt sé að líta á það sem mál einnar ríkisstjórnar. Þessi ríkisstjórn situr vissulega við völd í dag. Hvort hún situr á morgun vitum við ekki, enn síður hvort hún situr næsta dag. Kannski situr hún næstu tólf árin, ég veit það ekki. Hvernig sem það fer, þá held ég að þeir sem nú fara með völd og stjórna þessum málum megi minnast þess hvernig þeir stóðu að á sínum tíma, Gylfi Þ. Gíslason og Bjarni heitinn Benediktsson, þegar þeir komu í veg fyrir það að stúdentauppreisnin sem þá geisaði úti í Evrópu næði til Íslands vegna þess að þeir vildu heldur semja um réttarbætur handa stúdentum en standa í þeim ófriði sem geisaði þá, m.a. í Frakklandi.