Náttúrufræðistofnun Íslands

83. fundur
Þriðjudaginn 18. febrúar 1992, kl. 14:00:00 (3538)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Mig langar til þess að segja hér nokkur orð við 1. umr. þessa máls, en eins og kemur fram í greinargerð þá var ég ein af þeim sem samdi frv. í þeim endanlega búningi sem það lítur út nú. Í nefndinni sem samdi frv. var alger samstaða að skila því frá sér eins og það er hér lagt fyrir Alþingi þannig að ég þarf ekki að hafa mörg orð, en mig langar, hæstv. forseti, að segja nokkur orð við þessa umræðu.
    Ég tel að þetta frv. sé mikil framför frá núgildandi lögum og grundvallarbreyting er lögð til á fyrirkomulagi náttúrurannsókna í landinu með setraskipulagi sem er mjög að mínu skapi. Gengið er út frá því að allir landsfjórðungar komi sér upp setri í samráði við ríkisvaldið sem sameiginlega myndi Náttúrufræðistofnun Íslands. Ekki er gert ráð fyrir því fyrirkomulagi sem hefur mjög svo tíðkast að stofnanir séu í Reykjavík og hafi útibú úti á landsbyggðinni, heldur að jafnrétthá setur myndi sameiginlega Náttúrufræðistofnun Íslands enda hlýtur náttúran að vera þeim mun áhugaverðari eftir því sem minna hefur verið malbikað af henni og á ég þar við landsbyggðina.
    Undirbúningur að þessu máli á sér langan aðdraganda og hann þekkja aðrir sem hér eru betur en ég og ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í það mál. Óhætt er að fullyrða að miklar breytingar hafa átt sér stað á aðstöðu og tilhögun náttúrurannsókna frá því að lög um Náttúrufræðistofnun Íslands voru sett fyrst. T.d. hafa atvinnuvegirnir aukið rannsóknir sínar verulega og náttúrugripasöfn hafa verið stofnuð á nokkrum stöðum á landinu þar sem rannsóknir eru stundaðar. Hverjum þykir sinn fugl fagur og ég gæti nefnt að t.d. á Eyjafjarðarsvæðinu hafa slíkar rannsóknir verið stundaðar lengi og þær eiga sér langan og merkilegan aðdraganda og langa og merkilega hefð. Sennilega er hægt að fara þar aftur til ársins 1880 með stofnun Möðruvallaskóla. Rannsóknum hefur síðan verið haldið við af kennurum gagnfræðaskólans, síðar af starfsmönnum Ræktunarfélags Norðurlands og Náttúrufræðistofnun Norðurlands.
    Mig langar að vitna örlítið í fylgiskjöl sem snerta einmitt það mál eða rannsóknir norðan fjalla en þar segir að árin 1964--1970 megi segja að Náttúrugripasafnið hafi tekið við þessari arfleifð og hafi síðan verið miðstöð náttúrurannsókna í Norðurlandsfjórðungi. Um áramótin 1987 voru formlega sameinuð Náttúrugripasafnið á Akureyri og Lystigarðurinn og hinni sameinuðu stofnun gefið nafnið Náttúrufræðistofnun Norðurlands. Samstarf Náttúrugripasafnsins og Lystigarðsins hafði þá um árabil verið mikið og náið en með heitinu Náttúrufræðistofnun Norðurlands var áhersla á það lögð að henni væri ætlað að þjóna Norðurlandi öllu. Akureyrarbær sér um rekstur Náttúrufræðistofnunar Norðurlands en þess

hefur verið farið á leit við menntmrn. að ríkissjóður fjármagi rannsóknastarfsemi stofnunarinnar og má það teljast nokkuð einstakt að slíkar grundvallar- og grunnrannsóknir í náttúrufræðum hafa verið starfræktar þarna á kostnað bæjarfélagsins.
    Eins og kemur fram í bráðabirgðaákvæði er einmitt meiningin að fyrsta setur utan Reykjavíkur verði sett á stofn á Akureyri eftir um það bil ár og fagna ég því sérstaklega.
    Frv. fjallar einnig um náttúrustofur með ríkisaðild í kjördæmum. Þeim er ætlað að rækja mjög mikilvægt hlutverk og geta m.a. gerst aðilar að sýningarsöfnum en fjárhagur slíkra safna skal vera aðskilinn. Þetta er eitt af mikilvægum atriðum í frv. að það á að greina rekstrarlega á milli rannsóknastarfsemi og varðveislu á náttúrugripum til vísindalegra nota annars vegar og náttúrusýninga hins vegar. Samt sem áður geta Náttúrufræðistofnun og náttúrustofur stutt við starfsemi sýningasafna með ýmsum hætti og ríkið getur að sjálfsögðu verið eignaraðili að slíkum stofnunum eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra. Eins og allir vita hafa náttúrusöfn mikið gildi fyrir skóla og almenning og mjög mikilvægt að tengja þau náttúrunni eins og gert er ráð fyrir með þessu frv.
    Ég leyfi mér að vona það og taka undir það með hæstv. ráðherra að þetta mál eigi greiðan gang í gegnum Alþingi.