Náttúrufræðistofnun Íslands

83. fundur
Þriðjudaginn 18. febrúar 1992, kl. 14:47:00 (3544)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að þetta frv. til laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur skuli vera komið fram og hljóta rækilega umræðu hér og þátttöku í umræðunni, þegar mælt er fyrir málinu. Mér finnst það vera mjög góðs viti og bera vott um það að áhugi er á þessu máli hjá hv. Alþingi. Ég held að skilningur hafi glæðst á þessu máli á undanförnum árum vegna þeirrar umræðu sem fram hefur farið. Vissulega kom þetta mál fram, að vísu í svolítið öðrum búningi en þó í aðalatriðum eins og það liggur hér fyrir, í tíð fyrri ríkisstjórnar. Þannig hefur málið áður komið fyrir Alþingi en það gerðist í aðdraganda alþingiskosninga. Þá var hugur manna bundinn við margt annað en stjfrv. sem voru flutt til kynningar einvörðungu eins og ljóslega var um það frv. sem lagt var hér fram í þinginu af þáv. hæstv. umhvrh., Júlíusi Sólnes, sem fékk þetta mál frá menntmrh. í eins konar heimanmund.
    Eins og fram kom í ágætu máli hæstv. umhvrh., þegar hann fór yfir málið, þá er hér verið að fitja upp á nýmælum af ýmsum toga. Ýmsir þeirra sem rætt hafa málið hér hafa gert því skil og ég ætla ekki að fara að ræða það efnislega. Ég hef komið að því á fyrri stigum og haft aðstöðu til þess að móta það að nokkru leyti ásamt því ágæta fólki sem skipaði þær nefndir sem síðast fóru yfir málið á vegum menntmrn. og umhvrn. Ég á því hlut að því eins og aðrir sem unnu að þessum undirbúningi og náðu samstöðu um þær hugmyndir sem hér liggja fyrir.
    Það hefur komið fram við umræðuna að málið á sér býsna langan aðdraganda. Ég vil nefna það hér að árið 1972, að ég held, skipaði þáv. menntmrh., Magnús Torfi Ólafsson, nefnd til þess að fjalla sérstaklega um stöðu náttúrugripasafna utan Reykjavíkur. Við vorum þrír sem áttum sæti í þeirri nefnd, þar á meðal núverandi forstöðumaður Náttúrufræðistofnunar Norðurlands, Hörður Kristinsson, svo og Sveinn Jakobsson, sem ég held að hafi þá verið forstöðumaður Náttúrufræðistofnunar Íslands. Við sömdum drög að frv. sem við skiluðum til mennmrn. 1973 í formi viðbótarkafla við þágildandi og núgildandi lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og fjölluðum þar um hugmyndina um náttúrustofur að verulegu leyti hliðstætt því sem síðan kemur fram í þessu frv. Þannig að rætur þess máls eiga sér tveggja áratuga sögu ef svo má segja, en því miður var málinu ekki fylgt eftir á árunum sem á eftir fóru.
    Einnig hefur verið nefnt að vorið 1985 sameinuðumst við tíu alþingismenn um till. til þál. um náttúrufræðisafn á höfuðborgarsvæðinu og hreyfðum þar við þeirri hugmynd að hraða í samráði við hóp áhugamanna og Náttúrufræðistofnun Íslands undirbúningi að byggingu yfir nútímalegt náttúrufræðisafn á höfuðborgarsvæðinu. Hugmyndin var tengd væntanlegu 100 ára afmæli Náttúrufræðistofnunar Íslands sem var 1989. Sú breiða aðild að þáltill. varð til þess að ýta við málinu og þáv. hæstv. menntmrh., Ragnhildur Helgadóttir, skipaði nefnd í málið sem skilaði áliti 1987 og við fengum í arf sem störfuðum í nefnd á vegum menntmrn. að málinu. Á þessum 7--8 árum sem liðin eru frá flutningi þeirrar tillögu

hefur því margt gerst í málinu og tekist hefur að renna bæði stoðum undir þá tillögu að nýju frv. um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur sem hér er rætt, svo og mótaðar tillögur um náttúrusafn á höfuðborgarsvæðinu sem nefnd menntmrn. á sínum tíma skilaði tillögum um sem hluta af álitsgerð sinni og var kynnt í sérstöku málsskjali undir heitinu Náttúruhús í Reykjavík í mars 1990. Það er því ósköp eðlilegt að hv. þm. átti sig kannski ekki fyllilega á samhenginu í þessari vinnu sem þarna var unnin á vegum menntmrn. vegna þess að ekki er fjallað ítarlega um það mál. Í grg. með þessu frv. er aðeins drepið á þennan þátt, þ.e. tillögurnar um náttúruhús í Reykjavík.
    Ég ætla ekki að fjalla um hugmyndir einstakra þingmanna sem hafa komið inn í umræðuna, en vil þó nefna það vegna þess að hv. 14. þm. Reykv. vék að ákveðnum þætti í grg. með þessu frv., þ.e. spurningunni um það hvort rétt væri að halda við Náttúrufræðistofnun Íslands sem sérstakri stofnun. Þeirri spurningu var varpað fram í álitsgerð NNN-nefndar og er hér einnig að finna í grg. með þessu frv. Ástæða þess að nefndin orðaði niðurstöður sínar um þetta mál með þeim hætti sem þarna var gert var sú að hún hafði skipunarbréf frá þáv. hæstv. menntmrh. sem gaf út af fyrir sig ekki kost á því að við færum að vísa því frá enda var það heldur ekki hugur nefndarmanna. Að athuguðu máli vorum við eindregið á þeirri skoðun sem niðurstöðu að við þáverandi aðstæður væri rétt og skynsamlegt að viðhalda Náttúrufræðistofnun Íslands en renna undir hana fleiri stoðum eins og hugmyndir komu fram um.
    Réttilega hefur verið vikið að tengslum náttúrurannsókna og þeirri starfsemi sem fer fram og á eftir að fara fram á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands við umhverfismál í landinu og var margt prýðilega sagt um það mál af hv. 5. þm. Norðurl. e., Tómasi Inga Olrich, sem talaði áðan. Ég vil taka eindregið undir þau meginsjónarmið sem komu fram í máli hans að þarna er sterkur þráður á milli og þekking á náttúrunni og aðgengilegar upplýsingar um náttúru Íslands eru auðvitað mjög gilt veganesti og verðmætt veganesti fyrir náttúruverndarstarf í landinu. Ég óttast ekki að þær stofnanir sem hér er rætt um, þ.e. Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur í landshlutunum skorti verkefni í framtíðinni. Verkefnin eru gífurlega mörg sem bíða á þessu sviði, við getum sagt því m.a. vegna þess sem ekki hefur verið komið í verk á liðinni tíð, ég vil ekki kalla það vanrækslu þó að manni detti það kannski í hug að betur hefði mátt gera. Einnig vegna þess að komin eru upp ný viðhorf í þessum málum sem kalla á auknar upplýsingar, þekkingaröflun og rannsóknir. Til þess að náttúruvernd takist svo vel sem hugur flestra Íslendinga stendur til þurfum við að hafa öflugar náttúrurannsóknir og heyja okkur vitneskju um land okkar allt og þar eru menn vissulega að vinna að máli en þar má lengi við bæta.
    Ég vona að þær hugmyndir sem tekist hefur að móta með þátttöku mjög margra sem hafa komið að þessu máli fái gott brautargengi á Alþingi. Ég vona það af einlægni.
    Ég vil vekja athygli á því að til þess að gott vinnulag og góður friður geti ríkt um þessi mál þurfa menn einnig að gæta að tengslum við aðra rannsóknaraðila í landinu. Reynt var að líta til þeirra mála eftir því sem umboð stjórnskipaðra nefnda gáfu tilefni til og ég held af þeirri reynslu sem við fengum að nauðsynin á því að viðhalda þeim tengslum og í rauninni kannski að taka mál til enn víðtækari skoðunar en hér liggur fyrir, rannsóknamálum í landinu og tengslin á milli rannsóknaraðila, sé eitt af þeim verkefnum sem Alþingi og umhvrn. þurfi að líta til í samvinnu við önnur ráðuneyti eins og menntmrn. vegna þess að við þurfum að gæta sem bestra tengsla þeirra sem þurfa að hafa samskipti í landinu. Auðvitað er það svo að fátt sem kallar jafnmikið á að landsmenn allir leggist á árar eins og þekkingaröflun um umhverfið, um náttúru Íslands og það ásamt öðru rennir stoðum undir þær tillögur sem hér eru fram bornar í þessu frv. hæstv. umhvrh. um að setur og starfsemi Náttúrufræðistofnunar Íslands geti í framtíðinni orðið víðar en á einum stað og með þessu frv. er verið að afla hugmynda og heimilda til þess að slík setur geti orðið allt að fimm talsins. Ég held að sé eitt af því sem verði til að styrkja þetta mál sé að vaxtarrými er í þeim hugmyndum sem liggja hér fyrir. Vaxtarrými skiptir mjög miklu fyrir það sem þarf að dafna og stækka eftir því sem skilningur og möguleikar leyfa, þar á meðal fjárveitingar og fyrir því er séð í tillögum frumvarpsins, bæði að því er snertir Náttúrufræðistofnun Íslands en einnig að því er varðar samvinnu ríkis við heimaaðila, sveitarfélög og fleiri um starfsemi minni eininga sem hér eru kallaðar náttúrustofur á nokkrum stöðum á landinu. Í raun var gert ráð fyrir heimild um að þær geti starfað með þátttöku ríkisins eftir ákveðnum reglum í öllum kjördæmum landsins.
    Hér hefur eðlilega verið nokkuð rætt um náttúruhús í Reykjavík í tengslum við þetta mál og fyrirspurnir til hæstv. ráðherra liggja fyrir. Ég vil segja um það mál að það er afar mikils virði að mínu mati að um það geti einnig tekist gott samstarf og samvinna þeirra sem hafa tekið höndum saman um undirbúning þess mikla máls, þ.e. Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands og ríkisvaldsins. Þetta náttúruhús í Reykjavík er hins vegar ekki einangrað fyrirbæri og ekkert eitt sér heldur er það einn þátturinn til þess að efla þann skilning sem þarf að verða á umhverfi okkar og náttúru landsins. Þar skiptir fræðslan gífurlega miklu máli og þar eru nútímaleg söfn mjög veigamikill og þýðingarmikill þáttur til þess að miðla þeirri fræðslu, ekki síst til yngstu kynslóðarinnar og skólaæskunnar í landinu. Slík söfn munu því vaxa upp víðar en í Reykjavík og þurfa að geta dafnað þar en við þurfum ákveðna verkaskiptingu í landinu og við þurfum að geta sameinast um áherslur á þessum sviðum. Auðvitað liggur það þannig að á þessu stóra þéttbýlissvæði landsins eru heimaaðilarnir með meira bolmagn en, við getum sagt því miður, úti í öðrum landshlutum eða landsfjórðungum. Því eru efni til þess að ná saman um þjóðarsafn, þ.e. öflugt náttúrufræðisafn hér á þessu svæði vegna þess fjölda sem hér hefur búsetu. Þetta skiptir ekki aðeins máli fyrir Íslendinga alla og fólk á þessu svæði heldur varðar þetta auðvitað andlit Íslands út á við mjög miklu. Við söknum þess þegar við fáum gesti til Íslands á þetta svæði sem annars staðar að við búum ekki nógu vel að þessu leyti. Ég er ekki í vafa um það að gott náttúruhús í Reykjavík með nútímalegri sýningaraðstöðu yrði verulega til styrktar fyrir ferðamennsku á Íslandi fyrir utan allt annað sem því mun fylgja og geta verið liður í því, ef rétt er á haldið, að dreifa ferðamannastraumi um landið, beina honum inn á upplýsingar og söfn annars staðar á landinu sem munu rísa og eru sumpart reyndar til staðar nokkur vísir að.
    Frv. veitir heimild til þátttöku ríkisins við uppbyggingu slíkra safna en greinir þarna á milli með skýrum hætti rekstrar þeirra, gerir ráð fyrir að þær séu sjálfstæðar rekstrareiningar og þar komi fleiri að. Gert er ráð fyrir því að ríkið þurfi ekki endilega að vera frumkvæðisaðili í slíku máli en eins og hér hefur verið réttilega bent á skiptir mjög miklu að náttúrusöfn hafi möguleika á aðdráttum frá vísindasöfnum og ráðgjöf og stuðning vísindamanna til þess að byggja upp sýningar sínar og fræðslu á sem bestum grunni. Ég vona að þeim misskilningi verði eytt sem mér finnst hafa gætt dálítið í sambandi við safnþáttinn sem tengist að vísu ekki með beinum hætti málinu en er þó hluti af því, ef við lítum á það heildstætt og við náum einnig saman um þann þátt málsins. Vissulega reynir á fleiri en Alþingi og stjórnvöld hverju sinni, það reynir einnig á hug annarra aðila sem þurfa að leggja þeim málum lið.
    Ég vænti þess, virðulegi forseti, að af þeim nýmælum sem eru fram bornar með þessu frv. megi margt gott spretta og að um málið takist samstarf á Alþingi og stuðningur verði eins og mér heyrist að öll efni standi til þannig að við fáum nýja löggjöf áður en þinginu lýkur um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur.