Verðmunur á nauðsynjavörum

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 11:04:00 (3634)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að leggja fram þessa bráðnauðsynlegu fsp. til hæstv. viðskrh. Og ég tek undir það að mér finnst að svör ráðherrans hafi alls ekki gefið tilefni til bjartsýni um að úr þessum málum sé neitt að rætast. Ég minni á að það hafa legið fyrir mjög lengi tillögur um að bæta hag dreifbýlisverslunarinnar í landinu en ekki hefur bólað á því að það sé hugmyndin að fara að framkvæma þessar tillögur í einu eða neinu.
    Ég tel að sú könnun sem fram hefur farið á verðmuninum sé hins vegar ekki alveg nægjanleg og ég hefði viljað fá athugun á því hver sé verðmunur í dreifbýlisversluninni annars vegar og hins vegar almennri smásöluverslun. Ég geri mér grein fyrir því að auðvitað er það þannig eðli málsins samkvæmt að stórmarkaðir hér í Reykjavík munu alltaf hafa einhverja yfirburðaaðstöðu. En þrátt fyrir það verðum við hins vegar að tryggja það að þeir geti ekki mismunað og þeir geti ekki notað stærð sína og kraft sinn til þess að ná niður verðinu frá heildsölum og öðrum birgjum þannig að fólk á landsbyggðinni sé í raun og veru að borga herkostnaðinn af þeirri samkeppni sem nú á sér stað í Reykjavík milli þessara stórverslana.