Gjafakort sem heimila líffæraflutninga

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 11:15:00 (3641)

     Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 379 hef ég borið fram fsp. til hæstv. heilbrrh. um gjafakort sem heimila líffæraflutninga. Á síðustu áratugum hefur það færst í vöxt að fólki, sem hefur átt við erfiða ólæknandi sjúkdóma að stríða, hefur verið bjargað með því að það hefur þegið líffæri frá öðrum. Slíkar aðgerðir hafa ekki verið framkvæmdar hér á landi en engu að síður hefur lífi nokkurra Íslendinga verið bjargað á þennan hátt. Þær aðgerðir hafa allar verið framkvæmdar erlendis. Nokkrir líffærabankar eru starfandi í heiminum en líffærabanki er stofnun sem tekur við líffærum frá þeim sem veitt hafa heimild til brottnáms líffæris eða líffæra úr líkama sínum eftir dauða. Á vegum heilbrigðisstofnana eða heilbrigðisráðuneyta víða um heim eru gefin út svokölluð gjafakort sem er yfirlýsing þess, sem undir kortið ritar, að nota megi líffæri hans að honum látnum til ígræðslu í aðra eða til læknismeðferðar í þágu annarra.
    Hér á landi eru slík kort í umferð þó ekki séu þau á vegum heilbrrn. eða stofnana þess. Þessi kort eru framtak eins manns, Snorra Ólafssonar. Fjölskylda hans hefur af eigin raun kynnst mikilvægi þess að eiga kost á ígræðslu líffæra. Snorri hefur, eins og ég sagði, hafið dreifingu á slíkum gjafa- eða heimildarkortum. Kortin fær hann frá Englandi og eru þau því með enskum texta en íslensk þýðing fylgir með. Samkvæmt upplýsingum hans bera nú um 500 Íslendingar þessi kort á sér. Þetta framtak Snorra er lofsvert og eftir því sem ég best veit er þetta gert með vitund landlæknis og heilbrrn. Ekki veit ég þó hvaða gildi þessi kort hafa hér á landi á meðan ekki hafa verið settar reglur um þessi efni. Eðlilegra verður því að telja að útgáfa slíkra korta sé ekki aðeins með fullri vitund ráðuneytis heldur á vegum þess og undir eftirliti og kortunum verði dreift samkvæmt reglum sem ráðherra setur. Hvarvetna í heiminum þar sem gjafakort, sem heimila brottnám líffæris eftir andlát, eru gefin út er það gert samkvæmt ákvörðun yfirvalda heilbrigðismála og reglum settum af þeim.
    Nú þegar hefur lífi nokkurra Íslendinga verið bjargað með ígræðslu líffæra. Þótt slíkar aðgerðir séu ekki gerðar hér á landi getum við lagt okkar af mörkum með því að stjórnvöld gefi út þessi umræddu kort og sjái til þess að þeir sem vilja gefa líffæri eftir andlát sitt hafi kost á að undirrita gildandi yfirlýsingu þar að lútandi. Því spyr ég hæstv. ráðherra:
    ,,Mun ráðuneytið beita sér fyrir útgáfu og dreifingu á svokölluðum gjafakortum þar sem einstaklingur gefur samþykki til brottnáms líffæris úr eigin líkama? Ef svo er, hvenær má vænta þess að slík kort

verði tilbúin? Verða settar ákveðnar reglur um dreifingu þeirra?``
    Ég vil í framhaldi af þessari spurningu og í ljósi þeirrar staðreyndar að nú ganga a.m.k. 500 Íslendingar með umrædd ensk gjafakort á sér spyrja hæstv. ráðherra að því hvort samningur hafi verið gerður eða sé í undirbúningi við einhverja erlenda líffærabanka eða erlenda sjúkrastofnun um líffæri hugsanlegra líffæragjafa.