Úrræði fyrir vegalaus börn

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 11:45:00 (3652)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Áður en vikið verður að þeim spurningum sem til mín er beint er nauðsynlegt að skoða forsögu málsins og fjalla stuttlega um þann hóp barna sem hefur verið gefið það heiti að vera vegalaus.
    Í ársbyrjun 1990 barst þáv. menntmrh. Svavari Gestssyni erindi frá nokkrum sérfræðingum sem höfðu starfað saman í því skyni að finna úrræði fyrir vegalaus börn. Fyrirspyrjandi hefur farið yfir hvernig þessi hópur er skilgreindur og skal ég ekki endurtaka það hér. Erindi var sent þáv. menntmrh. þar sem barnaverndarmál heyra undir ráðuneyti menntamála. Að mati menntmrn. lá hins vegar ekki beint við undir hvaða ráðuneyti mál þetta heyrði þar sem venjuleg barnaverndarúrræði virtust ekki eiga við, þ.e. fósturheimili. Því leitaði menntmrn. eftir samstarfi heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytisins í því skyni að finna lausn á málinu. Líklega lá þessu til grundvallar sú spurning hvort líta bæri á umrædd börn sem sjúklinga sem þá gæfu þeim rétt á þjónustu í heilbrigðiskerfinu eða fötluð sem í því tilviki ættu að njóta þjónustu samkvæmt lögum um málefni fatlaðra. Þetta var aðdragandi þess að stofnað var til samstarfshóps þessara þriggja ráðuneyta, félags-, mennta- og heilbrigðisráðuneyta sem áttu að vinna að tillögum um að komið yrði á fót meðferðarheimili fyrir 6--7 börn á aldrinum 7--12 ára.
    Niðurstöður þessa hóps voru á þá lund að keypt yrðu hús á Stór-Reykjavíkursvæðinu þar sem starfrækt yrðu meðferðarheimili fyrir vegalaus börn. Ég kynnti tillögur ráðuneytahópsins fyrir ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar á fundi ríkisstjórnarinnar 17. júlí 1990. Þar var samþykkt að fulltrúar þeirra þriggja ráðuneyta sem unnið höfðu í málinu ásamt fulltrúa dómsmrn. undirbyggju málið til athugunar við gerð fjárlaga fyrir árið 1991. Ekki náðist samstaða við fjárlagagerðina á árinu 1990 um að leggja fé til þessa máls sem lagt var til af hálfu félmrn. það árið.
    Skal nú vikið að spurningum hv. þm. Fyrst skal svarað þeirri spurningu sem lýtur að mati mínu á úrræðum sem nauðsynleg eru til að koma til móts við þarfir þessara barna. Ég hef látið yfirfara málefni þessa hóps barna í félmrn. á nýjan leik frá grunni. Niðurstaða þeirrar yfirferðar er sú að óhjákvæmilegt er að líta á málið sem barnaverndarmál og því verði lausnin að verða á grundvelli barnaverndarlaga. Samkvæmt sérfræðiáliti sem samstarfshópur ráðuneytanna lét vinna geta umrædd börn ekki talist fötluð í skilningi laga um málefni fatlaðra. Að mati sérfræðinga þarfnast börn þessi ekki fyrst og fremst læknishjálpar heldur heimilis þar sem boðið er upp á félagslega hæfingu og meðferð. Það sem einkennir þennan hóp barna er að þau skortir fyrst og fremst trausta forsjáraðila og því eru þau flest á ábyrgð barnaverndarnefnda. Talið er að finna megi fósturheimili fyrir sum barnanna að lokinni 1--2 ára meðferð. Önnur eru það illa stödd að búast má við að þau þurfi varanleg meðferðarheimili til fullorðinsára. Unglingaheimili ríkisins sinnir þeim börnum sem eldri eru en 12 ára. Því hefur vöntunin fyrst og fremst verið fyrir þá sem yngri eru. Unglingaheimili ríkisins er rekið á grundvelli barnaverndarlaga fyrir sveitarfélögin en barnaverndarmál eru viðfangsefni sveitarfélaga svo sem kunnugt er. Með sama hætti tel ég að ríkinu beri að reka meðferðarheimili fyrir hin vegalausu börn. Ég skal viðurkenna að ákvæði gildandi barnaverndarlaga eru ekki jafnafdráttarlaus um skyldu ríkisins til að reka meðferðarheimili fyrir börn eins og unglinga. Hins vegar tel ég að heimildin til þess sé óyggjandi.
    Á þessu þingi verður lagt fram stjfrv. að nýjum lögum um vernd barna og ungmenna. Frv. þetta var samið að mestu leyti í embættistíð hv. fyrirspyrjanda sem lagði það fram á síðasta þingi og varð það þá ekki afgreitt.
    Þannig segir í 56. gr. þess frv. sem ber heitið ,,Heimili fyrir börn og ungmenni``, með leyfi forseta:
    ,,Heimili sem undir kafla þennan falla eru hvers konar vistheimili eða meðferðarheimili fyrir börn eða unglinga, hjálparstöðvar eða neyðarathvarf fyrir unglinga, sumardvalarheimili, sumarbúðir eða önnur heimili sem taka börn til uppeldis, umönnunar eða aðhlynningar um langan tíma eða skamman enda falli þau ekki undir önnur lög.``
    Þá segir í sömu grein: ,,Félmrn. er skylt að reka unglingaheimili svo og meðferðarheimili fyrir börn sem eiga við hegðunarerfiðleika að stríða.`` Frv. gerir ráð fyrir að málaflokkurinn flytjist frá menntmrn. til félmrn. Verði frv. afgreitt á yfirstandandi þingi mun ég láta mál þetta sérstaklega til mín taka vegna fjárlagagerðar 1992.
    Ég vil nota þetta tækifæri til að vekja á því athygli hversu núverandi rekstrarform Unglingaheimilis ríkisins er óheppilegt og því er að mínu mati það rekstrarform ekki heppileg fyrirmynd að meðferðarheimili fyrir vegalaus börn. Þannig háttar nú að enda þótt rekstur unglingaheimilisins sé á vegum ríkisins er sveitarfélögunum gert að greiða daggjald fyrir dvöl unglinga á deildum þess. Á þessu er þó ein undantekning, deild fyrir unga vímugjafaneytendur, meðferðarheimilið að Tindum þar sem rekstrarkostnaður fellur að öllu leyti á ríkissjóð. Ekki er í sjálfu sér til nein eðlileg skýring á þessu mismunandi fyrirkomulagi. Meiru skiptir þó að daggjöld á aðrar deildir unglingaheimilisins eru mjög há. Þannig geta sveitarfélög þurft að greiða vel á aðra milljón fyrir vistun eins unglings í eitt ár. Því er augljóst að það er ekki á færi annarra en fjársterkustu sveitarfélaganna að færa sér unglingaheimilið í nyt. Fyrir það líða margir unglingar. Nýting rýma á unglingaheimilinu hefur jafnframt verið slök af þessum ástæðum. Enn fremur hef ég vitneskju um að afar illa gengur að innheimta daggjöldin hjá sveitarfélögunum og er það ein meginskýring þess að heimilið hefur farið fram úr á fjárlögum. Ég álít að þessu þurfi að breyta og að ríkissjóður reki

úrræði af þessu tagi enda er um mjög sérhæfða þjónustu að ræða. Einstök sveitarfélög og stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga hafa oft ályktað um afnám þessara daggjalda. Auðvelt ætti því að vera að ná samningum við sveitarfélögin um að þau tækju önnur útgjöld á móti greiðsluskyldu vegna rekstrar unglingaheimilisins. Þannig mætti hugsa sér að ríkið hætti á móti að greiða framlag vegna umönnunar fatlaðra barna á leikskólum eða aksturs fatlaðra en um svipuð útgjöld er að ræða í báðum tilvikum auk þess sem slík breyting fæli í sér einföldun í stjórnkerfinu.
    Í fsp. er spurt hversu mörg börn séu talin vegalaus að mati félmrn. Í gögnum málsins frá þeim tíma að það var til skoðunar á vegum samstarfsnefndar ráðuneytanna kom fram að hér væri um um það bil 20 börn að ræða. Ekki hefur verið gerð athugun á því síðan. Nú er hins vegar í undirbúningi sérstök athugun á þeim fjölda barna sem um gæti verið að ræða. Slíkt þarf að kanna mjög vandlega áður en nokkrar ákvarðanir eru teknar svo að úrræði verði hæfileg. Ég vil sérstaklega vara við þeim hugmyndum að meðferðarheimili séu vænleg lausn í barnavernd, almennt séð. Við verðum að gæta þess að hér á landi verði ekki komið upp munaðarleysingjahælum sem víða þekkjast erlendis. Áfram verður að fylgja þeirri stefnu að freista þess að finna börnum fósturheimili þangað til það er fullreynt.
    Spurt er hvar þau börn, sem um ræðir, eru vistuð. Flest þessara barna eru nú vistuð á barna- og unglingageðdeild Landspítalans, Meðferðarheimili barna á Kleifarvegi og vistheimili barna á vegum Félagsmálastofnunar Reykjavíkur við Mánagötu og Hraunberg hafa einnig vistað þennan hóp. Álitið er að nokkur hluti þeirra sé í tímabundnu fóstri og raunar séu tíð skipti fósturheimila hlutskipti þeirra barna sem kölluð hafa verið vegalaus.
    Að lokum vil ég láta það álit mitt í ljós að fyllilega er tímabært að barnaverndarmálum sé meiri gaumur gefinn. Umhyggja okkar fyrir þeim sem eru smæstir á meðal hinna smáu hefur verið meiri í orði en á borði. Á því verður að verða veruleg breyting svo um munar.