Málefni fatlaðra

87. fundur
Mánudaginn 24. febrúar 1992, kl. 15:24:00 (3716)


     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Mig langaði til þess að koma að örfáum atriðum í sambandi við frv. um leið og ég tek undir margar þær athugasemdir sem fram hafa komið hjá hv. 14. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Vestf. Ég tel að mörg atriði séu í frv. sem þarf að skoða og velta aðeins nánar fyrir sér.
    Það sem mér finnst ástæða til að undirstrika, svona til að byrja með, er það að núv. kerfi í þjónustu við fatlaða hefur gengið vel og hefur skilað miklum árangri. Stórfelldar breytingar hafa orðið á högum fatlaðra á Íslandi og þjónustu við þá á undanförnum árum eða frá því að lögin um málefni fatlaðra voru sett. Til marks um það eru nokkrar tölur.
    Í fyrsta lagi er t.d. sú staðreynd að á síðustu árum frá því að lögin voru sett hafa verið sett upp

50 sambýli og meðferðarheimili fyrir fatlaða á Íslandi.
    Í annan stað er sú staðreynd að ákveðið hefur verið að veita fjölskyldum beina aðstoð með sérstökum hætti. Á síðasta eða næstsíðasta ári fengu 634 fjölskyldur beina aðstoð samkvæmt lögunum um málefni fatlaðra.
    Í þriðja lagi má benda á að leikfangasöfn eru núna 14 talsins og þaðan er veitt margvísleg ráðgjöf af ýsmu tagi.
    Í fjórða lagi má benda á að framlög til málaflokksins árið 1983 voru 655 millj. kr. en 1992 1.926 millj. kr. á sambærilegu verði. Hækkun úr 655 millj. kr. í 1.926 millj. kr. er þreföldun eða hækkun um 200% á 10 árum.
    Hér er auðvitað um byltingarkenndar breytingar að ræða og ástæða er til að hafa í huga að í grófum dráttum hefur þjónustukerfið við fatlaða reynst vel. Það hefur þróast skynsamlega. Á undanförnum árum hefur það verið þannig að hingað hafa komið m.a. útlendingar sem hafa verið að kynna sér málefni fatlaðra almennt. Þeir hafa verið mjög ánægðir með það kerfi sem komið hefur verið upp á Íslandi. Í alþjóðlegum tímaritum um málefni fatlaðra er kerfið talið til fyrirmyndar af ýmsum ástæðum, bæði faglegum en ekki síður vegna þess að hér hefur verið unnt að dreifa þjónustunni um allt land með skipulegum hætti þannig að nú er þjónusta við fatlaða í öllum landsfjórðungum.
    Ég hef fylgst dálítið með þessum málum á 10 árum og ég verð að segja að ég held að fáir þættir hinnar félagslegu þjónustu hafi skilað eins miklum árangri og þjónustan við fatlaða. Ástæða er til að þakka fyrir það. Stjórnarnefndin um málefni fatlaða fer í deild félmrn. sem hefur haft með þessi mál að gera og öllum þeim stofnunum sem hér um ræðir. Og það er ekki lítill árangur að sjá tugi einstaklinga sem maður þekkir sjálfur og höfðu verið vistaðir á stofnunum t.d. á þéttbýlissvæðinu um árabil og höfðu í raun og veru mjög lítinn árangur sýnt. Þessir einstaklingar hafa síðan komist á ýmsar stofnanir fatlaðra úti um landið, ég nefni Bræðratungu sem dæmi, þar sem þeir hafa tekið stórstígum framförum, taka nú þátt í atvinnulífinu með skilmerkilegum hætti og verða þannig öllum sem til þekkja til ánægju og gleðiauka.
    Þær röksemdir sem ég flyt hér eru röksemdir fyrir því að menn eiga að fara mjög varlega í að breyta lögunum um málefni fatlaðra. Menn eiga ekki að breyta þeim öðruvísi en að þeir séu alveg vissir um að breytingin sé til bóta. Þessu á ekki að breyta breytinganna vegna. Í frv. eru nokkur atriði sem ég satt að segja sé ekki að séu að öllu leyti til bóta án þess að ég sé neitt ða fordæma þau í sjálfu sér.     Það fyrsta sem ég nefni í því sambandi eru ákvæðin um vernduðu vinnustaðina. Því virðist algerlega vera slegið föstu að verndaðir vinnustaðir tilheyri sögunni, þeir eigi eiginlega að hverfa og að fatlaðir einstaklingar eigi að vera úti á hinum almenna vinnumarkaði. Það er allt gott um það að segja, það er allt rétt. Því er jafnframt slegið föstu að vernduðu vinnustaðirnir hafi ekki skilað þeirri endurhæfingu og hæfingu fyrir fatlaða einstaklinga sem nauðsynlegt sé að krefjast. Það er sjálfsagt líka rétt, en ekki í nærri öllum tilvikum. Ég nefni t.d. vinnustaðinn Örva sem hefur skilað miklum árangri í þessum efnum og ég gæti nefnt fleiri dæmi.
    Ég held að sú staðreynd að vernduðu vinnustaðirnir hafi kannski ekki skilað þeim árangri sem menn vonuðust til stafi ekki af því að vernduðu vinnustaðirnir hafi byggst á rangri hugmyndafræði í upphafi. Ég held hins vegar að það þurfi að endurskoða starfsemi þeirra sem slíkra. Ég held að verndaðir vinnustaðir þurfi að vera til en þeir þurfi aftur á móti að vera í nánu og skipulegu samstarfi við hinn almenna vinnumarkað og við atvinnuleit fatlaðra líka. Það þarf að byggja þá með lifandi, skilvirkum og gagnkvæmum hætti inn í þjónustukerfi fatlaðra yfirleitt. Þess vegna segi ég: Ég er ekki tilbúinn til að skrifa upp á það nema ég heyri einhver önnur rök og þá áskil ég mér allan rétt til að fallast á þau. En á þessu stigi málsins er ég ekki tilbúinn til að skrifa upp á það að vernduðu vinnustaðirnir hafi sungið sitt síðasta vers og ástæða sé til að samþykkja lagafrv. sem í raun og veru stefnir að því að leggja þá niður.
    Í öðru lagi verð ég að gera þá athugasemd við frv. að mér finnst að í því séu gefin mörg óljós loforð án þess að ég sjái innstæðurnar fyrir þeim. Ég held að á þeim samdráttartímum tímum sem við lifum núna eigi menn ekki að gefa önnur loforð en þau sem innstæður eru fyrir. Annað veldur vonbrigðum og menn eiga að gæta sín á því. Ég nefni t.d. húsnæðismálin í því sambandi. Hver á að borga það? Það eru sveitarfélögin. Hefur verið talað við sveitarfélögin? Munu sveitarfélögin taka þátt í því að byggja upp húsnæði fyrir fatlaða, taka hluta af hinu félagslegu húsnæði fyrir fatlaða? Virðulegi forseti, ég dreg í efa að það liggi fyrir í öllum tilvikum. Ég held þess vegna að ekki sé hægt að vísa fötluðum frá sambýlunum og yfir í hið félagslega húsnæðiskerfi. Ég held að það sé ekki sönn tilvísun vegna þess að hún er innstæðulítil í þessu efni. Þó að margt megi segja um sambýlin og vafalaust margt gagnrýna og sjálfsagt að hugsa þá hugsun til enda hvort hægt sé að breyta starfsemi þeirra þannig að þetta verði nær því að verða almennar íbúðir fyrir fatlaða. Ég held að þarna sé ekki um að ræða hlut sem við værum alveg tilbúin til að ákveða. Ég vil a.m.k. fyrir mitt leyti skoða það mál aðeins nánar.
    Í þriðja lagi verð ég að segja alveg eins og er að ég sé engan tilgang með því að setja mennta- og heilbrigðisráðuneytið út úr þessu þjónustukerfi. Menntmrn. og heilbrrn. hafa tekið þátt í þessu kerfi með þeim hætti að vera með mann í stjórnarnefndinni um málefni fatlaðra og ég veit ekki betur en samstarfið hafi bara verið gott. Ég get ekki neitað því að í þau skipti sem ég hef gegnt starfi menntmrh. eða heilbrrh. hefur komið fyrir að manni hafi fundist tillögurnar kannski ekki alveg 100% miðað við þau ráðuneyti og hafi því viljað gagnrýna þær. En staðreyndin er samt sú að menntmrh., a.m.k. sá sem hér stendur, skrifaði alltaf upp á niðurstöður úthlutunarnefndarinnar á sínum tíma þannig að ekki var um að ræða ágreining við menntmrn. á undanförnum árum. Þó að við værum auðvitað oft mjög óánægð með það hvernig þessum peningum var ráðstafað þá féllumst við þá þær niðurstöður.
    Ég held að við þurfum á því að halda að félagsþjónustukerfið við fatlaða sé samþætt kerfi. Ég held að við þurfum á því að halda að sem flestir komi að því. Ég held að í málefnum fatlaðra eigi við alveg sömu rökin og t.d. í málefnum ungra fíkniefnaneytenda, svo að ég nefni dæmi, eða í málefnum vegalausra barna, svo að ég nefni annað dæmi, eða í málefnum unglinga, svo að ég nefni þriðja dæmið. Vandamálin hjá þessum hópum spyrja ekki um ,,addressur`` í ráðuneytum. Vandamálin verða bara til með ýmsum hætti. Þau spyrja ekki um það hvar ráðuneytið situr, hvort sá sem lendir í vandamáli er ekki ,,akkúrat`` að hugsa um það undir hvaða ráðuneyti hans vandamál heyrir. Þess vegna held ég að það sé rangt að hólfa þetta fast inn í eitt ráðuneyti eins og hér er gert þó að ég taki auðvitað það fram, virðulegi forseti, að ég áskil mér allan rétt til þess að fallast á rök félmrh. í þessu efni en ég heyrði þau ekki þegar hún hafði framsögu fyrir málinu að þar væri um nægilega gild rök að ræða.
    Í fjórða lagi finnst mér að ýmis ákvæði í frv. séu óljós og stuðli eins og hv. 10. þm. Reykv. nefndi að óþarfa togstreitu milli ríkis og sveitarfélaga. Í því sambandi nefni ég 22. gr., ég nefni 25. gr., ég nefni 34. gr. um félagslegar íbúðir, ég nefni 35. gr. um ferlimálin og ég nefni einnig 36. gr. Ég ætla ekki að fara fyrir þessar greinar í einstökum atriðum. Ég get svo sem gert það við annað tækifæri ef þörf krefur og mun koma þessum athugasemdum á framfæri við félmn. Alþb., hv. 5. þm. Vestf. Ég held að menn þurfi að gæta þess að kveða skýrt að í slíkri löggjöf, ekkert hér um bil og kannski heldur skýrt og gefa ekki innstæðulítil eða innstæðulaus loforð.
    Ég vil líka taka undir það sérstaklega sem hv. 5. þm. Vestf. sagði áðan um fjárln. Hvað er verið að þvæla henni inn í þetta? Ætla menn þá kannski að breyta kerfinu hér þannig að fjárln. verði yfirleitt með fulltrúa í svona stjórnum? En af hverju þá ekki Húsnæðisstofnun? Af hverju þá ekki Byggðastofnun? Af hverju þá ekki stjórnarnefnd ríkisspítalanna svo að ég nefni dæmi. Hvaða rök eru fyrir því að hún sé þarna sérstaklega? Ef Alþingi tilnefnir mann í nefnd, á að gera það beint og milliliðalaust. En það er ekki og það er slæmt fyrir fjárln. að koma að málinu með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir þannig að ég sé satt best að segja engin rök fyrir því.
    Svo spyr maður sig að því sem er því miður náttúrlega aðalatriðið: Hvar eru peningarnir? Þá flettir maður upp í fjárlaga- og hagsýslustofnun. Ég vil segja alveg eins og er að ég hef ekki gefið allt of mikið fyrir þær umsagnir um kostnað á félagslegri þjónustu yfir höfuð og ég geri það heldur ekki enn. En hér er talað um nokkrar breytingar á fjármögnun þessara málaflokka, og hverjar eru þær? Að því er varðar aukið fé í málaflokknum gæti verið um að ræða að þjónusta við fatlaðra í skólum og sjúkrastofnunum verði fjármögnuð beint af ríkissjóði og verði 20--30 millj. sýnist mér. Ég ætla að segja hins vegar við virðulegan forseta, ég hef ekki mikla trú á því að þessir peningar náist frekar þarna sem sérstakt framlag úr ríkissjóði en sem hluti af Framkvæmdasjóði fatlaðra. Ég held að það sé betra að það sé Framkvæmdasjóður fatlaðra sem sér um þessi mál. Ég held að það sé betra fyrir málaflokkinn því að reynsla okkar, sem höfum verið lengi á Alþingi og tekið þátt í því að skerða og skera hluti sundur og saman aftur og aftur, er sú að það er miklu auðveldara að verja sjóðinn en margt annað. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að ekki eigi að taka þetta út úr. Þetta eigi áfram að vera verkefni Framkvæmdasjóðsins og menntmrn. og heilbrrn. eigi að vera aðilar að þessu svo sem verið hefur. Ég sé a.m.k. ekki að þetta aukna fé sé í hendi.
    Nú fæst aukið fé með því að félagslegar íbúðir koma til sögunnar og sveitarfélögin koma inn í það. Það er sýnd veiði en ekki gefin. Gert er ráð fyrir göngudeild fullorðinna við Greiningarstöðina sem kosti 10--12 millj. Ég á eftir að sjá að það verði samþykkt að stofna hana. Eru nýjar stöðuheimildir væntanlegar í þeirri stofnun á fjárlögum ársins 1993 eða hvað? Er það þannig að menn séu tilbúnir til þess að slá því föstu? Það eina, sem þarna haldfast að mínu mati, er tillaga um 60 millj. á ári í nokkur ár í sambandi við íbúðir geðfatlaðra. Það er mjög gott og ég þakka hæstv. félmrh. og ríkisstjórninni fyrir rausnarskap á þessu sviði en ég á eftir að sjá að það takist að ná þessum peningum en vonandi tekst að ná þeim og við skulum ekkert vera að gera lítið úr því og við skulum hjálpa til við það að þeir náist.
    Þar á móti kemur svo að ýmsar aðrar breytingar eru á þeim þjónustuþáttum sem verið er að gera. Verið er að taka 10% til þess að lagfæra opinberar byggingar en samkvæmt lögum á ríkið að gera þetta. Það stendur í sérstökum lögum sem voru sett vorið 1980 eða 1981 um aðgengi fatlaðra að opinberum byggingum að ríki eigi að gera þetta. Af hverju er verið að létta þeirri lagaskyldu sérstaklega af ríkissjóði eins og hér er gert? Auðvitað er rétt eins og bent hefur verið á að lítið hefur gengið í ýmsum ríkisstofnunum í þessum efnum. En ég segi við þingheim: Ég stórefa að þetta gangi neitt betur með þessum hætti. Ég sé engin rök fyrir því að ætla það. En hérna er bersýnilega verið að skerða sjóðinn um allt að 10% frá því sem ella hefur verið.
    Ég vil einnig víkja sérstaklega að 49. gr. í sambandi við fjármuni en þar sé ég ekki betur en sé verið að leggja á þjónustugjöld. Þjónusta og annar rekstrarkostnaður samkvæmt lögum þessum greiðist úr ríkissjóði. Þó skulu sveitarfélög greiða kostnað vegna liðveislu, ferlimála og ferðaþjónustu. Um kostnað vegna leikskóladvalar fatlaðra barna sbr. 20. gr. fer samkvæmt lögum um leikskóla, nr. 48/1991, segir í þessari grein. En í greinargerð frá fjárlaga- og hagsýslustofnun eru þessi ákvæði túlkuð eins og hér sé um að ræða þjónustugjöld.

    Rétt er að vekja athygli á því að til lækkunar á kostnaði ríkissjóðs er í frv. heimild til að innheimta þjónustugjöld vegna skammtímavistunar fatlaðra og stuðningsfjölskyldna. Þá er í 14. gr. heimild til að semja við sveitarfélög um að annast einstaka þjónustuþætti við fatlaða sem gætu orðið til hagræðingar eða lækkunar á kostnaði. Ég held að óhjákvæmilegt sé að spyrja aðeins nánar út í þetta en þegar maður skoðar fjárhagskaflann í frv., bæði plúsa og mínusa, frá sjónarmiði fatlaðra þá held ég að mínusarnar séu a.m.k. jafnmargir og plúsarnir þrátt fyrir þetta 60 millj. kr. framlag til geðfatlaðra. Það er auðvitað óhjákvæmilegt að hv. nefnd sem fær þetta til umfjöllunar skoði sérstaklega hvort það geti verið að þegar upp er staðið séu ekki miklu meiri peningar í þessu, jafnvel minni en eru í lögum um fatlaða nú þegar.
    Ég endurtek það sem ég sagði í upphafi, virðulegi forseti. Þjónustukerfið við fatlaða hefur gengið vel. Það eru 50 sambýli og meðferðarheimili á 10 árum. Það er hækkun á fjárframlögum úr 650 millj. í 1.920 millj. á 10 árum. Það er gríðarleg hækkun, það er 200% raunhækkun. Úr því að kerfið hefur þó gengið þetta vel og skilað þó þetta miklum árangri fyrir fatlaða skulum við fara varlega í að breyta því öðruvísi en það sé tryggt að breytingarnar séu ekki aðeins breytinganna vegna heldur í þágu fatlaðra.