Vegáætlun 1991--1994

88. fundur
Þriðjudaginn 25. febrúar 1992, kl. 15:21:00 (3744)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu er í senn mjög mikilvægt og vekur líka ætíð mikla athygli, sérstaklega úti um landið, enda er hér verið að fjalla um mikið hagsmunamál fólksins sem býr úti á landsbyggðinni. Framvinda vegamálanna hverju sinni kemur til með að ráða mjög miklu um búsetuskilyrðin á landsbyggðinni og möguleika fólks til þess að efla atvinnulífið og gera það fjölbreytilegra og traustara þegar til lengri tíma er litið. Það er þess vegna ekki að undra að mjög náið sé fylgst með þessari umræðu og þingmenn sýni henni áhuga og kjósi að ræða hana nokkuð ítarlega. Ég tel að hún sé af hinu góða og mjög eðlilegt og sjálfsagt og stjórnarliðar sem stjórnarandstæðingar taki þátt í umræðunni með þeim hætti sem þeir kjósa.
    Ég held að umræðan það sem af degi hafi leitt í ljós að sú fullyrðing sem æ ofan í æ hefur skotið upp kollinum í þeirri umræðu sem fram hefur að undanförnu um niðurskurð til velferðarmála sé alröng, þ.e. sú fullyrðing að hægt sé að fjármagna rekstur hins opinbera, sjúkrahúsin, skólana og þar fram eftir götunum með því einu að skerða framlög til vegamála. Ég tel að niðurstaðan af þeirri umræðu sem fram hefur farið í dag sé sú að þingmenn séu þeirrar skoðunar að vegamálin séu alls ekki aflögufær í þessum efnum. Að ekki sé ráðrúm eða ástæða til þess eða sérstök rök sem mæli með því að fjármagna skólakerfið eða heilbrigðisþjónustuna í landinu með því að hætta við gerð jarðganga á Vestfjörðum eins og hefur komið fram hvað eftir annað. Menn hafa sagt sem svo: Jarðgöng á Vestfjörðum og vegaspottar á þessum útnárum eru óeðlilegar framkvæmdir, óarðbærar framkvæmdir, sem fullkomin rök eru til að skera niður, sérstaklega núna, í því skyni að mæta skerðingu sem óhjákvæmileg er á öðrum sviðum.
    Ég er þeirrar skoðunar að þessi umræða í dag hafi leitt í ljós að það er ekki vilji þingmanna að standa þann veg að málum. Menn skilja það einfaldlega að vegamálin eru svo þýðingarmikil, sérstaklega fyrir byggðarlögin úti á landi, að þar er ekki ráðrúm, þar er ekki lag til þess að skera niður. Ég held nefnilega að slagurinn upp á síðkastið hafi m.a. staðið um það hvort menn ætluðu sér að reyna að standa vörð um framkvæmdirnar í landinu, fjárfestingu hins opinbera, eða að leggja í enn eina atlöguna á þessu sviði. Án þess að ég hafi tölur um það handbærar held ég að það sé alveg ljóst að fjárveitingar til framkvæmda og fjárfestingar hins opinbera hafa verið að dragast saman ár frá ári á sama tíma og rekstur hins opinbera hefur verið að aukast. Þetta sýnir okkur fyrst og fremst að mínu mati að engin efni standa til þess að auka enn á skerðinguna í vegamálunum, síst af öllu á það við jarðgöngin á Vestfjörðum eins brýn og þau eru.
    Í þessari umræðu hefur verið gagnrýnt að núv. ríkisstjórn standi að skerðingu á vegamálum. Ég ætla ekki að þræta fyrir það að með þessum tillögum sínum og fjárlögunum efnir ríkisstjórnin til skerðingar á því sem við höfðum hugsað okkur, því sem áður hafði verið ákveðið og því sem áður hafði verið lagt til í vegáætlun sem var samþykkt á Alþingi. Það er í fyrsta lagi vegna þess, eins og fram hefur komið, að horfið hefur verið frá því að fjármagna Vestfjarðagöngin með lántökum sem greiðast ættu upp af vegafé á nokkuð lengri tíma en gert er ráð fyrir nú með því að hverfa frá lántökuheimild til Vestfjarðaganga. Í öðru lagi hefur verið orðið, eins og fram hefur komið, sérstök skerðing á framlaginu á þessu ári til Vestfjarðaganganna. Í þriðja lagi, sem ég hyggst koma aðeins betur að hér á eftir, þá var gerður á síðasta vori rétt fyrir þingkosningar samningur á milli þáv. fjmrh. Ólafs Ragnars Grímssonar og Davíðs Oddssonar, þáv. borgarstjóra Reykjavíkur, um að ríkissjóður greiddi svokallaða skuld Vegasjóðs við borgarsjóð sem þá var áætluð um 1 milljarður 25 millj. kr. Hún yrði greitt mun hraðar en gert hafði verið ráð fyrir í gildandi vegáætlun. Allt þetta mun auðvitað hafa það í för með sér að framkvæmdageta okkar á þessu ári verður minni en ella og það ber vissulega að harma. Ég dreg ekki neina dul á það.
    Vegna þess að mér hefur stundum fundist örla á því að menn tali hér, þótt það sé ekki reyndar í þessari umræðu, eins og í fyrsta skipti sé vegið að mörkuðum tekjustofnum Vegasjóðs eða horfið frá gildandi vegáætlun, þá langar mig til þess að fara yfir þessi mál nokkuð ítarlega frá árinu 1987 með tilvísun í tölur, tölulegar upplýsingar, sem ég aflaði mér hjá Vegagerð ríkisins og fékk framreiknaðar miðað við verðlag í ár svo að þær séu samanburðarhæfar. Þessi samanburður á tölum leiðir auðvitað mjög margt athyglisvert í ljós. Hér er um að ræða nokkra talnarunu sem ég verð að biðja hv. þm. um að hafa þolinmæði með mér til þess að hlýða á. Tölurnar eru nauðsynlegar til þess að varpa ljósi á það sem ég er hér að halda fram.
    Tökum fyrst árið 1987. Samkvæmt vegáætlun sem samþykkt var fyrir árin 1985--1988 var gert ráð fyrir því að til vegamála yrði varið á árinu 1987 6 milljörðum 915 millj. kr. Samkvæmt vegáætlun sem átti að gilda á árunum 1987--1990 var búið að skerða þessa upphæð niður í 4 milljarða 853 millj. kr. Útgjöld til þessa málaflokks, til vegamálanna samkvæmt skýrslu samgrh. þetta ár urðu 4 milljarðar 611 millj. kr., sem sagt, veruleg skerðing frá upphaflegri vegáætlun. Vík ég nú að árinu 1988. Þá er enn samkvæmt vegáætlun fyrir árin 1985--1988 gert ráð fyrir útgjöldum upp á rúma 7 milljarða 54 millj. kr. Samkvæmt vegáætlun 1987--1990 var talan komin í 8 milljarða 126 millj. Endurskoðun sem fram fór 1988 leiddi niðurstöðuna í 5 milljarða 332 millj. Útgjöld samkvæmt skýrslu samgrh. fyrir þetta ár urðu síðan 4 milljarðar 971 millj. kr. Samkvæmt þessari títtnefndu vegáætlun 1987--1990 var árið 1989 gert ráð fyrir að til vegamála yrði varið 8 milljörðum 330 millj. kr. Samkvæmt vegáætlun sem gilti 1989--1992 var sú tala komin niður í 5 milljarða 238 millj. kr. Útgjöld samkvæmt skýrslu samgrh. yrði álíka upphæð, 5 milljarðar 251 millj. kr. Árið 1990 var enn samkvæmt títtnefndri vegáætlun 1987--1990 gert ráð fyrir 8 milljörðum 530 millj. kr. Samkvæmt vegáætlun 1989--1992, sem áður er nefnd, voru 6 milljarðar 120 millj. kr. Endurskoðun 1990 leiddi það af sér að útgjöldin urðu 4 milljarðar 956 millj. og útgjöld samkvæmt skýrslu samgrh. 5 milljarðar 253 millj. Samkvæmt vegáætlun 1989--1992 áttu útgjöldin 1991 að verða 6 milljarðar 260 millj. Samkvæmt vegáætlun sem átti að gilda 1991--1994 var þessi tala komin í 5 milljarða 759 millj. og eftir sérstakan niðurskurð sem fram fór í júlí 1991 var sú tala komin í 5 milljarða 423 millj.
    Þessi langa talnaruna, sem mér var nauðsynlegt að lesa hér, sýnir okkur það að við erum ekki í fyrsta sinn að horfa framan í niðurskurð sem veldur gagnrýni. Við þingmenn, fulltrúar stjórnmálaflokka, höfum allir, hver og einn einasti, átt aðild að niðurskurði af þessu tagi. Hv. 4. þm. Norðurl. e., sem nú er horfinn úr salnum, fyrrv. hæstv. samgrh., sagði að gerð væri tilraun til þess að blekkja í þeirri till. til þál. um vegáætlun sem hér er lögð fram með því að bera saman annars vegar niðurskorna áætlun frá því í fyrra og tölurnar miðað við vegáætlun í ár. Það er auðvitað ekkert verið að gera tilraun til þess blekkja. Hér er bara verið að bera saman tvær tölur. Við skulum taka tölurnar frá árinu 1991 fyrir niðurskurð og bera þær saman við áætlunina fyrir árið í ár. Mismunurinn þar eru 194 millj. kr. Þetta segir okkur auðvitað að hér er um niðurskurð að ræða, eins og ég nefndi áðan, og það hef ég gagnrýnt í mínum hópi og hef sem ekkert legið á þeirri skoðun minni. En ég er hér að rekja þessar tölur til þess að sýna ákveðið samhengi þessa máls og bregða ljósi á það með þeim hætti.
    Ég hef stundum lesið yfir umræður um vegáætlunina eftir að þær hafa farið fram. Þá hefur verið fróðlegt að sjá að þingmenn hafa gjarnan í stjórn og stjórnarandstöðu veifað tölum um hlutfall fjárveitinga til vegamála sem hlutfalli af þjóðarframleiðslunni. Þetta hafa menn gert oft og notað sitt á hvað. Stundum til þess að sýna að verið sé sérstaklega að vega að vegamálunum með niðurskurði og stundum til þess að halda því á lofti að ríkisstjórn sé að gera eitthvað sérstaklega vel, allt eftir því hvernig stendur í bólið hjá mönnum hverju sinni. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að rifja hér upp hvert hlutfall vegamála af þjóðarframleiðslu hefur verið síðustu árin. Það er alveg laukrétt, sem hér hefur komið fram, að þetta hlutfall hefur farið lækkandi eins og ég vék raunar að eða gaf til kynna í upphafi máls míns. Hlutfall útgjalda til framkvæmda og fjárfestinga almennt hjá hinu opinbera hefur farið lækkandi sem hlutfall af þjóðarframleiðslunni. 1987 var þetta hlutfall 1,16%, 1988 1,25%, 1989 1,35%, 1990 1,46%, 1991 1,44%. Miðað við þjóðhagsspá í desember verður þetta hlutfall á þessu ári samkvæmt þeim upplýsingum sem ég aflaði mér hjá Vegagerð ríkisins, 1,57% þrátt fyrir niðurskurð nú. Þetta segir okkur í hvaða efnahagslega andrúmslofti og efnahagslega umhverfi við erum stödd við gerð núverandi vegáætlunar. Við kvörtum annars vegar sáran, og sá sem hér stendur hefur staðið í því, undan því að verið sé að skera niður vegamálin. En hins vegar blasir staðreyndin við engu að síður, jafnsérkennileg og hún er, að þrátt fyrir þennan niðurskurð erum við með hærra hlutfall nú af þjóðarframleiðslu til vegamála á þessu ári en á árunum frá 1987. Þetta segir okkur m.a. það að við erum í afar þröngri stöðu með litla þjóðarframleiðslu á þessu ári og þess vegna er auðvitað minna til skiptanna.
    Hér hefur nokkuð verið rætt um það að skerða lögbundið gjald til Vegasjóðs um tiltekna upphæð. Ég held að ástæða sé til í þessu sambandi að rifja upp að á þennan veg var einnig staðið að málum á árinu 1989 þegar ákveðið var að skerða lögbundnar tekjur, lögbundið gjald til Vegasjóðs á þávirði um 682 millj. kr. Enn fremur var ákveðið við gerð þeirrar vegáætlunar, sem gilti fyrir árið 1989, að greiða ekki meinta skuld ríkisins við Vegasjóð sem menn töldu að hefði myndast vegna umframtekna á árunum 1987 og 1988. Grófur framreikningur á þessum skerðingum leiðir í ljós að á núgildandi verðlagi var um að ræða skerðingu upp á u.þ.b. 1,2 milljarða kr. ef hvort tveggja er tekið með. Þetta segir okkur það að við viðlíka aðstæður þegar menn töldu að þrengingar steðjuðu að þá hafa þeir ekki hikað við það að skerða lögbundnar tekjur Vegasjóðs. Að því stóð hæstv. fjmrh. og hæstv. þáv. samgrh. og töldu vitaskuld efnisleg rök mæla með því þá. Þetta er ég eingöngu að rifja upp til þess að fá hið sögulega samhengi til að við skiljum að hér er ekki um að ræða nýmæli að þessu leytinu. Við erum hér með skerðingu á þessu ári sem er talsvert minni en var á árinu 1989 miðað við þessar forsendur, en skerðingu engu að síður.
    Ég nefndi það fyrr í ræðu minni að mig langar til að koma að hinum umdeilda og umtalaða samningi sem gerður var milli þáv. hæstv. fjmrh. og þáv. borgarstjóra Reykjavíkur. Samningur um sérstakar flýtigreiðslur til Reykjavíkurborgar, sem fela í sér hraðari greiðslu skuldar hins opinbera við Reykjavíkurborg en gert var ráð fyrir í gildandi vegáætlun. Í gildandi vegáætlun var gert ráð fyrir því að greiða á árinu 1991 18 millj. kr., 46 millj. árið 1992, 126 millj. 1993 og 147 millj. 1994. Hér var hins vegar um að ræða samkomulag sem þáv. fullmektugir forráðamenn ríkissjóðs og borgarsjóðs gerðu með sér um það að ríkissjóður greiddi borginni rúman milljarð á verðlagi í ársbyrjun 1991. Greitt yrði með skuldabréfi með jöfnun greiðslum fram að 1. júlí 1998.
    Það út af fyrir sig sérstakt mál að gera svona samning rétt áður en kjörtímabili tiltekinnar ríkisstjórnar lýkur, gera skuldbindandi samning um stórar greiðslur sem fela það í sér að greiðslum til stórs sveitarfélags er flýtt rétt fyrir kosningar. Ég ætla ekki á þessu stigi málsins að fella neina dóma um það mál. (Gripið fram í.) Ég var ekki spurður að því þá. (Gripið fram í.) Ég ætla að koma betur að þessu máli ef þingmenn vilja hafa svolitla biðlund með mér. (Gripið fram í.) Það er gott að heyra það, hv. þm. Þetta samkomulag var gert á grundvelli heimildargreinar 6.7 í fjárlögum fyrir árið 1991. Sú heimildargrein hljóðar upp á það að fjmrh. hafi verið heimilað ,,að semja við sveitarfélög með yfir 10.000 íbúa um greiðslu á hluta ríkissjóðs í kaupum eða framkvæmdum til þess að ljúka brýnum sameiginlegum verkefnum að tilskildu samþykki fjárveitinganefndar.`` Ég endurtek síðustu setninguna: ,, . . .  að tilskildu samþykki fjárveitinganefndar.`` Fulltrúa Alþingis.
    Nú hef ég óskað eftir því að fá upplýsingar um það hvort þessu máli hafi verið af hálfu hæstv. þáv. fjmrh. beint til fjárveitinganefndar. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef getað aflað mér --- en ég get ekki fullyrt að mér hafi tekist að fara í þá lúsaleit að ég kæmist að því endanlega hvort þarna leynast einhver plögg, einhver bakskjöl sem menn hafa stundum kallað --- þá liggur þetta tilskilda samþykki fjárveitinganefndar fyrir þessum gjörningi ekki fyrir. Það er ekki til. Ég hef spurt fyrrverandi fjárveitinganefndarmenn um þetta. Ég minnist þess ekki sem núverandi fjárlaganefndarmaður að þetta hafi komið inn á okkar borð. Þess vegna tel ég eðlilegt áður en frekari dómar eru felldir í þessu máli, því hvatvísi borgar sig ekki í þessu máli, að beina því til samgn. þingsins sem mun fá þetta mál, vegáætlunina, til meðhöndlunar að hún skoði það sérstaklega hver sé lagaleg staða þessa samnings, hvernig beri að fara með þetta mál í framtíðinni.
    Ég ítreka að ég hef ekki ætlað mér að fella um þetta neinn dóm. Ég tel hins vegar mjög mikilvægt, ekki síst fyrir þá sem stóðu að þessum samningi, að um þetta séu tekin af öll tvímæli vegna þess að það er mjög þýðingarmikið varðandi hvaða fjárveitingar við munum fá til vegamála, til framkvæmda, á þessu ári hver staða þessa samnings er.
    Virðulegi forseti. Það væri auðvitað hægt að hafa langt mál um þetta allt saman. Ég hef með almennum hætti reifað vegamálin og lagt fram nokkrar tölulegar upplýsingar sem mér finnst eiga erindi inn í þessa umræðu. Auðvitað verður tækifæri til að fjalla frekar um vegamálin við 2. umr. málsins og þess vegna mun ég geyma mér frekari umfjöllun að sinni.