Vegáætlun 1991--1994

88. fundur
Þriðjudaginn 25. febrúar 1992, kl. 15:50:00 (3748)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Málflutningur hv. síðasta ræðumanns gekk út á það að ég hefði fellt hér dóm. Það er ekki einkennilegt að hv. þm. finnist að menn eigi að fella hér sleggjudóma því það er hans list í þessum ræðustól. Það sem ég gerði að yfirlögðu ráði var að vekja hér athygli á tilteknum samningum sem hv. þm. gerði fyrir hönd ríkissjóðs þegar hann var fjmrh. Ég spurði hér nokkurra spurninga og óskaði eftir því að samgn. þingsins, sem fær þetta mál til meðhöndlunar, færi yfir það eins og mjög eðlilegt er. Það hefur ekki komið fram í máli hv. þm. að hann hafi séð ástæðu til þess að fara að heimildarákvæði fjárlaganna um það að vísa þessu máli til fjárveitinganefndar eins og honum þó bar. Þess vegna er sjálfsagt að sú nefnd Alþingis sem hefur með vegamálin að gera, samgn., fari yfir málið til þess m.a. að uppfylla þetta ákvæði, þessa skyldu þingsins, að fara yfir málið í því skyni að taka af öll tvímæli hvort um lögformlegan gerning sé að ræða. Það var efnisatriði þess máls sem ég flutti hér áðan og allir þingmenn heyrðu og auðvitað líka hv. 8. þm. Reykn. þótt hann kysi hér af pólitískum ástæðum að snúa út úr því en það er önnur saga.