Heimsókn forsætisráðherra til Ísraels

88. fundur
Þriðjudaginn 25. febrúar 1992, kl. 17:07:00 (3753)


     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Frú forseti. Forsrh. sagði hér áðan undir lok sinnar ræðu að þetta hefði verið afskaplega vel heppnuð ferð til Ísraels. Ég er ansi hrædd um að hann sé einn um þá skoðun, næstum því aleinn nema ef vera kynni að einhverjir stuðningsmenn hans hér á Alþingi reyni að halda í þá skoðun líka. Ég held að ferðin geti ekki talist vel heppnuð. Í rauninni er þetta leiðindaferð sem hefði betur aldrei verið farin.
    Þessi ferð var rædd hér á Alþingi ekki alls fyrir löngu og forsrh. var þá eindregið varaður við því að leggjast í þetta ferðalag en hann virti það að vettugi. Það verður að segjast eins og er að þegar ráðamenn leggjast í ferðalög á kostnað skattborgara, þá er afskaplega mikilvægt að þeir eigi eitthvert erindi, að ferðin þjóni einhverjum tilgangi og hægt sé að upplýsa hvert erindið sé, hver tilgangurinn sé. Það hefur forsrh. tekist afskaplega illa. Ferð hans var ferð án fyrirheits og það verður að segjast eins og er að hann reið ekki feitu hrossi heim aftur.
    Í þessa umræðu hefur blandast bréf Wiesenthal-stofnunarinnar sem afhent var forsrh. meðan hann gisti Ísrael. Ég geri hvorki mikið með þetta bréf né heldur með hvaða hætti því var komið á framfæri við forsrh. Það er mín skoðun og það skal vera mín persónulega skoðun að ekki sé sjálfgefið að menn fari hefðbundnar leiðir ef þeir telja mikið liggja við. Ef þeir telja að réttlætinu sé misboðið og réttlætiskennd þeirra, þá sé ég í sjálfu sér ekki neitt saknæmt við það að sniðganga ýtrustu kurteisi. Ég reikna með því að strangtrúaðir gyðingar líti málið þeim augum. En það er bara þannig að mönnum sýnist sitt hvað í þessum málum. Ég ætla því ekki að ræða það mál hér í dag út frá því að íslensk þjóð hafi verið móðguð með framkomu Wiesenthal-stofnunarinnar og ráðamanna í Ísrael við hæstv. forsrh. Mér finnst þetta mál gefa miklu betra tilefni til að benda á að hin síonísku stjórnvöld í Ísrael eru ekki sérstakir handhafar réttlætis þrátt fyrir þá skelfilegu helför sem farin var gegn gyðingum í seinni heimsstyrjöldinni. Sú helför var skelfileg og hefur auðvitað rist rúnir í reynslu gyðinga. En það gerir þá samt ekki að handhöfum réttlætis um aldur og ævi. Í raun má segja að þeirra réttlæti í dag sé harla vont því að alvarleg mannréttindabrot hafa fylgt Ísraelsríki allt frá stofnun þess. Rótin að þessum mannréttindabrotum er auðvitað hugmyndafræði síonismans, sú hugmyndafræði sem Ísraelsríki byggist á. En um hvaða mannréttindabrot er ég þá að tala? Það er af mjög mörgu að taka og væri hægt að halda hér ræður daginn út og daginn inn um þá hluti en ég ætla aðeins að stikla á stóru.
    Í fyrsta lagi má benda á að þótt Sameinuðu þjóðirnar hafi núna illu heilli samþykkt að síonisminn teljist ekki kynþáttastefna, þá breytir það ekki því að margs konar lög sem í gildi eru í Ísrael eru brot gegn alþjóðasamningnum um kynþáttamismunun og að þeim samningi er Ísland aðili. Ég get nefnt í því sambandi að palestínskir ríkisborgarar Ísraelsríkis eru í dag um 750 þús., þeir eru um 16% þjóðarinnar. Afskaplega flókinn lagavefur er notaður er til að mismuna þeim gróflega á margan hátt. Í fyrsta lagi má benda á það að 92% af flatarmáli Ísraelsríkis, þá er ég að tala um flatarmál ríkisins eftir hernámið 1948 og 1967, eru í eigu svokallaðs þjóðarsjóðs gyðinga. Palestínskir ríkisborgarar, þessi 750 þús., mega ekki búa á, leigja né nýta jarðir í eigu þessa þjóðarsjóðs. Með öðrum orðum, 92% af landsvæðinu eru óaðgengileg fyrir þessi 16%.
    Þá má benda á það, sem ég gerði reyndar áður en forsrh. fór í þessa för vegna þess að stundum finnst mér hugtök dálítið sérkennilega notuð í umræðum um Ísraelsríki, að Ísraelsríki er ekki lýðveldi þeirra íbúa sem búa á tilteknu landsvæði. Ísraelsríki er ríki gyðinga burt séð frá því hvar þessir gyðingar búa. Mér

dettur þetta í hug vegna þess að forsrh. sagði áðan að Ísraelsmenn væru fjögurra milljóna manna þjóð með óvinveitta aðila í kringum sig sem vilja reka þá á haf út. Hvaða þjóð er þetta? Hvaða fjögurra milljóna manna þjóð er þetta? Er það þjóðin sem byggir Ísraelsríki eða er það gyðingaþjóðin sem hæstv. forsrh. er að tala um og sem stofnaði það gyðingaríki sem þarna er og er ekki lýðveldi í hefðbundnum skilningi þess orðs né heldur lýðræðisríki?
    Stór hluti þessa lands, sem Ísraelsríki byggir núna, var fenginn árið 1948 þegar 750 þús. Palestínuarabar voru reknir frá heimilum sínum og það er grunnurinn að því landsvæði sem nú er í eigu þjóðarsjóðs gyðinga.
    Annað sem má nefna sem dæmi um kynþáttamismununina er að sveitarfélögum Palestínumanna er mismunað mjög gróflega innan Ísraelsríkis. Þá er ég að tala um sveitarfélögin sem voru á svæði sem afmarkað var árið 1947 af Sameinuðu þjóðunum. Fjárveitingar til þeirra eru lægri en til annarra sveitarfélaga, þjónusta er þar verri og skipulag hefur ekki fengist staðfest í þessum sveitarfélögum eins og annars staðar. Órækasti votturinn um mismunun er kannski að barnadauði er mun meiri í sveitarfélögum Palestínumanna en gyðinga.
    Í þriðja lagi má nefna að þeir sem gegna herþjónustu eða hafa gegnt herþjónustu í Ísrael njóta ákveðinna forréttinda. Þeir fá t.d. mun hærri barnabætur með börnum sínum en hinir sem ekki hafa gegnt herþjónustu. Það vill nú þannig til að Palestínumenn eru ekki kallaðir til herþjónustu og þá kemur þetta niður á þeim. Í þessu birtist líka kynþáttamismununin. Ég get tekið dæmi um skólalögin í Ísrael. Í skólalögum er kveðið á um það að menning gyðinga skuli lögð til grundvallar í skólunum og það er gerð krafa um tryggð við ríkið og gyðingaþjóðina í skólalögum Ísraelsríkis. Þetta er auðvitað kynþáttamismunun vegna þess að í þessu landi búa bæði gyðingar og þeir sem eru ekki gyðingar. Ekki er hægt að stofna stjórnmálaflokka í Ísrael nema þeir viðurkenni ríki gyðinga. Auðvitað er spurning hvort Palestínumenn geta gert slíkt, hvort þeir geta viðurkennt ríki gyðinga sem er auðvitað kynþáttaaðskilnaðarríki, það byggir á kynþáttaaðskilnaðarstefnu meðan það heitir svo. Þetta var um brot á lögum eða alþjóðasamningum gegn kynþáttamismunun.
    En brotin á Genfarsáttmálanum frá 1949 eru miklu alvarlegri, t.d. brotin á Genfarsáttmálanum um vernd hins óbreytta borgara á stríðstímum. Alvarleg brot á þeim sáttmála hafa verið framin allt frá árinu 1948 og eru enn framin. Það vakti athygli mína að í forsögu Ísraels, sem forsrh. rakti hér áðan, fór hann tvö ár aftur í tímann, lengra náði forsaga hans ekki. Það eru alvarleg brot framin á þessum sáttmála í Ísrael og samkvæmt Genfarsáttmálanum eru mörg þessara brota skilgreind sem stríðsglæpir. Hér hefur Rauði krossinn nýlega gefið út meginreglur Genfarsáttmálanna. Ekki þarf lengi að glugga í þá bók til að sjá að Ísraelsmenn eru brotlegir, hafa gerst alvarlega brotlegir við þann sáttmála, með öðrum orðum gerst sekir um stríðsglæpi. Hér nægir að nefna ólöglegar brottvísanir eða flutning úr landi, sem telst vera alvarlegt brot, eyðileggingu og upptöku eigna sem ekki réttlætist af hernaðarhagsmunum og framkvæmd er ólöglega í stórum stíl, árásir á almenning og óbreytta borgara, eignir almennings, flutning hernámsaðila á eigin borgurum inn á svæði sem hann hefur hertekið, brottvísun eða brottflutning allra íbúa af þessum svæðum o.s.frv. og þannig mætti lengi telja. Allt teljast þetta vera stríðsglæpir, hæstv. forsrh., samkvæmt Genfarsáttmálanum sem Ísland er aðili að.
    Ég minntist áðan á að hluti af landsvæði núverandi Ísraels hefði verið hernumið 1948 og þá voru 750 þús. Palestínumenn hraktir á flótta og urðu að yfirgefa heimili sín. Það sem Ísraelsmenn gerðu í kjölfarið og öllum er kunnugt, sem eitthvað hafa kynnt sér þessi mál, var að þeir settu jarðýtur á heimili þessa fólks og jöfnuðu 385 byggðarlög við jörðu. Árið 1967 endurtók sig svipuð saga. Það var hernámið á svæðunum á vesturbakka Jórdan og Gólanhæðum og á Gasasvæðinu o.s.frv. Þá voru Palestínuarabar aftur hraktir af jörðum á þessum herteknu svæðum og nú er verið að reisa þar landnemabyggðir í stórum stíl. Hæstv. forsrh. sagði hér áðan að Ísraelsmenn, þ.e. þeir sem eru í forsvari þar, væntanlega Shamir, hafi sagt við sig að landnám á herteknu svæðunum væri vandamál sem mundi leysast þegar friðarviðræðunum er lokið. Mér er spurn: Hvernig verður það vandamál leyst? Hvernig verður það vandamál leyst að leyfa því fólki að snúa aftur sem bjó á svæðunum sem hertekin voru 1948, 750 þús. manns? Verða því bættar upp eignir þess? Hvernig verður vandamálið leyst sem er að skapast núna með landnemabyggðunum á svæðunum sem tekin voru 1967? Mér þætti gaman að fá eitthvert svar við því frá hæstv. forsrh. hvaða lausn þeir hafa dregið upp fyrir hann.
    Heimsbyggðin öll er sammála um að hernámið á svæðunum, sem tekin voru 1967, sé ólögleg en Ísraelsríki viðurkennir ekki að þetta séu hernámssvæði. Það telur sig hafa umsjón með þessum svæðum og þar af leiðandi njóta íbúar hvorki borgaralegra réttinda né heldur verndar samkvæmt Genfarsáttmálanum, þ.e. íbúar sem búa á þessum svæðum. Það er einmitt á þeim forsendum sem Ísraelsstjórn réttlætir landnámið á umræddum svæðum, þ.e. að þetta séu ekki hernámssvæði. Ef þetta væru hernámssvæði og þeir viðurkenndu það gætu þeir ekki flutt íbúa inn á þessi svæði með þeim hætti sem þeir gera í dag.
    Það má því segja að Ísraelsríki brjóti flestar grundvallarreglur réttarríkis á herteknu svæðunum. Það rekur íbúa í útlegð, það beitir hóprefsingum, það beitir efnahagslegri kúgun, líkamlegu ofbeldi, það takmarkar tjáningarfrelsi og það fangelsar fólk án dóms og laga.
    Vegna alls þessa sem ég hef talið upp hér og gæti haft upptalninguna miklu lengri þá átti forsrh. ekki að fara í þessa ferð. Vegna þessa var það líka rétt ákvörðun hjá utanrrh. að afþakka boð um opinbera heimsókn til Ísraels.
    Eins og ég sagði áðan, er Ísland aðili að Genfarsáttmálanum og með aðild sinni að sáttmálanum hefur það tekist ákveðnar skyldur á herðar vegna þess að sáttmálinn er ekki pappírsgagn. Ég ætla að vara við því þegar hæstv. forsrh. segir hér: Ef farið væri eftir lagabókstafnum þá fengist engin lausn. Menn eiga ekki að fara eftir lagabókstafnum. Ég ætla að vara við þessu viðhorfi því ef eitthvert plagg skiptir máli fyrir fólk, fyrir mannréttindi, fyrir líf fólks, þá er það Genfarsáttmálinn.
    Mig langar til þess að vitna hér í grein sem Sölvi Sölvason lögfræðingur skrifaði og á að vera almenn kynning á Genfarsáttmálanum. Hún er í riti sem heitir ,,Mannréttindi koma þér við``.
    Þar segir Sölvi, með leyfi forseta: ,,Öll lög eru dauður bókstafur ef yfirvöld viðurkenna þau ekki eða þau eru ekki kunn meðal þeirra sem eiga eftir þeim að fara. Í fyrstu grein allra Genfarsáttmála er kveðið á um það að aðildarríki skuldbindi sig til að virða og tryggja helgi sáttmálanna undir öllum kringumstæðum. Með því að setja ákvæði þetta strax fram í 1. gr. allra samninganna er verið að beina athyglinni að mikilvægi þessa ákvæðis. Það hefur þá þýðingu að ef aðildarríki staðfesta þessa sáttmála þá eru þau ekki aðeins að skuldbinda sig til að ganga að þeim að svo miklu leyti sem eitthvert annað ríki heldur samningana gagnvart þeim, heldur skuldbinda þau sig til þess að virða samningana að öllu leyti hvað sem á dynur. Einnig eru ákvæði í sáttmálanum sem skuldbinda aðildarríki til að gera ráðstafanir til að tryggja virðingu fyrir þeim.
    Aðildarríki sáttmálanna eiga ekki aðeins að sjá til þess að borgarar þess ríkis fari að sáttmálanum, heldur eiga þau einnig að vinna að því að önnur ríki virði þá.`` Því ber Íslendingum skylda til að einangra þá siðferðilega sem gerst hafa alvarlega brotlegir við sáttmálann og þess vegna ber okkur Íslendingum siðferðileg skylda til að vera ekki í kurteisisheimsóknum hjá ríkisstjórnum sem hafa gerst alvarlega brotleg við þennan sáttmála.
    Það er mín skoðun að íslenska ríkisstjórnin ætti að beita sér fyrir því í rauninni að fá slíka aðila lögsótta, aðila sem hafa völd og hafa gerst brotlegir við sáttmálann en heiðra þau ekki með heimsókn.
    Menn hafa talað hér um mál Eðvalds Hinrikssonar í fjölmiðlum sérstaklega. Mín skoðun á því máli er sú að í stað þess að einblína á gamlan og valdalausan mann á Íslandi ættu menn að finna leiðir til að koma lögum yfir þá valdamenn heimsins sem hafa framið og fremja enn alvarleg mannréttindabrot og stríðsglæpi og fara ekki leynt með það, hæstv. forsrh.
    Að lokum finnst mér afskaplega mikilvægt að fá við því eitthvert svar hér með hvaða hætti íslensk stjórnvöld hyggjast ganga eftir því að stjórnvöld í Ísrael virði mannréttindasáttmála og virði Genfarsáttmálann, að þau gangi eftir því eins og þeim ber skylda til úr því að þau eru aðilar að þessum sáttmála á annað borð.