Staða leiguliða á bújörðum

90. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 10:55:00 (3799)



     Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir svör hans. Það kom fram í máli ráðherrans og var staðfest af honum sem ég hafði bent á hér áðan að á ríkisjörðum hefur verið tekin upp sú regla að greiðslan gengur til leiguliða en gert er ráð fyrir því að ef leiguliði flyst af jörðinni komi til uppgjörs á þessum greiðslum sem þó fyrnist á 10 árum. Það er því greinilegt að tekin hefur verið upp sérstök regla varðandi ríkisjarðirnar og maður spyr sig að því hvort sú regla sé þá ekki hin eðlilega regla fyrir öll viðskipti af þessu tagi.
    Ég hef margspurt að því í hv. landbn. hvort ekki komi til greina að setja inn í búvörulögin, sem hæstv. ráðherra nefndi áðan, ákvæði sem taki af öll tvímæli um þetta efni. Seinast í gær tjáði formaður nefndarinnar mér það að ráðuneytið væri farið að inna af hendi greiðslur á bótum af þessu tilefni með þeim hætti að þær gengju til leiguliða. Þar hefði því orðið stefnubreyting við framkvæmd málsins. Mér fannst hins vegar ekki að svar ráðherrans bæri á nokkurn hátt vott um það og ég hlýt því að vænta þess að málið verði nánar athugað í landbn. Þó að hún hafi að vísu skilað frá sér nál. fyrir 2. umr., þá er greinilegt að þörf er á því að fá á hreint hvernig þessum málum verður háttað og hvort ekki sé hyggilegt að taka af skarið með það í lögunum sjálfum.
    Eins og ég hef áður rakið er alveg augljóst mál að sú meginregla að setja ábúanda algerlega til hliðar er fullkomlega ósanngjörn og óeðlileg. Ríkisvaldið hefur þegar viðurkennt að sú regla sé óeðlileg einmitt með þeim reglum sem ríkið hefur tekið upp varðandi ríkisjarðirnar. Það liggur því í hlutarins eðli að líta verður á þetta mál hvað varðar önnur viðskipti milli leiguliða og landsdrottna.
    Að öðru leyti þakka ég fyrir.