Réttargeðdeild fyrir geðsjúka afbrotamenn

90. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 11:01:00 (3801)

     Fyrirspyrjandi (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. Ég er hér með fsp. á þskj. 184 til heilbr.- og trmrh. um réttargeðdeild fyrir geðsjúka afbrotamenn. Þessi fsp. er fyrir nokkuð löngu síðan fram komin en aðstæðurnar hafa hagað því þannig að hvorki hefur gefist tími né ráðrúm til þess að svara fsp. fyrr en nú.
    Lengi hefur staðið til að koma upp réttargeðdeild fyrir geðsjúka afbrotamenn. Hér er hins vegar

um afar viðkvæmt mál að ræða, tilfinningamikið mál og það eru, eins og menn hafa nú orðið varir við í umræðum um það að undanförnu, miklir fordómar sem viðgangast í garð þessa hóps. Ég veit að hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur unnið ötullega að því að koma réttargeðdeild á fót. Búið var að vinna talsvert starf, bæði á vegum dómsmrn. og heilbrrn. áður til undirbúnings málinu en því miður er það svo að þetta mál hefur ekki enn náð fram að ganga. Ráðherra hefur hins vegar látið hafa það eftir sér að til standi að opna þessa réttargeðdeild að Sogni í Ölfusi og því spyr ég:
  ,,1. Hvenær verður réttargeðdeild fyrir geðsjúka afbrotamenn opnuð að Sogni í Ölfusi?``
    Það eru einkum þrír hópar sem þurfa á þjónustu réttargeðdeildar að halda. Í fyrsta lagi þeir sem dæmdir eru til vistar á viðeigandi hæli, svokallaðir öryggisgæslumenn. Í öðru lagi geðsjúkir afplánunarfangar eða fangar sem hafa geðræn vandamál og í þriðja lagi menn sem úrskurðaðir eru til að undirgangast geðrannsókn. Ef réttargeðdeild á að standa undir nafni þarf hún að veita þessum þremur hópum þjónustu.
    Nú heyri ég það á máli ráðherra að hann og heilbrrn. eru hætt að tala um þessa stofnun sem réttargeðdeild heldur kallar hana vistheimili fyrir geðsjúka, ósakhæfa afbrotamenn. Á þessu tvennu getur verið reginmunur, hvort menn eru að tala um vistheimili fyrir þennan hóp eða réttargeðdeild sem er í starfstengslum við geðsjúkrahús. Ef menn eru að tala um vistheimili hvarflar það að manni að þarna sé verið að koma upp stofnun þar sem hugmyndin sé að vista fólk til langframa án þess að reyna að koma því aftur út í samfélagið með læknisþjónustu. Því spyr ég hæstv. heilbr.- og trmrh.:
  ,,2. Hversu mikla öryggisgæslu og hve víðtæka læknisþjónustu mun réttargeðdeildin veita?
    3. Verður réttargeðdeildin í starfstengslum við geðdeild einhvers sjúkrahúss, og þá hvaða sjúkrahúss?``
    4. og 5. spurningin á þskj. 184 skýra sig sjálfar en þær hljóða svo:
    ,,Hve margir vistmenn geta vistast á deildinni hverju sinni?`` og ,,Hve margir starfsmenn verða við réttargeðdeildina og hver er áætlaður kostnaður við rekstur hennar?``