Staða sjávarútvegsins

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 18:05:00 (3866)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég verð að valda þingheimi þeim vonbrigðum að ég var ekki að gefa mig fram til þess að lýsa því yfir að ég skildi fiskveiðistefnu Kvennalistans enda ekki velt henni svo mikið fyrir mér. Ég veit ekki hvort ég skil hana, ég hef a.m.k. aldrei nokkurn tíma séð byggðakvótann útfærðan. Ég er tilbúinn hvenær sem er að fara í rökræður um það. Ég skil hugmyndirnar að baki en ég hef þá reynslu af fiskveiðum og vinnslu, óbeina að vísu, að ég geri mér grein fyrir að þetta er ekki einfalt mál. Málið er einfaldlega það að engin einföld lausn er til á stefnunni í sjávarútvegi og fiskvinnslu. Hér er um svo flókið mál að ræða og það eru svo margþættir hagsmunir í húfi að þetta er miklu flóknara en það sé hægt að segja sem svo: Stefna okkar er byggðakvóti. En, virðulegi forseti, ég ætlaði ekki hér í rökræður við Kvennalistann um byggðakvóta.
    Í upphafi vil ég fara nokkrum orðum um þær ræður sem ráðherrar fluttu hér. Ég verð að segja það að ég varð mjög hissa þegar hæstv. forsrh. lauk sinni ræðu án þess nokkurn tíma að koma að því máli sem hér var til umræðu. Megininntakið í hans máli var að ríkisstjórnin væri með aðgerðum sínum í ríkisfjármálum búin að plægja akurinn og nú væri hann tilbúinn fyrir hagsmunaaðila í sjávarútvegi og annars staðar til þess að erja og uppskera. Það var á honum að heyra að nú sigldum við nokkuð lygnan sjó og þetta væri allt í lagi. Hann gleymdi hins vegar einu grundvallaratriði. Hann gleymdi því að kjarasamningar eru lausir og það skiptir verulegu máli eins og ég mun koma að hér á eftir.
    Í öðru lagi hlustaði ég með athygli á ræðu hæstv. sjútvrh. Ég veit að sjútvrh. er ekki í öfundsverðu hlutverki innan ríkisstjórnarinnar. Hann skilgreindi vandann af skörungsskap og hann lýsti því fyrir okkur líka af sama skörungsskap að það yrði að skapa sjávarútveginum viðunandi rekstrarskilyrði. En því miður þegar kom að því að segja hvað ætti að gera til að skapa sjávarútveginum rekstrarskilyrði varð minna úr skörungsskapnum. Þá var eins og ráðherrann koðnaði allur niður og það var nánast ekki neitt sem við fengum að vita um hvað hæstv. núv. ríkisstjórn ætlaði að gera. Ég túlka þetta ekki þannig að hæstv. sjútvrh. kunni ekki að eygja einhverja möguleika og einhverjar lausnir á þessum vanda Ég túlka þetta þannig að aðrir ráði ferðinni í núv. ríkisstjórn. Að það sé stefna hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. sem þar ráði ferðinni og þar megi sjútvrh. sín lítils.
    Ef við lítum á hver staðan er nú get ég tekið undir það með sjútvrh. að sameiginlega bera líklegast allir stjórnmálaflokkar sem hér eru inni nema e.t.v. Kvennalistinn ábyrgð á þeim vanda sem sjávarútvegurinn er í í dag. Það er ekkert eitt atriði sem þar hefur ráðið meiru en fastgengisstefna á tímum þegar menn réðu ekki við aðra þætti efnahagslífsins og lentu í því að raungengi hækkaði þegar verst gekk yfir 20% á einu ári. Ofan í þessar aðstæður, og nú vona ég að hæstv. sjútvrh. túlki þetta ekki sem pólitískt skæklatog, knúði síðan Sjálfstfl. fram frelsi í vaxtamálum með miklu meira offorsi og miklu meiri hraða en nokkurt vit var í. Sjálfstfl. fékk síðan dyggan liðsmann í vaxtamálum þegar hæstv. núv. viðskrh. komst í ráðherrastól og sagði, eins og þeir, að markaðurinn ætti að ráða vöxtunum. En mér heyrðist hins vegar á hæstv. viðskrh. í ræðu hans fyrr í vetur að augu hans hefðu allt í einu opnast fyrir því að kannski væru hér ekki að öllu leyti þær aðstæður sem þyrftu til þess að hægt hefði verið að sleppa vöxtunum lausum með svo snöggum hætti og gert var. Ég man ekki betur en hæstv. viðskrh. hefði lýst því hér yfir á Alþingi í vetur að meðan lánsfjármarkaðurinn væri ekki opnaður fyrir erlendri samkeppni mundi atvinnulífið ekki njóta viðunandi kjara á lánsfé. Hann sagði með öðrum orðum að í skjóli fákeppni á okkar markaði hefðu milljarðar verið færðir frá atvinnulífinu og yfir til fjármagnseigenda á síðustu árum. Þar hafa verið að ávaxta sig milljarðarnir sem hæstv. sjútvrh. nefndi réttilega að vegna skekkju í hagkerfinu hafa flust frá grunnatvinnuvegunum og til þjónustugreinanna. Þeir hafa síðan náð að margfalda sig í gegnum ranga peninga- og vaxtastefnu. Þetta er nú því miður að nokkru leyti sú mynd sem við okkur blasir.
    En hvað hefur hæstv. núv. ríkisstjórn gert í þessum málum? Hvað hefur hún gert til að laga þetta misvægi í hagkerfinu? Ég heyri að hæstv. sjútvrh. skilur hvert það misvægi er. Maður les hins vegar skýrslur sérfræðinga ríkisstjórnarinnar og hlustar á málflutning þeirra innan stjórnarinnar sem halda akkúrat öfugu fram, hafa haldið því fram að það þurfi að leggja sérstakt gjald á sjávarútveginn til að ná jafvægi og hafa haldið því fram að gengi hafi um árabil verið skráð út frá hagsmunum sjávarútvegsins. Hér stangast fullyrðingar á á þann hátt og það er kannski ekkert undarlegt því að hér erum við e.t.v. komin að því atriði sem mestur ágreiningur er um í núv. hæstv. ríkisstjórn. Og bæði við þingmenn, Alþingi og raunar þjóðin öll hlýtur að eiga heimtingu á því að ríkisstjórnin upplýsi hver sé hennar stefna í þessum málum, hvort það sé viðhorf hæstv. sjútvrh. sem segir að hér sé og hafi verið viðvarandi skekkja í hagkerfinu, sjávarútveginum, fiskvinnslunni og útflutningnum í óhag eða hvort það sé stefna hæstv. viðskrh. sem segir að það þurfi að koma á veiðileyfagjaldi til að skapa eðlileg starfsskilyrði milli atvinnugreina í landinu. Hér ber svo mikið á milli að það hlýtur að vera eðlileg krafa þingmanna að það verði upplýst hver sé hin raunverulega stefna.
    Ég ætla að koma aðeins örlítið að þróun fiskvinnslu og veiða að undanförnu og bendi á í því sambandi að þar hafa verið að eiga sér stað miklar breytingar, m.a. með tilkomu frystitogaranna sem síðan hafa knúið landvinnsluna til breytinga. Og ég held að lausnin þar sé ekki sú að agnúast stöðugt út í frystitogarana þó að þeir eigi auðvitað að starfa eftir eðlilegum starfsreglum. Ég held að hlutirnir séu að þróast á þann hátt að landvinnslan sé að breyta sínum vinnsluaðferðum og hún sé að hasla sér völl á nýjum sviðum sem aldrei verði unnin úti á sjó nema þá í verksmiðjuskipum af margfaldri stærð við það sem við þekkjum í dag. Með tilkomu og þróun flæðilínanna og síðan fullvinnslu í neytendapakkningar í framhaldi af því er landvinnslan að hasla sér völl á sviðum sem frystitogararnir geta ekki. Þetta hefur tvíþættan tilgang. Þetta eykur aflaverðmætið til lengri tíma litið og þetta dregur úr sveiflum fyrirtækja í landvinnslu þar sem það sýnir sig að verð á fullunnu vörunni í neytendapakkningunum sveiflast miklu minna en í hálfunnu vörunni, flökum, ferskum eða frystum. Þarna er mikið verk óunnið og ég tek undir það með þeim þingmönnum sem hér hafa talað að til viðbótar þessu þarf að nýta nýja stofna. Og þar vil ég sérstaklega benda á hlutverk öflugu fyrirtækjanna í veiðum og fiskvinnslu í dag. Ég held að nú sé komið að þeim að veita hluta af hagnaði sínum í þróun bæði við fiskveiðar og vinnslu. Og ég held raunar að þetta sé sterkasta vopnið sem sjávarútvegurinn á Íslandi á í dag til þess að slá á veiðileyfagjaldstalið. Ef þau fyrirtæki, sem öflugst eru í sjávarútveginum í dag, fara að þróa nýjar vinnsluaðferðir, leggja í það peninga, leggja peninga auk þess í tilraunaveiðar á nýjum tegundum munu þau slá vopnin úr höndunum á veiðileyfagjaldspostulunum. Ég get alveg tekið undir það að ef þróunin yrði hins vegar sú að hagnaðurinn yrði að mestu eða öllu leyti tekinn út úr greininni þá væru allt önnur viðhorf uppi.
    Ég vil til viðbótar varðandi veiðileyfagjaldið benda postulum þess á það að ég skal alveg taka þá viðræðu upp við þá aftur eftir svona u.þ.b. tíu ár þegar fiskvinnslan hefði haft tækifæri til þess að byggja upp sitt eigið fé. ( ÖS: Ætlar þú að vera hérna þá?) Hv. 17. þm. Reykv. spyr hvort ég ætli að vera hér þá. Ég vona að við munum vera hér báðir eftir tíu ár og geta tekið þá umræðu upp aftur á þeim tíma en ég get tekið hana upp á öðrum vettvangi ef svo færi að ég yrði ekki hér. En að tala um veiðileyfagjald meðan sjávarútvegurinn er eins skuldsettur og hann er í dag er algerlega út í hött.
    Að lokum örfá orð um lausa kjarasamninga. Ég held að það sé afar mikilvægt að það takist að viðhalda þeirri þjóðarsátt sem komst á í tíð fyrrv. ríkisstjórnar og ég bendi á að nánast það eina sem hæstv. núv. ríkisstjórn hrósar sér af er að verðbólgan sé að komast niður undir núllið. En skyldi það nú ekki vera hluti af arfinum, skyldi það ekki vera hluti af fortíðarvandanum? Hvað hefur hæstv. núv. ríkisstjórn gert til þess að svo megi vera? Þess vegna held ég að það hljóti að vera meginmál að tryggja áframhaldandi þjóðarsátt, tryggja það og leiða saman aðila vinnumarkaðarins á þann hátt að það náist samstaða um leiðir sem allir aðilar geti verið ánægðir með. Og ég vil hafa það sem mín lokaorð að ég trúi því með stuðningi góðra manna muni það takast, ekki vegna stefnu núv. ríkisstjórnar heldur þrátt fyrir stefnu núv. ríkisstjórnar.