Staða sjávarútvegsins

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 18:20:00 (3867)


     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Það var auðvitað aldeilis makalaust að heyra orð hv. 9. þm. Reykn. áðan sem lét í það skína eða sagði hér um bil bókstaflega að ástæðan fyrir því að hér lægju á borðum þingmanna upplýsingar um stöðu íslensks sjávarútvegs væru einhvers konar þvingunarbragð, eins og þingmaðurinn vogaði sér að orða það. Einhvers konar þvingunarbragð af hálfu ríkisvaldsins, hins opinbera, vinnuveitenda væntanlega til þess að koma kjarasamningaviðræðum í ákveðinn farveg. Þetta er auðvitað alveg fáheyrð yfirlýsing og gengur alveg á skjön við allt annað sem talað hefur verið um í þessum efnum upp á síðkastið hér í þingsölum. Vitaskuld var hér um að ræða eðlilegt innlegg í þá umræðu sem þarf að fara fram um sjávarútveginn í landinu og fer fram um sjávarútveginn í landinu hverju sinni og þetta var þýðingarmikið innlegg að því leytinu að það varpaði ljósi á stöðu þessarar mikilvægustu atvinnugreinar okkar. Skýrsla Þjóðhagsstofnunar og skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um útgerðina hafa valdið þáttaskilum vegna þess að þær hafa gefið okkur tækifæri til að ræða málefni sjávarútvegsins á allt öðrum grundvelli en áður voru kannski tök á og þær eru að minnsta kosti tilefni til að menn drífi sig upp úr hjólfarinu og hætti að spæna svona hver framan í annan og tala í þeim dúr að ástæðurnar séu misjafnlega vondar ríkisstjórnir. Kjarni málsins, sem þessi skýrsla varpar ljósi á, er auðvitað sá sem hæstv. sjútvrh. hefur marglýst í ræðu að þessar skýrslur sýna okkur það fyrst og fremst svart á hvítu að það hefur hallað á sjávarútveginn í gegnum tíðina. Þess vegna er sérstök ástæða til að hvetja til málefnalegrar umræðu um sjávarútveginn og stöðu

hans á Íslandi og ég vara við talsmáta af því tagi að það megi rekja vandmál sjávarútvegsins nokkra mánuði aftur í tímann. Þessar skýrslur, sem hér hefur verið lýst, gefa okkur fyrst og fremst tilefni til að skoða rót vandans.
    Meginniðurstaðan er einfaldlega sú að miðað við núverandi aðstæður og þrátt fyrir að um lítils háttar skuldbreytingu yrði að ræða í sjávarútveginum stæði meiri hluti greinarinnar eftir þannig að hann ætti við verulega greiðsluerfiðleika að stríða. Það er auðvitað rétt sem hv. 1. þm. Austurl. sagði áðan að þetta dæmi gæti auðvitað snúist við ef skrefið yrði stigið lengra í skuldbreytingu í íslenskum sjávarútvegi og þetta kannski varpar ljósi á það umhverfi sem sjávarútvegurinn starfar við í dag. Upplýsingar Þjóðhagsstofnunar leiða það nefnilega fram að afborgunartími langtímalána sjávarútvegsins er í dag 5,8 ár en með tiltekinni lánalengingu sem stofnunin miðar við yrðu þetta 8,4 ár. Ég vil biðja þingmenn að hafa í huga hver meðallánstíminn er á ýmsum öðrum sviðum okkar þjóðfélags. Ég nefni sem dæmi húsnæðislánin. Húsnæðislán er hægt að taka hér til allt að 42 ára. Námslánin og fleira mætti tína til í þessum efnum. Þetta sýnir okkur auðvitað hver afstaðan hefur verið, hvert umhverfið hefur verið sem íslenskur sjávarútvegur hefur orðið að búa við. Og ég er sammála hv. 1. þm. Austurl. um það að vitaskuld mundi staðan breytast við það að lánin yrðu lengd. En því miður hygg ég að það sé ofmælt að við kæmumst út úr þeim vandamálum, og það voru raunar ekki orð hv. 1. þm. Austurl., með því einu að fram færi ein skuldbreytingarhrinan til viðbótar.
    Það hefur stundum verið talað um í þessu sambandi að allt hafi hér verið með öðrum róm áður í páfadóm, eins og sagt var, árið 1990 og þá hafi aldeilis ekki verð nein vandræði í íslenskum sjávarútvegi. Ég vil minna á í þessu sambandi að skýrslurnar sem verið er að vitna til byggja á tölum frá árinu 1990 þannig að þessi spá, þessi lýsing um sjávarútveginn á við árið 1990.
    Og nú skulum við aðeins huga að útgerðinni. Niðurstaða Hagfræðistofnunar Háskólans er sú að tapið á árunum 1980--1990 í útveginum einum, hafi numið upphæð sem svarar til þjóðarauðsmati fiskiskipaflotans á árinu 1990. Þetta finnst mér vera kjarni málsins og allt tal um það að einhver ríkisstjórn hafi á örfáum mánuðum söðlað hér um, skapað sjávarútveginum svo vond skilyrði er auðvitað tilraun til þess að komast hjá því að ræða það sem er kjarni þessa máls og niðurstaða þessarar talnalegu skýrslu sem ég hef verið að gera að umtalsefni.
    Ég held að aðalástæðan fyrir því að íslenskur sjávarútvegur er í þessari kreppu sé sú að sú verðmætasköpun, sem átt hefur sér stað innan greinarinnar, hefur ekki fengið að taka sér þar bólfestu. Henni hefur verið ýtt út í þjóðfélagið og notuð til annarra þarfa sem m.a. endurspeglast í þessum mikla viðskiptahalla sem margoft hefur verið talað um hér í þessum umræðum og engin ástæða er til þess að orðlengja sérstaklega.
    Menn hafa talað mjög mikið um það að óhagkvæmni og óhagræði sé ríkjandi í íslenskum sjávarútvegi. Ég hef áður farið með tölur um þar sem borin er saman arðsemi í íslenskum sjávarútvegi og þeim norska sem við erum m.a. að keppa við og þær tölur eru mjög fróðlegar. Ég hef að vísu ekki nýrra talnaefni en frá 1990 en það leiðir hins vegar margt athyglisvert í ljós. M.a. það að ef við berum saman útgerðarkostnaðinn almennt í Noregi við útgerðarkostnaðinn hér á landi og ef við byggjum við álíka arðsemi í okkar sjávarútvegi og ríkir í þeim norska þá væri útgerðarkostnaðurinn almennt 16 milljörðum hærri á verðlagi ársins 1990 en hann er í dag. Launakostnaður sjómanna einna sem útgerðin yrði að borga væri 9 milljarðar og samtals er um að ræða 25 milljarða. Þessi ávinningur sem íslenskur sjávarútvegur hefur skapað með sínu skipulagi og sínum starfsháttum hefur greinilega ekki orðið eftir í greininni heldur skilað sér út í þjóðfélagið. Þetta er sá kaldi veruleiki sem við okkur blasir.
    Menn tala líka mjög um offjárfestinguna sem átt hafi sér stað í íslenskum sjávarútvegi og víst er það svo að margt hefði mátt betur fara í þeirri grein, líka í fjárfestingunum. En það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að fjárfestingin í fiskveiðum og fiskvinnslu hefur verið þetta á bilinu 4--8% að jafnaði á síðasta áratug, einu sinni farið upp fyrir 8% sem hlutfall af heildarfjárfestingum á Íslandi á þessum tíma. Og ég efast um að það geti talist ýkjamikil heildarfjárfesting í þessari atvinnugrein í ljósi hennar mikla mikilvægi. Og líka í ljósi þeirrar kröfu sem er í okkar þjóðfélagi um að hún aðlagi sig sífellt að nýjum og breyttum aðstæðum, stundi nýjar veiðar eins og hv. 17. þm. Reykv. gerði hér mjög að umtalsefni í sinni ræðu sem á margan hátt var mjög athyglisverð en ég vek athygli á því að nýsköpun af þessu taginu kostar auðvitað peninga.
    Ég tek undir það að ræða hv. 17. þm. Reykv. var á margan hátt mjög athyglisverð og fróðleg og þar var sleginn á margan hátt nýr tónn og öðruvísi tónn, svona bjartsýnni tónn en hann féll auðvitað í þá gömlu gryfju sem menn hafa verið sem óðast að falla í á þessu ári að tala mjög illa um bölmóðinn í þjóðfélaginu. Það er eitthvert tískufyrirbrigði núna að tala mjög illa um bölmóðinn og segja sem svo að þeir sem bendi á hinar sáru staðreyndir í íslensku efnahagslífi og íslensku atvinnulífi séu fullir af bölmóði. Hin hliðin á því að vera ekki fullur af bölmóði er auðvitað að vera fullur af óþarfa bjartsýni og sjá ekki þau vandamál sem fram undan eru.
    Ég held hins vegar að þessi ræða hafi gefið fullt tilefni til þess að vekja athygli á þeim miklu breytingum og þeirri miklu hagræðingu og þeirri miklu nýsköpun sem hefur verið að eiga sér stað í íslenskum sjávarútvegi síðustu árin. Eða hafa menn borið saman íslenskt frystihús í dag og íslenskt frystihús fyrir fimm eða tíu árum og séð hversu gjörólíkt fyrirbrigði er þar á ferðinni? Íslensk frystihús hafa verið að aðlaga sig og íslensk frystihús hafa verið að breytast. Íslenskir sjávarhættir hafa verið að breytast. Er öll sú nýsköpun, sem m.a. hefur orðið hér í fjölmörgum litlum fiskvinnslustöðvum á Stór-Reykjavíkursvæðinu, ekki einmitt vitni um það að hér sé lifandi og öflug atvinnugrein sem hefur mikla aðlögunarhæfni og þorir að takast á við nýjungar? Menn mega ekki tala eins og það sé ekkert að gerast í íslenskum sjávarútvegi því að þannig er það ekki.
    Ég nefni dæmi um atvinnugrein sem er að komast í tísku að tala heldur illa um. Ég tók eftir því að annar formanna sjávarútvegsnefndarinnar talaði um rækjuvinnsluna í einu slengi með alls konar atvinnugreinum sem hann taldi til mikilla vandræða í íslensku þjóðfélagi. Rækjan var þó á sínum tíma ein merkasta nýsköpun í íslenskum sjávarútvegi og hefur fært okkur milljarða, tugmilljarða, hundruða milljarða verðmætaauka í þjóðfélagið. (Gripið fram í.) Það efast ég um, hv. þm. Ég bendi hins vegar á hversu ört þessi þróun hefur átt sér stað í rækjuvinnslunni og rækjuveiðunum. Allt er þetta dæmi um það hversu vel menn eru þó að reyna að taka á.
    Vandinn í þeirri stöðu sem menn eru almennt í í íslenskum sjávarútvegi er hins vegar sá að þróunarstarfið, svo mikilvægt sem það er, kostar fé. Og svo langt er náttúrlega hægt að ganga að greinin treysti sér ekki til að taka þá áhættu sem alltaf er samfara slíku þróunarstarfi. Við höfum auðvitað stundum leitað út á fjarlæg mið eins og kolmunnaveiðarnar á sínum tíma eru dæmi um. Þannig er sífellt verið að reyna að leita að nýjum hugmyndum.
    Virðulegi forseti. Ég held að það blandist engum hugur um að ef allt fer á hinn versta veg verða afleiðingarnar skelfilegar. Mér dettur ekki í hug að nokkur vilji að þannig vindi þessum málum fram. Nú eru þau mál sem snúa að vanda íslensks sjávarútvegs í meðferð í sjútvn. sem er að störfum til að móta til langs tíma sjávarútvegsstefnu. Þeirrar nefndar bíður ærið hlutverk. Hvað þetta mál sérstaklega áhrærir ber henni auðvitað að hraða mjög störfum sínum. Afleiðingin, ef allt fer á versta veg, kemur fram í byggðarlögunum allt í kringum landið, hjá þjónustufyrirtækjunum, hjá bönkunum og hjá sjóðunum, og við okkur mun blasa nýtt samfélag sem ég efast um að nokkurt okkar kjósi að horfa framan í.
    Skilaboðin, ef ekkert er gert, eru auðvitað þau að menn verða að bjarga sér hver sem betur getur við óbreyttar aðstæður. Skilaboðin hljóta enn fremur að vera þau að hverfa í frekari mæli frá landfrystingu, frá því að vinna fisk í landi, eins og þó hefur verið uppistaðan í okkar íslenska sjávarútvegi, og að því að auka sjófrystinguna og aðrar atvinnugreinar af því taginu. Eins og menn vita er afkoman í sjófrystingunni allmiklu betri en í sjávarútveginum í heild sinni og þess vegna eru hin óbeinu skilaboð, ef aðstæður í íslenskum sjávarútvegi breytast ekki, að menn verði að bjarga sér með þeim hætti. Ég veit hins vegar að hæstv. ríkisstjórn mun taka á þessu máli af festu og ákveðni. Það hefur verið að skapast nýtt andrúmsloft fyrir íslenskt atvinnulíf með lækkandi vöxtum og ört minnkandi verðbólgu og það eitt út af fyrir sig er verulegur árangur.
    Tíminn undanfarið hefur farið í það að hreinsa til í ríkisfjármálum og reyna að koma lagi á þau mál öll. Það hefur tekið mikinn tíma. Verkefnin fram undan eru þau að snúa sér frekar að atvinnumálunum en gert hefur verið og þess vegna held ég að ástæðulaust sé að fella hér einhverja sleggjudóma. Ég vek athygli á að menn hafa talað mjög almennt um þessi mál. Menn hafa talað um að bæta gengisumhverfið án þess að það væri nokkurn tímann útskýrt hvað það þýddi, hvort það þýddi gengislækkun eða hækkun eða hvað. Menn hafa með öðrum orðum talað mjög á almennum nótum þar sem staðan er einfaldlega sú að við erum að safna upplýsingunum, meta aðstæðurnar, og á þeim grundvelli verða ákvarðanirnar teknar.