Staða sjávarútvegsins

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 19:59:00 (3884)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherrum fyrir þau svör sem þeir hafa veitt þótt ekki telji ég að þau svör geri okkur mikils vísari. Það er hins vegar mikilvægt að umræður af þessu tagi fari fram og jafnvel þótt við höfum ekki fengið mikil svör hér í dag þá vænti ég þess að hæstv. forsrh. geti með meira afgerandi hætti sannfært þá mikilvægu menn sem á hans fund koma á morgun eins og hann gat um hér áðan því að þess óska allir að vinnufriður geti ríkt í landinu. Við megum ekki við því að missa atvinnulífið í þá óvissu sem verkföllum fylgir og þótt ég sé ekki stuðningsmaður núv. ríkisstjórnar þá óska ég þess ekki að ófriður ríki á vinnumarkaði. Það eru hugleiðingar sem enginn stjórnmálaflokkur eða stjórnmálamaður má ala með sér, en stundum ber á því að menn eru allt að því að láta í það skína að einstakir stjórnmálaflokkar vilji sjá slík átök. Það er alls ekki rétt, a.m.k. að því er Framsfl. varðar. Við teljum að hér sé hægt að ná samningum og það beri að vinna að því af fullum krafti en erum hins vegar ekki ánægðir með hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur gengið fram í þeim málum.
    Í þessum umræðum hefur komið fram mikill áherslumunur að mínu mati. Það er mikill áherslumunur milli þess sem hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. segja annars vegar og síðan hæstv. sjútvrh. Það er greinilegt að hæstv. sjútvrh. hefur miklu meiri áhyggjur af ástandinu en þeir aðrir ráðherrar sem ég hef nefnt. Hann segir hins vegar afar lítið um hvað hægt er að gera, enda greinilegt að um það ríkir ekki samstaða. Ég ætla ekki að fara frekar út í það en það verður fróðlegt að heyra hvað forustumenn atvinnulífsins segja um ummæli hæstv. ráðherra og hvort þeir eru sammála því að hér sé e.t.v. ekki svo mikill vandi á ferð. Ég er að vísu sammála því að annar formaður nefndarinnar gerði of mikið úr vandanum og ég er sammála því að það er rangt að halda því fram, eins og hæstv. forsrh. sagði í upphafi, að hér væru 45% af sjávarútveginum á beinni gjaldþrotabraut. ( Forsrh.: Ég vitnaði til orða sem höfðu fallið.) Já, ég tók það nú svo, hæstv. forsrh., að þú værir að taka undir það. En ég tek það þá að sjálfsögðu til baka. En þetta er það sem menn hafa verið að segja og ef formaður nefndarinnar hefur ekkert umboð til að tala með þessum hætti þá er lágmark að sjá til þess að hann sinni sínum nefndarstörfum en sé ekki með slíkar yfirlýsingar út yfir þjóðfélagið því að það er ekkert gamanmál að tilkynna samfélaginu að líklegt sé að 45% af sjávarútveginum verði gjaldþrota, sérstaklega ef menn ætla síðan bara að vera nokkuð rólegir yfir því.
    Hér hefur verið mikið talað um að lítill hagvöxtur sé í landinu og það er rétt. Hæstv. forsrh. orðaði það eitthvað á þá leið að núv. ríkisstjórn ætlaði ekki að sætta sig við kaupmáttarhrap eins og í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það hefði verið vond stjórn og hún hefði stuðlað að kaupmáttarhrapi en bætti síðan við að í tíð hans sem forsrh. mundi kaupmátturinn minnka mun minna en ella hefði orðið. Þetta er markmið út af fyrir sig. En ég vænti þess að hér sé um einhver mismæli að ræða því að ég trúi því vart að nokkur ríkisstjórn vilji sjá kaupmáttinn minnka eða hrapa. Hins vegar verða menn oft að taka áföllum og þá verður að spyrja: Hvar eru vaxtarbroddarnir? Hvar eru möguleikarnir til að sækja fram? Hafa menn efni á því að láta það hrynja sem þeir hafa í höndunum? Hvernig stendur á því að sú aukning tekna sem hefur þó orðið í landinu hefur komið frá sjávarútveginum? Hvernig stendur á því að almennur útflutningsiðnaður hefur ekkert vaxið? Honum hefur heldur hnignað síðustu tvo áratugina. Auðvitað eru engar einhlítar skýringar á því og engum einum um að kenna. En það er hins vegar staðreynd að á sama tíma sem almennur útflutningsiðnaður hefur verið að vaxa í öllum löndunum í kringum okkur hefur hann ekki vaxið hjá okkur. Það er að sjálfsögðu að einhverju leyti vegna skilyrðanna, smæðar landsins, fjarlægðar frá mörkuðum og ég spyr: Eru miklir möguleikar sem menn sjá á þeim vettvangi? Ég vona vissulega að svo sé. En sagan segir okkur annað. Það eru vissulega miklir möguleikar í sjávarútveginum. Það hefur hann sýnt og hann hefur líka sýnt það á undanförnum árum og áratugum að þar er mikill sveigjanleiki. Það er út af fyrir sig alveg rétt hjá hæstv. viðskrh. að hér er við skipulagsvanda að etja að nokkru leyti. En það má ekki gera allt of mikið úr því að eingöngu sé um skipulagsvanda að ræða. Það hefur náðst verulegur árangur. Hins vegar er það rétt að menn hafa keypt ný skip og ég skal taka undir það að sum þessara skipa eru það dýr að mér fannst óþarfi að kaupa þau. En maður getur hins vegar ekki neitað því að því er varðar nýjustu loðnuskipin að þeim hefur gengið vel. Þeim hefur vegnað vel í rækjuveiðum. Það gekk illa í rækjuvinnslu í landi en það gekk hins vegar vel í rækjuvinnslu úti á sjó og þessi skip sýndu yfirburði og það kom í ljós að þau stóðu þrátt fyrir allt undir sér. Frystitogararnir margir eru áreiðanlega óþarfir að því leytinu til að önnur skip geta veitt það sem þeir eru að veiða. Það hefur hins vegar komið í ljós að það eru þessi skip sem fyrst og fremst geta sótt í úthafskarfa. Það eru ekki önnur skip í flotanum en þessi öflugu og sterku skip sem geta sótt í þessar nýjungar. Og þegar á að fara að sækja í meira mæli á meira dýpi þá eru það þessi öflugu skip sem sýna yfirburði. Það er ekki þar með sagt að það réttlæti þá miklu umframgetu sem er í flotanum. Ég er ekki að segja þetta vegna þess. En þetta er aðeins sönnun fyrir því að framfarir byggja á því að einhverjar nýjungar eigi sér stað. Og það má ekki drepa allt niður og standa gegn því að menn geti sótt fram þótt það sé oft og tíðum erfitt að skilja hvernig menn ætla sér að standa undir miklum fjárfestingum.
    Ég ætla ekki, hæstv. forseti, að lengja þessa umræðu. Ég hef skilið svör hæstv. ráðherra þannig að þeir sjái ekkert athugavert við skattastefnu ríkisstjórnarinnar, þar hafi allt rétt verið gert. Vaxtastefnan sömuleiðis, allt rétt. Lenging lána og skuldbreytingar. Tekið hefur verið undir það að rétt sé að standa að

slíku. Það hefur enginn haldið því fram að skuldbreytingar einar út af fyrir sig bjargi rekstrargrundvelli fyrirtækja. Ég held að yfirleitt detti ekki nokkrum manni það í hug sem þekkir eitthvað til reksturs í þessu landi. Hver hefur haldið því fram? Aldrei hef ég haldið því fram. Hins vegar er oft rétt að skuldbreyta lánum ef menn geta skapað rekstrargrundvöll og sjá fram á að hægt sé að borga lánin til baka. Ég veit ekki betur en það sé verið að gera þetta í hverju einasta fyrirtæki meira og minna allt árið um kring. Jafnvel stór fyrirtæki eins og Landsvirkjun eru að taka ný lán til þess að endurfjármagna gömul lán á hverju einasta ári. Ég býst við að sveitarfélögin í landinu séu að þessu og þannig mætti lengi telja. Engum dettur þá í hug að gefa út miklar yfirlýsingar um það að allir sem leita eftir skuldbreytingum séu á gjaldþrotabraut.
    Ég get vel skilið hæstv. forsrh. í því að hann þráir það ekki að ríkisstjórn hans verði óvinsæl alla tíð. Í okkar lýðræðislega skipulagi er ævi ríkisstjórna ekki óskaplega löng og ég er ekki að hvetja hæstv. ríkisstjórn sérstaklega til að afla sér vinsælda. Hún verður fyrst og fremst að gera það sem skynsamlegt er og ég tel að henni beri að standa við bakið á atvinnulífinu og sýna því skilning að þaðan kemur verðmætasköpunin. Mér finnst að í þessari umræðu hafi sá skilningur ekki komið fram.
    Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um það. Ég tel þrátt fyrir allt að þessi umræða hafi verið gagnleg. Hún hefur þó leitt það í ljós að áhyggjur eru í ríkisstjórninni, a.m.k. hjá sjútvrh. Mér finnst ekki vera nægilegur skilningur á málinu hjá hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. Ég vil segja það við hæstv. viðskrh. vegna þess að hann sagði að þjóðarsátt yrði að nást um stjórnun fiskveiðanna að ég get verið sammála því. En dettur hæstv. ríkisstjórn í hug að einhver þjóðarsátt náist í þessu máli ef ekki á að vinna að því í neinu samráði við stjórnarandstöðuna í landinu? Hvernig er það hugsað? Og dettur hæstv. viðskrh. það í hug að einhver þjóðarsátt verði um það veiðileyfagjald sem hann og Alþfl. boða nánast í hvert einasta skipti sem haft er við þá viðtal? A.m.k. er það svo með utanrrh. sem er nú ekki staddur hér. Meira að segja þegar hann er að tala um Íslenska aðalverktaka fer hann að tala um veiðileyfagjald og telur 900 millj. vera eins og lítinn sparibauk í samanburði við það allt saman. Eru þetta mennirnir sem ætla að ná þjóðarsátt í þessum málum? Það mun ekki takast, hæstv. viðskrh.