Framleiðsla og sala á búvörum

92. fundur
Föstudaginn 28. febrúar 1992, kl. 11:02:00 (3891)


     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Hér hefur orðið nokkur ys og þys af sáralitlu tilefni. Sannleikurinn er sá að innan landbn. var um það samkomulag að þetta mál yrði skoðað öllu nánar. Ég held að það blandist engum hugur um það að einmitt um þetta viðkvæma atriði, eins og fram hefur komið í máli hæstv. landbrh., þurfi að ríkja alveg klár skilningur. Það gerðist í sumar þegar á það fór að reyna, sölu á fullvirðisrétti, þá kom upp þessi staða gagnvart fjölmörgum leiguliðum og ég geri ráð fyrir því að þingmenn, a.m.k. í dreifbýliskjördæmum, hafi flestir fengið fyrirspurnir um mál af þessu taginu. Það var mjög margt sem mátti teljast til álita þar og fjölmargt kom raunar mönnum nokkuð á óvart í þessu sambandi. Það var hins vegar rakið og því var lýst á fundi landbn. sem ég nefndi hérna áðan að um þessi mál hafi verið að mótast nokkur skilningur og lögfræðingar hafi verið að komast að þeirri niðurstöðu að það mætti draga af laganna hljóðan og leiða af texta laganna ákveðinn skilning sem væri augljós í þessum efnum. Það breytir hins vegar ekki því að það er mjög þýðingarmikið að allir séu sammála um það hvernig eigi að fara með þessi mál og þess vegna varð það niðurstaða landbn. að fara nánar ofan í efni laganna og glöggva sig á þeim í því skyni að það væri enginn ágreiningur um þetta mál í framtíðinni. Ég taldi þess vegna að af þessu mundu ekki hljótast neinar efnislegar umræður og mér finnst raunar ekki standa efni til þess hér og nú að taka þessa efnislega umræðu vegna þess að sú vinna sem landbn. hyggst takast á hendur er eftir. Hitt er auðvitað alveg ljóst að í þessum efnum eru afar viðkvæm atriði sem lúta að sjálfum eignarréttinum og eignarréttarfyrirkomulaginu. Sambúð leiguliðans og eiganda jarðarinnar er auðvitað með þeim hætti, og vegna þessa nýja fyrirkomulags þar sem fullvirðisrétturinn er farinn að mynda verðmæti og skapa jörðinni verðmæti, að þá verður auðvitað að ganga mjög varlega til verka ef hugsunin er sú að fara að gera breytingar á núgildandi lögum af því að við vitum það að jörð með eða án fullvirðisréttar er auðvitað sitt hvað, verðmæti jarðarinnar ræðst af fullvirðisréttinum sem á henni hvílir.
    Þess vegna held ég að það hafi verið skynsamleg niðurstaða sem landbrn. komst að, þ.e. að leggja þetta mál til hliðar, afgreiða frv. eins og það liggur fyrir eftir 2. umr., taka það til efnislegrar meðferðar núna, ganga síðan til þess verks að skoða þetta álitamál sem hér hefur verið til umræðu, gera það í rólegheitum og rasa ekki að neinu, kalla eftir sérfræðilegu áliti og móta þá lagabreytingar ef ástæða þykir til og leggja síðan fyrir hv. Alþingi. Aðra málsmeðferð kem ég ekki auga á sem gæti talist skynsamlegri. Þetta varð niðurstaða landbn. og þess vegna endurtek ég það sem ég sagði hér í upphafi að mér finnst að það hafi orðið nokkuð mikill ys og þys af litlu tilefni.