Vegáætlun 1991--1994

93. fundur
Þriðjudaginn 03. mars 1992, kl. 17:57:00 (3941)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Undarlegt er að ráðherra lýsi því yfir að ekki hafi verið þörf fyrir lánsfé til Vestfjarðaganga á þessu ári. Það er slík yfirlýsing að furðu sætir. Ég veit ekki betur en menn séu svo aðkrepptir í áætlanagerð að engu má skeika svo illa fari.
    Hvað varðar þær 300 millj. sem hæstv. ráðherra er sífellt að tönnlast á til Skipaútgerðar ríkisins er rétt að láta það koma fram í eitt skipti fyrir öll að þetta er tómt kjaftæði í honum og hann veit það ofurvel. Hins vegar hefur það verið stefna stjórnvalda hingað til að styrkja flutninga á sjó að vissu marki. Það er skynsamlegt og ég bendi hæstv. ráðherra á grein, sem birtist í hans eigin málgagni fyrir nokkrum dögum, sem dregur fram einn höfuðþáttinn í því hvers vegna það er skynsamlegt. En það er að það sparar verulega slit á vegum.