Útfærsla togveiðilandhelginnar

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 10:51:00 (3979)

     Frsm. sjútvn. (Matthías Bjarnason) :
    Herra forseti. Þessi till. til þál. um útfærslu togveiðilandhelginnar er flutt af Magnúsi Jónssyni, varaþingmanni Alþfl., og er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að skipa nefnd til að gera tillögur um útfærslu togveiðilandhelginnar umhverfis Ísland.``
    Tillögunni fylgir ítarleg greinargerð þar sem þessum málum eru gerð skil. Nefndin leitaði umsagna um tillöguna og þær bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Fiskifélagi Íslands, Landsambandi ísl. útvegsmanna, Landssambandi smábátaeigenda, Sjómannasambandi Íslands og Vélstjórafélagi Íslands.
    Eins og menn vita setti Alþingi lög á árinu 1976 um fiskveiðilandhelgi Íslands sem voru góð og þörf lög á þeim tíma. Hins vegar hefur margt komið í ljós sem gerir það að verkum að brýn þörf er orðin á því að endurskoða þau lög, sérstaklega með tilliti til togveiðiheimilda. Og í ljósi þess beinir sjútvn. því til sjútvrh. að hann láti vinna að endurskoðun fyrrnefndrar löggjafar eins fljótt og verða má. Og með tilliti til þess að slík endurskoðun verði framkvæmd leggur nefndin til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Fulltrúi Kvennalistans, Anna Ólafsdóttir Björnsson, sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi, og er hún samþykk áliti nefndarinnar. Tveir nefndarmenn, þeir Árni R. Árnason og Guðmundur Hallvarðsson, voru fjarstaddir afgreiðslu málsins. Magnús Jónsson sat fund nefndarinnar þegar málið var afgreitt, í stað Össurar Skarphéðinssonar.