Iðn- og verkmenntun

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 12:14:00 (4001)

     Þuríður Bernódusdóttir :
    Virðulegi forseti. Þegar mörkun iðnaðarstefnu er til skoðunar er fjöldi atriða sem taka verður til íhugunar og vil ég gera grein fyrir nokkrum atriðum sem þarf að gefa gaum að í þeirri umræðu.

    Á meðan menn hefur dreymt stóriðjudrauma hefur í minna mæli verið sinnt öðrum iðnaðarmöguleikum, hvort sem er í samstarfi við erlenda aðila eða á eigin vegum. Til að vinna að því að laða hingað orkufrekan iðnað var sett á stofn markaðsskrifstofa iðnrn. og Landsvirkjunar sem eingöngu sinnir stóriðju en ekki smærri fyrirtækjum. Fyllsta ástæða er til að vinna sams konar starf til að laða hingað til lands lítil og meðalstór fyrirtæki, hvort sem er í iðnaði eða þjónustu.
    Mér er kunnugt um að síðasta ríkisstjórn lét vinna undirbúningsvinnu og fyrir liggja fullmótaðar tillögur um að hrinda af stað starfsemi sem væri fólgin í því að fá hingað til lands lítil og meðalstór erlend fyrirtæki til eflingar innlendri atvinnustarfsemi. Að nokkru leyti var gert ráð fyrir að því starfi svipaði til starfs núverandi starfa markaðsskrifstofunnar nema reynt yrði að koma kostum lands og þjóðar á framfæri við aðila sem hafa yfir að ráða iðnaðarfyrirtækjum sem henta mundu til að stunda framleiðslu hér á landi. Þarna tel ég að sé mikið verk fram undan sem ekki er hægt að ætla öðrum en ríkisstjórninni að vinna.
    Skipasmíðaiðnaður á Íslandi hefur sýnt að hann er vel samkeppnisfær við útlendan iðnað í gerð, búnaði og hönnun skipa. Einnig hefur tekist að hanna skip og báta sem henta betur íslenskum aðstæðum en mörg þau skip sem smíðuð eru erlendis og flutt hingað til lands. Í einu tilliti er innlendur skipamsíðaiðnaður hins vegar ekki samkeppnisfær en það er í fjármögnun og niðurgreiðslu á framleiðslu sinni. Þar hafa útlendingar vinninginn. Þetta er hins vegar allt að breytast og fyrr en síðar kann svo að fara að þær skipasmíðastöðvar sem nú keppa við íslenskar verði ekki lengur samkeppnisfærar. Kemur þar tvennt til. Með aukinni velmegun í löndum við Eystrasalt sem áður voru handan járntjalds, svo og á Spáni og í Portúgal, má gera ráð fyrir að vinnulaun hækki frá því sem nú er og rýri þannig samkeppnisstöðu þessara þjóða á sviði skipasmíða. Sama mun einnig gerast í skipasmíði í Austurlöndum fjær. Einnig miðar allt alþjóðlegt samstarf um fríverslun að því að koma í veg fyrir niðurgreiðslur einstakra þjóða á framleiðslu sinni, þar á meðal skipasmíðum. Þetta mun á endanum einnig rýra möguleika þessara þjóða til að bjóða ódýrari skip en bjóðast hér á landi. Mjög miður væri ef innlendur skipasmíðaiðnaður með allri þekkingu og samanlagðri reynslu áratuganna legðist af á meðan samkeppnishæfi hans ykist. Þessu verða stjórnvöld að bregðast við og tryggja að sú dýrmæta verkkunnátta, tæki og búnaður sem nú eru til staðar í landinu til skipasmíða glatist ekki heldur verði hér enn þegar ekki fást lengur niðurgreidd skip frá útlöndum.
    Ef aflétt verður því banni sem nú er í gildi við því að erlend fiskiskip hljóti þjónustu í íslenskum höfnum hjálpar það einnig innlendum skipasmíðum sem þá fengju tækifæri til viðhalds og viðgerða á þeim skipum sem hingað leituðu. Brýnt er að Alþingi breyti hið fyrsta lögum sem nú koma í veg fyrir að hægt sé að þjónusta erlend skip í innlendum höfnum því aðstæður hafa mikið breyst á þeim 70 árum sem liðin eru frá því að þau lög voru sett.
    Þær eru ófáar ræðurnar sem fluttar hafa verið um að nú beri að efla eins og kostur er iðn- og verkmenntun í landinu sem hefur hin síðari ár dregist aftur úr annarri menntun sem ungu fólki stendur til boða. Við mótun iðnaðarstefnu verður einnig að taka tillit til þess þáttar sem ekki er síður mikilvægur en stefnumótun sem tekur til fyrirtækjanna sjálfra og rekstrarumhverfis þeirra. Skiptir þar mestu að svo verði búið að verkmenntaskólum í landinu að ungu fólki þyki ekki síður eftirsóknarvert að sækja þangað en í bóknámsskóla. Hér hafa fræðsluyfirvöld verk að vinna.
    Virðulegi forseti. Um allan heim er það svo að langflest atvinnutækifæri verða nú til í litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Í Bandaríkjunum hefur á undanförnum áratug orðið bylting á þessu sviði og smærri iðnfyrirtæki skila mestum arði og skapa flestum atvinnu. Efnahagsundur eftirstríðsáranna í Þýskalandi varð einnig að veruleika fyrst og fremst vegna aukins smáiðnaðar, einmitt iðnaðar af því tagi sem stendur nú undir stærstum hluta útflutningstekna þjóðarinnar.
    Fyrir okkur Íslendinga er það mikilvægast að leggja ekki árar í bát þótt ekki komi álver í bráð heldur vinda okkur í markvissa uppbyggingu iðnaðar á öllum sviðum og láta einskis ófreistað í þeim efnum.