Atvinnumál á Suðurnesjum

96. fundur
Föstudaginn 06. mars 1992, kl. 11:25:00 (4041)


     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Sá stíll sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur fært hér inn í umræðuna í þingsölum á síðustu vikum er vægast sagt sérkennilegur svo ekki sé meira sagt. Ég ætla þó ekki að gera það að neinu sérstöku umræðuefni frekar í þessum sölum.
    Það er hins vegar afar merkilegt þegar hv. þm. Ólafur Ragnar ræðir um atvinnumál á Íslandi og Suðurnesjum sérstaklega að hann talar ævinlega eins og hann hafi aldrei komið nálægt ríkisstjórn. Það er eins og hann beri enga ábyrgð á því sem miður fór í fari síðustu ríkisstjórnar. Þetta er vitaskuld fráleitt. En ég verð hins vegar að segja að mér þykir það skjóta skökku við að heyra hér í fyrri ræðum þingmannsins að honum þykir það miður að Margrét Thatcher, sá mæti stjórnmálaskörungur, skuli þrátt fyrir allt hafa með litlum hætti lagt nokkuð til atvinnumála á Suðurnesjum vegna þess að það hefur hún gert. Það vill nefnilega svo til að sú tilraun sem gerð var í fiskeldi fór fram að verulegu leyti á Reykjanesi ekki síst fyrir tilstilli stórhuga athafnamanna sem þar voru. Það vill svo til að sá sem hér stendur var styrktur til náms af Margréti Thatcher til að læra fiskeldi og ég átti minn litla þátt í því að þeirri atvinnugrein var af stokkum hleypt þannig að Margrét Thatcher hefur með vissum hætti í gegnum þetta komið nálægt atvinnumálum á Suðurnesjum. Það verður líka að segja hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni til hróss að hann hefur þar lagt gjörva hönd á plóg með Margréti Thatcher því að það var einmitt ríkisstjórn sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson studdi sem kom á samningi milli Íslands og Bretlands sem gerði það að verkum að talsverðum fjölda íslenskra námsmanna var hleypt til náms í Bretlandi á styrkjum frá bresku ríkisstjórninni.
    Þar fyrir utan er auðvitað sérkennilegt að heyra hann tala í nokkrum æsingartón um Margréti Thatcher. Það vill svo til að þingmaðurinn er henni sammála um ýmislegt. Ég ætla ekki að ræða um afstöðu þeirra beggja til Evrópubandalagsins en það vill svo til að Margrét Thathcer hafði ákveðnar hugmyndir um hvernig ætti að styðja atvinnulíf á stöðum þar sem það var verulega illa statt og þær hugmyndir voru ekki verulega fjarri mínum hugmyndum og ekki heldur þeim hugmyndum sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur sett fram. Til að mynda um það hvernig eigi að styðja smáfyrirtæki í iðnaði eins og hún gerði í Bretlandi í innborgum þar sem hún beitti sér fyrir lægra orkuverði, beitti sér fyrir því að ríkið greiddi tímabundinn húsaleigukostnað, beitti sér jafnvel fyrir því að hjá nýjum fyrirtækjum greiddi ríkið laun starfsmanna. Þetta þætti sennilega framsóknarmennska í Alþb. í dag en þetta er framsóknarmennska sem mér er mjög vel hugnanleg og ég hygg að Ólafur Ragnar Grímsson geti fyllilega tekið undir.
    Það slær mig hins vegar þegar formaður Alþb. fer nokkuð hörðum orðum um fjarstaddan iðnrh. og það er mjög ánægjulegt, eins og hefur komið fram að þessari umræðu verður haldið fram síðar, að þá geta þeir sennilega kljást um þetta mál, Ólafur Ragnar Grímsson og hæstv. iðnrh. og ég hygg að það verði létt verk fyrir iðnrh. að reka þessar staðhæfingar ofan í þingmanninn eins og hann hefur gert mörgum sinnum í þessum sölum áður. Staðreyndin er sú að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson kemur hingað aftur og aftur og talar um einhverja sérstaka patenthyggju Alþfl. í atvinnumálum. Ég veit ekki betur en það hafi komið ný patenthyggja í atvinnumálaumræðu á Íslandi. Og hvaðan kemur hún? Hún kemur, virðulegi forseti,

frá forustu Alþb., frá formanni Alþb. Menn þurfa ekki annað en að lesa t.d. áramótagrein hans til þess að skynja hina nýju patenthyggju í íslenskri atvinnumálaumræðu. Hvað er það? Það er tvennt. Það á að flytja út vatn. Jú, og við eigum allt í einu gullstreng, hann talar um gullstreng nýrrar aldar. Hver er sú kvörn sem á að mala gull framtíðarinnar? Þessi ágæti þingmaður vill leggja streng, virðulegi forseti, til Evrópu og selja þar um rafmagn. Það er framtíðin. Ef þetta er ekki patenthyggja þá veit ég ekki hvað er patenthyggja.
    Það er hins vegar mjög athyglisvert að í þessum umræðum hafa komið fram margar málefnalegar og athyglisverðar hugmyndir þó ekki hafi ég heyrt þær mjög í ræðu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar áðan. Þær hugmyndir, sem hafa t.d. komið fram í máli Kvennalistans, eru allrar góðra gjalda verðar. Það er auðvitað staðreynd að til þess að styrkja atvinnulífið á Suðurnesjum og í Reykjaneskjördæmi þarf að efla fiskmarkaðina, það er alveg ljóst. Það er það sem þarf að gera og það er í skjóli þeirra sem þessi litlu fyrirtæki sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson taldi með réttu vera kjarnann í þeirri uppbyggingu sem þarf að fara fram á Suðurnesjum. Þau vaxa og dafna í skjóli fiskmarkaða. Og þess vegna verð ég að segja að mér þykir miður að hæstv. sjútvrh. skuli ekki vera staddur hér í dag. Vegna þess að hans ráðuneyti hefur satt að segja ekki staðið sig vel í þessu máli. Nákvæmlega núna erum við að heyra í fjölmiðlum að Færeyingar eru að ná samningum um landanir skipa frá Þýskalandi og telja að það sé veruleg lyftistöng fyrir fiskvinnslu í Færeyjum. Nákvæmlega núna þegar ég stend hér og tala þessi orð þá er skip statt í Hafnarfjarðarhöfn, sem að vísu er ekki á Suðurnesjum en er í kjördæminu eigi að síður, þar er skipið Helen Basse statt, rækjuskip frá Danmörku og fær ekki leyfi til að landa. Það er auðvitað í gegnum svona hluti með því t.d. að auka möguleika erlendra skipa til að landa sínum afla að hægt er að lyfta undir fiskmarkaðina og ég verð að segja að það er furðuleg ósvífni af sjútvrn. miðað við það ástand sem ríkir í atvinnumálum á Suðurnesjum og í Reykjaneskjördæmi að hafna aftur og aftur þessum beiðnum eins og er búið að gera þrisvar sinnum og síðast núna í dag.