Hringvegurinn

96. fundur
Föstudaginn 06. mars 1992, kl. 12:09:00 (4049)


     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Mig langar fyrst að þakka hv. síðasta ræðumanni og raunar líka hv. þm. Jóni Kristjánssyni fyrir stuðning við þetta merka mál. Af því tilefni leyfi ég mér að rifja upp gang málsins eða hluta af því með því að geta um það að hinn 16. maí 1975 var samþykkt endanlega við lokaafgreiðslu í hv. Ed. með 18 shlj. atkv. að setja lög um norðurveg og austurveg. Þingmenn sameinuðust um að láta happdrættisfé renna í þessa framkvæmd og ljúka veginum frá Akureyri til Reykjavíkur og síðan frá Reykjavík til Egilsstaða á 3--4 árum. Ég vil sérstaklega geta þess að Reykvíkingar voru ekki síður áfram um það að þessi vegur yrði lagður en við sem börðumst þá fyrir dreifbýlið og það er rétt, sem komið hefur fram, að þetta er fyrir landið allt í heild.
    Nú er komið að því að þessu verður að hrinda í framkvæmd. Lögin, sem voru sett, báru aldrei hinn tilætlaða árangur. Fyrst var tekið af þessu fé í Borgarfjarðarbrú sem var sérverkefni og átti ekkert skylt við þetta frv. og síðan var neitað um fjárveitingar með þeim röksemdum að engir peningar væru til. Það er svolítið svipað því sem sagt er enn þann dag í dag: Það verður verðbólga, það verður þetta og það verður hitt ef við leggjum almennilega vegi.
    Auðvitað eru vegir grundvallarforsenda þess að lífvænlegt sé í landinu. Auðvitað átti vegurinn að vera kominn fyrir meira en áratug. Samkvæmt lögum átti að byrja á honum fyrir 17 árum. Þetta var einróma vilji Alþingis. Enn erum við að biðja um að þessu sé nú loksins lokið.
    Satt að segja hálfhitnar mér í hamsi við að rifja þessa forsögu upp. Ég er ekki að ásaka neina sérstaka flokka. Minn flokkur var alveg eins og allir aðrir, hann sagði: Það eru engir peningar til. Ísland hefur ekki efni á því að leggja vegi. Ísland hefur ekki efni á að gera þetta og gera hitt. Ég neita að hlusta á slíkan áróður, slíka endaleysu. Peningar eru ávísanir á verðmæti, annað ekki. Ísland á meiri verðmæti nú en nokkru sinni áður og átti miklu meiri en nóg verðmæti eins og sýndi sig í happdrættislánunum. Fólkið keypti bréfin en Alþingi sveikst um að framkvæma þann vilja sinn og fólksins að nota peningana í réttum tilgangi. Síðan var hægt að bjóða skuldabréfin út. Allir vildu kaupa þau. Þau voru með eðlilegum vöxtum og þau voru verðtryggð. Haldið þið að við hefðum ekki grætt á því ef við hefðum klárað þetta verkefni? Við skulum ekki vera að tala um það núna einn ganginn í viðbót. Vegurinn er auðvitað forsenda þess að fólkið um allt land geti unað við hag sinn. Það vill hafa sömu þægindi og Reykvíkingar hafa. Það hefur að sumu leyti meiri þægindi. Það sagði ég þá og það segi ég enn. Ég breyti ekki um skoðun vegna þess að ég sé í þessu kjördæminu eða hinu. Ég er kosinn á Alþingi og ég get sagt allt það sem ég sagði í öllum þeim ræðum sem ég hélt um þessi mál þá af því að auðvitað var það tekið upp á hverju einasta ári og krafist þess að lögunum yrði framfylgt en það var bara ekki gert. En ég vona nú að í þetta skipti verði lögum og ályktunum Alþingis fylgt, þeirri sem núna er t.d. flutt og ég þakka sérstaklega fyrir að hafa fengið að vera meðflutningsmaður að.
    Ég veit ekki hvort ástæða er til að vera að orðlengja þetta. Þessu verkefni verður að ljúka og auðvitað skiptir ekki nokkru minnsta máli þó að tekið sé fjármagn erlendis frá eða hvaðan sem er. Peningamarkaðurinn er að verða alþjóðlegur nema hér höfum við allt of háa vexti. En annars eru peningar auðvitað notaðir til þess að gera fólk ríkt, þjóðir ríkar. Við tókum peninga til að kaupa alla togara á þessari

öld, hvert einasta atvinnutækifæri á þessari öld, fram eftir öldinni. Auðvitað var byggt fyrir lánsfé. Engir peningar voru þá til á Íslandi. Engin verðmæti voru til nema landið sjálft sem er auðvitað aðalverðmætið og það eina sem skiptir máli þegar á heildina er litið og það er auðvitað landið sjálft sem er svo gífurlega verðmætt.
    Ég held að ég hafi sagt í tveimur ræðum í gær --- sem kannski enginn hefur tekið eftir af því að það voru ekki blaðamenn --- að við værum að eignast stærra yfirborð af jörðinni en öll Evrópa er, öll Mið-Evrópa og Suður-Evrópa og þetta sem sumir hverjir vilja jafnvel fara að gerast aðilar að. Verðmæti okkar þegar við erum búnir að framkvæma það sem við getum gert og eigum að gera samkvæmt hafréttarsáttmálanum að réttindi okkar á Hatton-Rockall svæðinu, 350 mílurnar á Reykjaneshrygg og síðan að loka öllu svæðinu í samvinnu við Norðmenn og Kanadamenn frá Noregs- og Skotlandsströndum yfir til Kanada. Þetta er allt að byrja. Það er leitað til Íslendinga til þess að verja miðin fyrir utan 200 mílur við Kanada. Við þurfum svo sannarlega á Helga Hallvarðssyni að halda til þess að verja mið okkar fyrir utan 200 mílurnar. Við eigum 350 mílur og það vorum meira að segja við í sendinefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, Benedikt Gröndal, Lúðvík Jósepsson og Þórarinn Þórarinsson frá þingflokkunum og aumingja ég. Við sömdum um það við Rússa af öllum mönnum að á neðansjávarhryggjum skyldi eðlileg framlenging landsins stöðvast vð 350 mílur. Rússarnir sögðu við okkur: Þið ætlið 2.000 mílur suður í höf af því að Ísland er efsti punktur í Norður-Atlantshafi þá er hann ,,national prolongation`` eins og það heitir á enskunni, óslitin framlenging niðri í hafsbotninum. Hún er suður úr öllu og við sögðum nei, nei, við ætlum ekkert að gera slíka kröfu en hvað viljið þið hleypa okkur langt? Rússinn var þá reyndar ekki kominn lengra en með 50 mílur. Seinna skýrðist af hverju það var. Það var Treholt-málið og það allt saman. Norðmennirnir voru dragbítar, t.d. í sambandi við 200 mílurnar en gleymum því. Þá sagði einhver: Þá má bæta a.m.k. við öðrum 200 og þá sagði einhver: Hafið þið það þá 350 í heildina, og það rúllaði í gegnum allan hafréttarsáttmálann. Ekki einn einasti maður á þinginu andmælti þessu. Já, 350. Við eigum þetta. Þetta er fullveldisréttur. Enginn má snerta þennan hafsbotn. Auðvitað þarf að verja hann og hrekja menn í burtu eins og Kanadamenn eru að gera.
    Kanadamenn eru komnir á undan okkur núna. Þeir voru raunar líka að átta sig á því. Við vorum alltaf með hugann við 200 mílurnar eins og þið getið ímyndað ykkur og við héldum að það væri endir heimsins. Allt í einu komu Kanadamenn upp með það. En það er hafsbotn lengra út og Bandaríkjamenn voru þeir fyrstu sem tóku 200 mílur af hafsbotni en það gerðist 1945 þegar Truman Bandaríkjaforseti lýsti yfir eignarhaldi Bandaríkjanna á 200 mílum og tók sér það. Hann hafði valdið. Auðvitað var þá skrifað í New York Times t.d. --- ég á þann leiðara einhvers staðar --- að það liggi í hlutarins eðli að sá sem eignast hafsbotninni eignist hafið fyrir ofan líka. Þá fóru Suður-Ameríkuþjóðirnar í gang og þá fórum við og aðrir í gang. Þessi saga er ekki endilega til að vera að rifja hana sérstaklega upp, en allt tengist þetta náttúrlega saman. Þessi litla þjóð á auðvitað að reyna að sameinast um það sem máli skiptir og þetta mál er auðvitað lítill angi af því og þó stór.