Hringvegurinn

96. fundur
Föstudaginn 06. mars 1992, kl. 12:36:00 (4053)


     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Það er mikið rétt sem síðasti ræðumaður sagði áðan, hv. 3. þm. Austurl., að sem betur fer er það svo að verulegur hluti af þessum vegi, Felli og Jökuldal, er í byggð og nýtist sem slíkur innan þess héraðs eða fjórðungs. En það er líka geysilega stórt og mikið verkefni að byggja upp það sem eftir er, úr byggð og upp á kjördæmismörk hvort sem það yrði við Biskupsháls eða annars staðar þar sem vegarendarnir mættust milli Norðurlands og Austurlands.
    Ég var ósköp einfaldlega að draga inn í umræðuna þennan veruleika sem ég hygg að blasi við mönnum, bæði í einstökum kjördæmum og sérfræðingum Vegagerðarinnar og öðrum sem um þessa hluti fjalla. Ég vil nefna sem dæmi til að skýra enn frekar mál mitt, þá áherslu sem þingmenn Norðurl. e. urðu blessunarlega ásáttir um upp úr 1980 og hafa framfylgt síðan. Þegar menn skoðuðu vegakerfið í því kjördæmi þá var það niðurstaðan að leggja mesta áherslu á tenginguna innan kjördæmis, öxulinn Húasvík, Vaðlaheiði og Leiruveg til Akureyrar og frá Akureyri til Dalvíkur og frá Dalvík til Ólafsfjarðar. Þetta var gert og þessu var framfylgt, unnið var markvisst að því að byggja upp þennan öxul í gegnum kjördæmið en láta hins vegar hringveginn og þar með talda tenginguna frá Akureyri um Hörgárdal og Öxnadal bíða. Hins vegar er núna verið að ráðast í það verkefni og framkvæma það og komið langleiðina að ljúka því. Slíkar ákvarðanir geta menn þurft að taka og eiga að taka af skynsamlegu viti á grundvelli bestu fáanlegra upplýsinga og rökræðna. Það er alveg eins með þetta dæmi sem hér blasir við okkur og önnur af þessu tagi í vegamálunum. Menn þurfa að ræða þau og skoða og taka síðan ákvarðanir. Það er um að gera að vinna þessa hluti eftir einhverri stefnu en hringla ekki með þá ár frá ári. Að sjálfsögðu er það þannig að ef menn taka ákvörðun um að ráðast í tenginguna milli Norðurlands og Austurlands, þá eiga menn að setja fullan kraft í það verkefni. Og þess vegna verða menn að vera tilbúnir til þess að láta aðrar framkvæmdir liggja í láginni eða vera í lágmarki á meðan til þess að vera ekki að dreifa kröftunum út um dal og hól. Þess vegna er það dálítið stór ákvörðun að taka að fara í uppbyggingu á vegakerfinu sem er meira

og minna öll leiðin frá vegamótum við Kröfluvirkjun og niður undir Egilsstaði.