Laun forseta Íslands

96. fundur
Föstudaginn 06. mars 1992, kl. 14:42:01 (4080)

     Flm. (Ólafur Þ. Þórðarson) :
     Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér frv. til laga um breytingu á lögum nr. 10/1990, um laun forseta Íslands. Frv. er lítið að sniðum, aðeins tvær greinar og hljóðar fyrri greinin svo, með leyfi forseta:
    ,,Orðin ,,og er undanþeginn öllum opinberum gjöldum og sköttum`` í 2. gr. laganna falli brott.``
    2. gr. hljóðar svo: ,,Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 1992.``
    Verði þetta frv. að lögum mun 2. gr. laganna hljóða svo með leyfi forseta:
    ,,Forseti hefur ókeypis bústað, ljós og hita.`` Það sem kemur þar á eftir í núgildandi lögum er þá fellt brott. Ég tel að í raun sé hér fyrst og fremst verið að samræma launakjör forsetans þeim viðhorfum sem ríkja í okkar samtíð um það hvernig beri að standa að greiðslum til forsetans. Þessi lagabreyting, ef að lögum verður, hefur engin áhrif á það hver laun forsetans verða í framtíðinni. Þau verða ákveðin af kjaradómi eins og þingmenn vita. Þetta gerir aftur á móti þann stóra mun að hverjum manni er ljóst hver launin eru og eins hitt að með ráðstöfun fjárins hefur forseti sömu möguleika og aðrir þegnar þessa lands til að nýta sína fjármuni vel en getur aftur á móti ekki spilað á það kerfi að sumir hlutir eru hátollavara hér á landi og aðrir ekki og margföldunaráhrif með því að verja fjármununum til kaupa t.d. á áfengi, eins og þekkst hefur, yrði úr sögunni. Ég segi þetta vegna þess að mér finnst að ákvæðið hafi orðið eftir fyrir misskilning. Það er komið úr fortíðinni. Eins og allir vita var aðallinn skattlaus og kóngar sömuleiðis en í því lýðræðisríki, Bandaríkjunum, þar sem ég tel að vagga lýðræðisins hafi staðið föstustum fótum greiðir forsetinn skatta og skyldur eins og aðrir þegnar.
    Ég vil taka það skýrt fram að sá tímapunktur að flytja þetta nú helgast af því að ég tel að eðlilegt sé að það sé gert þegar dregur að forsetakosningum en ekki sé verið að ræða þessi mál á þeim tíma þegar forseti hefur verið kjörinn. Það er eðlilegt að þá séu engar breytingar gerðar á hans högum á einn eða neinn veg.
    Ég vil taka það fram að ekki er öllum ljóst hvað felst í því að forseti sé undanþeginn öllum opinberum gjöldum. Það þýðir að sjálfsögðu það að hver þau gjöld sem ríkið leggur á og þegnarnir þurfa að greiða eru ekki greiðsluskyld af hálfu forsetans. Það gildir að sjálfsögðu jafnt um virðisaukaskatt sem aðra skatta.
    Ég vil undirstrika að í Bretlandi hefur átt sér stað veruleg umræða um það hvort rétt sé að konungsfjölskyldan þar sé undanþegin sköttum og verulega háværar kröfur hafa verið uppi um það að hún greiði skatta eins og aðrir. Það virðist ekki óeðlilegt séð út frá því að fyrirtæki í eigu krúnunnar standa í sjálfu sér miklu sterkar að vígi en önnur fyrirtæki vegna þess að eignir konungsfjölskyldunnar halda áfram að aukast. Ég ætla þó ekki að blanda því inn í þetta mál en vænti þess að því verði að þessari umræðu lokinni vísað til allshn. eða efh.- og viðskn. ef hæstv. forseti telur það skynsamlegra. Ég mun hlíta leiðbeiningum hæstv. forseta hvað það varðar.
    Ég hef ekki ætlað mér að flytja langt mál um frv. Ég tel að það sé fyrst og fremst eitt af því sem knýr menn til að leiða hugann að grundvallaratriðum. Ég vænti þess að Alþingi Íslendinga taki afstöðu til frv., þ.e. að það komist til nefndar og úr nefnd og hér verði greidd atkvæði um það hvort meiri hluti þingmanna er hlynntur þeirri breytingu sem hér er lögð til.