Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

97. fundur
Mánudaginn 09. mars 1992, kl. 14:42:00 (4096)

     Elín R. Líndal :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns geta þess að stjfrv. það sem hér er til umræðu um verndun og veiðar á villtum dýrum er um margt þarft og tímabært. Þrátt fyrir að svo sé er ljóst að ýmsar greinar frv. þurfa nánari umfjöllunar við til þess að viðunandi geti talist. Ég nefni fáein atriði. Í 8. gr. segir, með leyfi forseta:
    ,,Öllum íslenskum ríkisborgurum og mönnum með lögheimili hér á landi eru dýraveiðar heimilar í almenningum, á afréttum utan landareigna lögbýla, enda geti enginn sannað eignarrétt sinn til þeirra, . . .  ``
    Hér mætti orða skýrar og svo óyggjandi sé að allt land í eigu einstaklinga, félagasamtaka þeirra eða sveitarfélaga séu undanþegin veiðiheimild. Það er mikilvægt að þetta ákvæði sé sett fram með svo skýrum hætti að ekki valdi deilumálum.
    Í 9. gr. er fjallað um skotvopn, m.a. er minnst á að óheimilt sé að nota haglabyssur við fuglaveiðar með hlaupvídd stærri en nr. 12. Ég vil aðeins koma því að að í viðtölum mínum við veiðimenn eru þeir að velta fyrir sér þeim sjálfvirku byssum sem eru leyfðar hér á landi og einhverjir tugir eru af, að ástæða sé til að hafa eftirlit með því til hvers þær eru notaðar.
    Ein meginhugmynd í frv. er að koma á veiðieftirliti og að nokku veiðistjórnun gegnum sölu á veiðikortum. Hvað varðar fyrirhuguð veiðikort er ýmislegt óskýrt. Ég skil það svo að öllum sé skylt að kaupa veiðikort verði frv. að lögum. ,,Á veiðikorti skal getið nafns handhafa, svæðis sem kortið gildir á, gildistímabils, tegunda og fjölda dýra af hverri tegund sem viðkomandi hefur leyfi til að veiða.``
    Í þessari tilvitnun eru atriði sem vekja upp spurningar svo sem hvað kortið á að gilda á stórum svæðum og kannski landinu öllu í sumum tilfellum, þ.e. þeim hluta þess sem veiðar eru heimilar á. Hvað um gildistíma korts? Og hvar eiga hæfnisprófin að fara fram? Er fyrirhugað að stefna mönnum á einhver ákveðin svæði eða hvernig er það fyrirhugað? Ég nefndi það fyrr að ég skil frv. svo að öllum verði skylt að kaupa umrædd veiðikort. Ég get ekki fellt mig við þá hugmynd að landeigendum sé skylt að kaupa veiðileyfi í sínu eigin landi og hvet til þess að þetta atriði verði endurskoðað. En það er hins vegar ekki fráleitt að ætla landeigendum að fylla út veiðikortið og jafnvel umhvrn. að kostnaðarlausu.
    Það er ljóst að eigi 2. gr. frv. að ná fram er nauðsynlegt að skipulag sé haft á skráningu veiða í öllu landinu og í einkalöndum líka. Ég tek undir þau orð ráðherrans.
    Fyrirhuguð er gjaldtaka af þessum veiðikortum sem á að renna í sérstakan sjóð er nota skal til rannsókna á villtum dýrum. Ekki skal ég lasta það. Í 9. gr. eru talin upp áhöld og aðferðir sem óheimilt er að nota við veiða. En það er öllum ljóst, virðulegi forseti, að slík markmið svo og að allir veiðimenn hafi veiðikort nást ekki fram nema með virku eftirliti á veiðisvæðum. Slíkt hlýtur að verða gífurlega kostnaðarsamt. Ég sakna þess satt best að segja að hvergi í frv. skuli vera gerð tilraun til að meta þann kostnað sem vissulega er óumflýjanlegur eigi frv. sem lög að verða annað og meira en pappírsgagn.
    Það eina sem hér kemur fram varðandi kostnaðarþætti er að ríkissjóður kemur kostnaðinum við refaveiðar að mestu yfir á sveitarfélögin að vísu með ákvæði um endurgreiðslu að einum fjórða af kostnaði eftir einhverjum viðmiðunartöxtum. Ég vil í þessu sambandi leggja áherslu á að ríkisvaldið færi ekki verkefni til sveitarfélaganna, hvorki þetta né önnur, án þess að á móti komi auknir tekjumöguleikar.
    Í athugasemdum með frv. kemur fram að umhvrh. skuli setja eða geti sett reglugerðir, allt að tólf reglugerðum og frv. hljóðar upp á 22 greinar. Mér finnst þetta vera ansi langt gengið í að setja reglugerðir. Reyndar er á það bent að þetta fyrirkomulag um reglugerðir sé í samræmi við staðreyndir. Hlutirnir eru alltaf að breytast og það má til sanns vegar færa en ég held að þó mætti reyna að breyta lögunum. Ég tel það hljóta að verða farsælla að menn viti nánar um hvað er verið að samþykkja hverju sinni.
    Í lokin vil ég segja að tilgangur frv. horfir til betri vegar og að tilganginum verður ekki náð nema með umfangsmiklu og kostnaðarsömu eftirliti. Ég vil enn og aftur leggja áherslu á þennan eftirlitsþátt, a.m.k. þegar maður upplifir það, svo ég fari að segja einhverjar sögur að heiman, eins og hv. þm. Pálmi Jónsson, að þá finnst manni oft á haustin þegar veiðitímabil eru að hefjast að það sé heppni að ekki verða mannskaðar þegar veiðimenn flykkjast yfir. Ég tel það af hinu góða ef eftirlitið verður virkt og reglum fylgt eftir, því yrði fylgt eftir að frv. næði fram að ganga og menn gangi ekki um án þess að hafa veiðikort, að það skipti ekki máli hvort menn séu með þau eður ei vegna þess að enginn fylgist með því.
    Ég vil sem sagt hvetja til þess að reynt verði að koma á móts við það og fundin leið til að fjármagna þetta.