Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

97. fundur
Mánudaginn 09. mars 1992, kl. 15:50:00 (4102)

     Hrafnkell A. Jónsson :
    Virðulegi forseti. Vafalaust er rétt að þetta frv. sem er til umræðu er lagt fram af nauðsyn og horfir til bóta á mörgum sviðum. En eins og komið hefur fram í ræðum hv. þm. sem hér hafa rætt þetta mál þá eru gerðar við það ýmsar athugasemdir. Ég hygg að það megi rekja það til þess hvernig nefndin var skipuð sem þetta frv. vann. Þarna eru hinir mætustu menn að sjálfsögðu en ég tek eftir því að þarna eru til að mynda engir fulltrúar þeirra aðila sem fram að þessu hafa nytjað stóran hluta af þeim dýrastofnum sem verið er að setja reglur um, þ.e. ábúendur á jörðum og þeir sem hafa umráð yfir selalátrum og æðarvarpi. Mér þykir eðlilegt að þegar reglur af þessu tagi eru settar sé reynt að samræma sjónarmiðin, annars vegar hin vísindalegu og hins vegar sjónarmið þeirra sem nytja landsgæðin. Á þetta virðist mér að hafi skort og ég vænti þess að þetta frv. fari til umsagna þessara aðila áður en það verður afgreitt frá Alþingi.
    Af þessum ástæðum eru ýmis atriði í þessu frv. sem mér þykja skjóta skökku við og ég ætla að renna yfir það í fljótheitum eins og tíminn leyfir. Það segir hér í upphafi 12. gr., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Óheimilt er að eyðileggja greni. Ekki má láta hunda hlaupa á greni á grenjatímanum.``
    Ég er alinn upp í sveit fram yfir tvítugt og eins og tíðkast þar hef ég m.a. staðið í því að vinna greni og finna greni. Mér er algerlega fyrirmunað að sjá hvernig hægt er að framkvæma þetta nema þá því aðeins að banna eigi bændum að halda hunda og banna þeim að vinna greni á þann hátt sem aðstæður bjóða upp á hverju sinni. Það er auðvitað þannig að hver sá sem leggur stund á þetta eyðilegur ekki greni nema einhverjar mjög alvarlegar ástæður bjóði upp á það og þá vegna þess að með öðrum kosti er ekki hægt að vinna þau dýr sem verið er að ásælast. Ég skil ekki hvað er verið að fara með því að hundar megi ekki hlaupa á greni. Ég held að þetta sé vegna þess að þeir sem frv. sömdu hafi kannski ekki alveg gert sér grein fyrir þeim raunveruleika sem menn standa frammi fyrir þegar kemur að því að framkvæma þessa hluti. ( Gripið fram í: Það er mikilvægt að koma þeim skilaboðum á framfæri til allra hunda í landinu.) Jú, það er mikið atriði.
    Annað sem ég hnýt um og kannski það sem mér finnst helst ámælisvert er í 14. gr. frv. Þar segir í síðustu málsgreininni, með leyfi forseta: ,,Eignarréttur á landi þar sem hreindýr halda sig veitir ekki rétt til veiða á hreindýrum.``
    Með þessu móti virðist mér að verið sé að ganga þvert á eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og ég tel aldeilis óásættanlegt að frá hinu háa Alþingi verði afgreidd lög með þessu ákvæði. Satt best að segja er ýmislegt í þessu frv. sem bendir til þess að þeir sem það semja líti þannig á að þau landsgæði, þau hlunnindi sem fram til þessa hafa verið stuðningur við ábúendur jarða vítt og breitt um landið, séu hlunnindi sem þyki sjálfsagt að gera upptæk. Í mínum huga jaðrar þetta við að með þessu eigi að afnema eignarrétt og umráðarétt eigenda jarða og ábúenda. Ég vænti þess að við umfjöllun á frv. í nefnd verði þessu kippt út. Öðru trúi ég ekki.
    Það má segja að ákvæðin í 19. gr., þar sem menn mega ekki selja, kaupa, gefa né þiggja að gjöf egg, séu af sama toga spunnin. Þetta finnst mér satt best að segja alveg forkostuleg ákvæði en vonandi og væntanlega eru þau vel meint.
    Loks eru það ákvæði í 17. gr. sem ég hnýt um eins og fleiri. Mig langar aðeins til þess að vita það á hvaða stigi hvítabjörninn hættir að vera umhverfisvænn og verður hættulegur. Og með hvaða móti á sá sem honum mætir að skilja þarna á milli? Hvenær veit hann hvort hvítabjörninn ætlar að ráðast á hann? Og er það á einhverju sérstöku augnabliki sem honum ber að hafa samband við umhvrh.? Þetta vefst fyrir mér. Ég er alls ekki viss um það að ef ég mætti hvítabirni einhvers staðar treysti ég mér til þess að framfylgja þessu ákvæði sem þarna er.