Verðmæti gagnagrunns Svarts á hvítu

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 14:05:00 (4126)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Hér er spurt um veð sem fjmrn. tók í gagnagrunni eða hugbúnaði sem íslenski gagnagrunnurinn átti. Þetta mál er gamall kunningi hér í þingsölum. Um þetta var deilt heilmikið á sínum tíma í sambandi við skýrslu sem var rædd. Þar var fjallað fyrst og fremst um Siglósíld en inn í þá skýrslu blönduðust síðan umræður um Nútímann hf. og þar á meðal um fyrirtækið Svart á hvítu. Þetta mun hafa verið á vordögum 1989 en seint á árinu 1988 mun þáv. fjmrh. hafa tekið veð í þessum gagnagrunni. Ég tel að það sé ástæða til þess að benda á að það var gert með dálítið sérkennilegum hætti, annars vegar vegna þess að það var mjög óvenjulegt ef ekki einsdæmi að taka veð í hugbúnaði, eins og þarna var gert, hvað þá ófullgerðum og í öðru lagi vegna þess að veðið var í eigu annars aðila, því að krafa ríkisins var á hendur Svarts á hvítu en þar voru vissir aðilar ábyrgir fyrir skuldinni. Sú krafa var felld niður með því að tekið var veð í eign annars fyrirtækis, reyndar í eigu sömu aðila. Þetta er auðvitað aðfinnsluvert. Ríkisendurskoðun gagnrýndi þetta. Það kom mikil gagnrýni fram hér á hinu háa Alþingi og ég hygg að árið eftir, strax á árinu 1990, hafi Ríkisendurskoðun afskrifað þessa eign ríkissjóðs. Það gerðist síðan núna fyrir helgina að ríkissjóður keypti gagnagrunninn á uppboði á 100 þús. kr. Það komu ekki hærri boð. Auðvitað eru þessir peningar glataðir. Það er ljóst að það hefur ekki verið farið með skattfé eins og ætla mátti af þáv. ráðherra og þess vegna eru þessir fjármunir tapaðir. En ég bendi á að hugsanlega er hægt að bæta við þennan gagnagrunn og þá með því að gefa hann t.d. Háskóla Íslands.