Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga

99. fundur
Miðvikudaginn 11. mars 1992, kl. 13:50:00 (4193)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Eins og hv. þm. veit þá flytur hæstv. menntmrh. þetta frv., enda heyrir þetta mál undir hann. Eftir því sem ég best veit hefur málið verið til umræðu í nefnd, reyndar kom það fram hjá hv. þm., var til umfjöllunar þar og það er auðvitað í nefndum sem hv. þm. geta fengið upplýsingar um stöðu mála. Ég hef því miður ekki á reiðum höndum þær upplýsingar sem um er beðið, enda að sjálfsögðu ekki hægt að búast við því. Það kom fram hjá hv. þm. bæði fyrr og nú að nefndin hefði óskað eftir upplýsingum frá fjmrn. Það eina sem ég get gert er að ganga eftir því að þær upplýsingar berist nefndinni. En við 3. umr. málsins tel ég að ekki sé eðlilegt að beðið sé um svo nákvæmar upplýsingar um mál sem í raun og veru heyrir undir menntmrn. en ekki fjmrn.