Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

99. fundur
Miðvikudaginn 11. mars 1992, kl. 14:36:00 (4206)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það er afar auðvelt að taka af öll tvímæli í þessu máli. Hér er vissulega um stjfrv. að ræða sem var afgreitt með venjulegum hætti, fyrst í ríkisstjórn og síðan í þingflokkum. En auðvitað er hér líka um að ræða, og það hlýtur hv. þm. að vera ljóst, mál sem ekki fer endilega eftir pólitískum línum. Í þessu frv. eru fjölmörg álitamál sem menn hafa skoðanir á, skoðanir úr öllum áttum sem ekkert koma stjórnmálum við. Og mér kemur það satt að segja afskaplega mikið á óvart að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, með þá þingreynslu sem hún hefur, skuli vera undrandi á því að hér sé ekki bara hallelúja yfir öllum ákvæðum þessa frv. Mér er það fyllilega ljóst að þau orka tvímælis ýmis þeirra. En að hér sé einhver pólitískur ágreiningur á ferðinni er fráleitt --- og ég hygg nú að þau ummæli sem hún vitnaði til hjá hæstv. formanni umhvn. hafi verið mælt í nokkru fljótræði. Og raunar er mér skylt að geta þess að mörg þau ákvæði sem hv. þm. hafa verið að gera athugasemdir við, t.d. hv. síðasti ræðumaður, eru þegar í gildandi lögum. Það er ekki verið að breyta neinu, það er verið að færa saman. Þau atriði sum sem hann gerði athugasemdir við eru lög landsins nú. Auðvitað geta menn haft skoðanir á því að þau eigi að vera öðruvísi en þetta tel ég nauðsynlegt að komi fram. Auðvitað er hér um stjfrv. að ræða. Það bíður hins vegar sinna örlaga í þeirri nefnd sem málið fær til afgreiðslu og hér á hinu háa Alþingi á því hvaða skoðanir menn hafa á málinu. En vissulega er þetta stjfrv.