Auglýsingakostnaður í dagblöðum og sjónvarpi

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 11:08:00 (4237)

     Fyrirspyrjandi (Ólafur Ragnar Grímsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það er rangt hjá hæstv. fjmrh. að hann hafi ekki getað svarað fsp. minni á þeim tíma sem honum var ætlað. Fsp. minni hefði mátt svara á rúmri mínútu þannig að hæstv. ráðherra hefði ekki einu sinni þurft allan þann tíma sem honum var ætlað til þess að svara fsp. Svarið hefði getað verið á þessa leið: Morgunblaðið 7,8 millj., DV 5,4 millj., Tíminn rúmar 3 millj., Þjóðviljinn 3,2 millj., Alþýðublaðið, ef ég fer rétt með, einhvers staðar í kringum 2 millj., Dagur, ég er nú ekki búinn að leggja það saman enn þá, Ríkissjónvarpið 3,9 millj., Stöð 2 í kringum 3 millj. Búið. Þetta var svarið við fsp. sem ég bað um þannig að það er algerlega út í hött hjá hæstv. ráðherra að hann hefði ekki getað svarað fsp. á þeim tíma. Hann átti meira að segja nokkrar mínútur eftir.
    En í stað þess að að svara fsp. með þinglegum hætti dreifir ráðherra á borð þingmanna fjölmörgum blaðsíðum með miklu talnaflóði og hefur ekki einu sinni fyrir því að leggja saman þær tölur sem spurt er um, hvað þá heldur að hann gerði það í ræðustólnum og bætir svo við ýmsu upplýsingaefni sem ég var ekkert að amast við að væri gert, þvert á móti. Ég fagna því. En það sýnir bara sérkennileg vinnubrögð í þessu. Og af því að hæstv. fjmrh. var nú að setja sig á móralskan háan hest áðan þá vitum við auðvitað allir af hverju hann svaraði ekki fsp. með þinglegum hætti og kaus að fara í þennan leiðangur um salinn með dreifingu gagna sem fara ekki inn í þingtíðindin. Það er bara til þess að geta haldið áfram þessu flokkspólitíska skaki Sjálfstfl. í málinu. Hann var ekki að svara sem fjmrh. Hann var að reyna að stunda áróðursstríð sem varaformaður Sjálfstfl. Það var það sem hann var að gera. Hann ætti nú að spara sér að setja sig í mórölsk sæti eins og ég mun koma að seinna í dag. Maðurinn sem hafði nóga peninga í fjmrn. til þess að kaupa sér bíl þó ekki væri gert ráð fyrir því í fjárlögum, sami hæstv. fjmrh. sem gerði mikið úr því áðan að það hefðu ekki verið peningar í fjárlögum til þess að hvetja menn til að standa skil á virðisaukaskattinum. Í fjárlögunum voru heldur ekki peningar til að kaupa nýjan bíl fyrir ráðherrann en hann gerði það samt. Ýmislegt má þannig segja um það hvað hæstv. fjmrh. taldi sér fært að gera og hvað hann taldi sér ekki fært að gera. Það er því alveg ljóst að fyrirspurn mín var borin fram með þeim hætti að hæstv. fjmrh. gat hæglega svarað henni ef hann vildi á þeim tíma sem honum var ætlað.
    Og ég vil einnig taka undir það sem hv. síðasti ræðumaður, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, sagði að auðvitað er það í verkahring forseta að tryggja að fyrirspurnum sé svarað með þinglegum og fullnægjandi hætti alveg eins og forsetar hafa tekið að sér á undanförnum árum að ganga úr skugga um það að orðalag fyrirspurna séu með þinglegum eða eðlilegum hætti. Það hefur komi fyrir hvað eftir annað á undanförnum árum að forsetar hafa bent þingmönnum á að orða fyrirspurnir sínar með öðrum hætti til þess að gera þær þinglegar og eðlilegar. Á sama hátt er það í verkahring forseta að stuðla að því að ráðherrar svari fyrirspurnum með þinglegum eða eðlilegum hætti. Sú braut sem hæstv. fjmrh. hefur farið inn á sé í sjálfu sér ekki þess eðlis að það eigi að gera mikið veður út af því að hann veiti meiri upplýsingar en minni, geri ég enga athugasemd við það. En það er hins vegar óeðlilegt að í munnlegu svari sem fer inn í þingtíðindin svari ekki hann þeirri fyrirspurn sem borin er fram.