Svört atvinnustarfsemi

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 11:48:00 (4255)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil í fyrsta lagi benda á að þessi tala, 23 milljarðar, er veltutala, heildarveltutalan þegar framreiknað er frá skýrslunni. Ég vek athygli á því þannig að menn dragi ekki rangar ályktanir af þessari tölu.
    Ég vil að öðru leyti, virðulegi forseti, þakka fyrir þessa umræðu sem ég held að sé alveg tímabær og reyndar á að vera þannig að umræða um skattamál, skattsvik, svarta atvinnustarfsemi, skipti okkur öll afar miklu máli í þjóðfélagi okkar eins og öðrum að um jafnræði sé að ræða á milli þegnanna. Sumir eiga ekki að sleppa við að greiða til þjóðfélagsins þar sem aðrir þurfa þá að standa undir í stærri stíl.

    Upplýsingarnar voru að sjálfsögðu gamlar. Það var verið að vitna til gamallar skýrslu en aðrar upplýsingar sem komu fram í mínu máli voru ekki nema nokkurra mínútna gamlar því þær komu fram í umræðum um síðustu fyrirspurn og vona ég að mér fyrirgefist að hafa vitnað til þeirra því að málin eru svo skyld innbyrðis.
    Varðandi byggingarþjónustuna vil ég taka fram að sé um að ræða vinnu á byggingarstað og t.d. vegna viðhalds á húsum er heimilt að fá að sækja um endurgreiðslu á virðisaukaskatti, sem greiddur hefur verið, og ég veit að fjölmargir gera það því ríkissjóður þarf að endurgreiða talsvert háar upphæðir þess vegna. Þetta hefur orðið til þess að okkar áliti að um betri skattskil hefur verið að ræða.
    Reyndar ber á góma sama sjónarmiðið og þegar rætt er um virðisaukaskatt, að meiri líkur til þess að hann skili sér betur af því að um innskatt og útskatt er að ræða og þannig er hægt að reka keðjuna betur en oftast áður.
    Ég held samt sem áður hljótum við ávallt að standa frammi fyrir ákveðnum vanda í þessum efnum og hann er sá að á meðan undanþágur eru í skattkerfi okkar þá finnst fólki hreinlega vera siðlegt að svíkja undan skatti af því að einhverjir aðrir njóti fríðindanna, þeir sem kaupa tilteknar vörur.
    Ég hygg að þótt við séum ekki sammála um margt, ég og hv. 8. þm. Reykn. fyrrv. fjmrh., þá geti hann borið vitni um það líka og hafi þurft að taka á móti fjölmörgum aðilum sem hafa verið að kvarta undan þessu misræmi. Mín niðurstaða er sú að það sé hollast og best að skattkerfi sé sem með minnstum undanþágum, helst engum, t.d. virðisaukaskatturinn. Á móti þarf þá að koma að hlutfallið lækki enda er það í þeim anda sem kom fram í skýrslu Alberts Guðmundssonar á sínum tíma að það sem skipti máli væri að hafa sem fæstar undanþágur og skatthlutföllin sem lægst. Ég hygg að ekki sé mikill ágreiningur meðal þingmanna um það að að þessu þurfi að stefna þótt við vitum að á brattann sé að sækja því að ýmsir sterkir þrýstihópar í þjóðfélaginu verja auðvitað skattleysi á vissum ákveðnum sviðum. Oft má færa veigamikil rök fyrir því að viss starfsemi skuli vera undanþæg þótt að mínu áliti sé heppilegra að til slíkrar starfsemi sé veitt fjármunum beint úr ríkissjóði.
    Ég vænti þess svo, virðulegi forseti, að þessi umræða hafi orðið að tilætluðu gagni og á svo von á því að frekari umræður verði áfram í dag þegar við tökum aftur til við þetta mál þegar þáltill. hv. þm. Péturs Sigurðssonar verður tekin fyrir og rædd.