Fullorðinsfræðsla

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 12:11:00 (4265)


     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. þessi svör. Ég vil taka fram að mér láðist að geta þess að þessi fsp. sem ég kynnti er frá Guðrúnu J. Halldórsdóttur, sem hér sat um skeið sem varamaður.
    Ég fagna því að von er á frv. um fullorðinsfræðslu og ég vona svo sannarlega að það fái skjótan framgang í þinginu, en ég held að mikil þörf sé á því að huga betur að fræðsluvarpinu og því hvernig nýta megi sjónvarp til kennslu. Ég held að það geti nýst á öllum skólastigum og ekki síst er það mjög mikilvægt fyrir fullorðinsfræðslu á landsbyggðinni að nýta sjónvarpið til kennslu. Við erum einfaldlega orðin langt á eftir tímanum hvað þessi mál varðar og ég vil nú leggja fast að hæstv. menntmrh. að skoða þetta mál betur og leita í hirslum ríkissjóðs hvort ekki finnist þar einhverjar matarholur sem hægt væri að nýta til þessarar starfsemi sem er mjög nauðsynleg og áreiðanlega vel þegin af meginþorra landsmanna.