Losun eiturefna í norðanvert Atlantshaf

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 13:24:00 (4300)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. umhvrh. og 17. þm. Reykv. fyrir þátttöku þeirra og svör í þessari umræðu. Eins og kom fram hjá hæstv. umhvrh. þá eru þetta mjög alvarleg tíðindi sem hér hafa verið staðfest. Ég vil minna á það að fiskimenn í Eystrasalti hafa hvað eftir annað fengið að finna fyrir þeim eiturefnum sem kastað var í sjó, en að vísu er þar um mun minna dýpi að ræða en hér í Atlantshafinu. Ég vona svo sannarlega að þær upplýsingar reynist réttar að þessi efni verði svo til skaðlaus þegar þau komast út í vatn en það er reyndar umdeilt samkvæmt þeim umræðum sem hafa farið fram um slysin við Borgundarhólm. Því er haldið fram að þarna geti líka myndast sprengihætta, einhvers konar loftbólur sem geti sprungið.
    Þá var það ekki síður alvarlegt sem fram kom hjá hv. 17. þm. Reykv. um geislamengun í norðurhöfum. Ég ítreka enn að þetta eru afar alvarleg tíðindi fyrir okkur og mjög vert að afla allra upplýsinga um hvað gerðist í Norður-Íshafinu þar sem Sovétmenn virðast hafa kastað ýmiss konar kjarnorkuúrgangi sem getur átt eftir að hafa mjög skaðleg áhrif því eins og þingmenn eflaust vita þá eyðist geislavirkni á mjög löngum tíma, misjafnlega löngum eftir því hvaða efni eiga í hlut og allt getur þetta skaðað okkur og framtíð okkar hér á Íslandi. Ég vil hvetja umhvrh. og skora á hann að fylgjast mjög grannt með þessum málum, afla allra hugsanlegra upplýsinga og veita þinginu þær eftir því sem þær berast.