Endurskoðun laga um stjórn fiskveiða

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 13:49:00 (4309)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda að hreyfa þessu máli. Það er enginn vafi á því að hæstv. ríkisstjórn hefur valið afar óheppilega leið í sínum vinnubrögðum í þessum efnum þar sem er hinn tvíhöfða bastarður, endurskoðunarnefndin, sem með þetta fer. Sjútvn. Alþingis hefur séð sig knúna til að skrifa þeirri nefnd til að grennslast fyrir um hvort hún sé á lífi og hvað líði starfi hennar, það er allt sambandið sem er þar á milli.
    Varðandi vanda sjávarútvegsins þá er svarið skýrt. Það kom hér áðan, vandi sjávarúrvegins er í nefnd. Vandi þessarar undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinar, sem sjútvrh. sjálfur hefur upplýst að sé á gjaldþrotabraut, er í nefnd. Og það fer vel á því að annar af tveimur formönnum nefndarinnar, þessarar tvíhöfða nefndar, sé aðstoðarmaður hæstv. utanrrh., sem er eins og þjóðin veit sérfræðingur í gjaldþrotum.