Endurskoðun laga um stjórn fiskveiða

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 14:02:00 (4316)


     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu efni. Það sem mig langar að segja er að það er alltaf að koma betur og betur í ljós að sú leið sem hæstv. ríkisstjórn valdi til að fara í endurskoðun á fiskveiðistefnunni er röng. Hún kemur til með að valda verulegum erfiðleikum við endurskoðunina vegna þess að ekki koma allir aðilar í þjóðfélaginu, sem um eiga að véla, nægilega að þeirri endurskoðun sem fer fram. Það hefur líka komið í ljós veikleiki í þessari ríkisstjórn að því leyti að sjútvrh. ríkisstjórnarinnar virðist hafa aðrar skoðanir á málunum en eru ofan á í ríkisstjórninni. Og nú hefur vanda sjávarútvegsins, þessum tímabundna, verið vísað í þessa nefnd til úrlausnar og virðist það eiga að felast í því að geyma lausnirnar og láta (Forseti hringir.) eitthvað gerast eftir töluvert langan tíma sem þýðir auðvitað mjög alvarlegar afleiðingar fyrir sjávarútveginn.