Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 16:20:00 (4412)

     Gunnlaugur Stefánsson :
    Herra forseti. Það hafa orðið um frv. allmiklar umræður. Sl. miðvikudag var þetta mál rætt hér af miklu kappi. Ég hafði þá fjarvistarleyfi sem því miður skilaði sér ekki til forseta en um það urðu einnig nokkrar umræður að ég var fjarverandi í þeim umræðum. Ég hef lesið yfir allar umræðurnar og kynnt mér þær. Þar kennir náttúrlega margra grasa sem ég ætla ekki að fara nákvæmlega út í hér.
    Í upphafi langar mig til að segja, í tilefni af þeim ummælum hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur að ég hafi gefið það fyllilega í skyn hér í umræðunni að þetta mál kæmi aldrei frá nefnd, að það voru ekki mín orð. Ég gaf aldrei í skyn að þetta mál kæmi aldrei frá nefnd. Ég sagði eigi að síður að ef frv. yrði til þess að draga svo úr minkaveiðum að þær legðust meira og minna af, kannski þar sem þeirra er helst þörf, þá væri betur heima setið en af stað farið. En það er ekki þar með sagt að umhvn. þingsins taki ekki þetta mál til gaumgæfilegrar skoðunar og geri á því endurbætur og taki tillit til þeirra fjölmörgu sjónarmiða sem hér hafa komið fram í umræðunum svo að um málið geti náðst víðtæk samstaða hér í þinginu ef það verður að lögum í fyllingu tímans. Þetta vildi ég taka skýrt fram vegna þess að orð mín virðast einhverjum misskilningi hafa valdið og menn talið að ásetningur minn væri að svæfa málið, ef þannig má taka til orða, í nefndinni. Þvert á móti tel ég að umhvn. bíði mikill starfi við það að fara í gegnum málið og leita samráðs við þá fjölmörgu aðila sem koma að þessu máli. Auðvitað kann það að taka nokkurn tíma. Þetta er viðamikið mál og stórt í sniðum og snertir mjög víðtæka hagsmuni. Þegar svo ber undir þarf náttúrlega að leita samráðs mjög víða vegna þess að um málið þarf að vera mjög góð samstaða. Það snertir ekki einvörðungu náttúrulíf í landinu, heldur snertir það mannlífið líka og þá umgengnishætti sem við viljum temja okkur hvert við annað og við náttúruna.
    Ég gerði sannarlega nokkrar athugasemdir við frv. og taldi rétt að þær kæmu fram við 1. umr. þannig að enginn færi í grafgötur um það hver afstaða mín til nokkurra ákvæða frv. væri, strax í upphafi. Ég ætla ekki að endurtaka það hér en vil samt ítreka að mér finnst heildarsvipurinn því miður bera vott um aukið skrifræði, ofstjórn og miðstýringu. Ég er ekki viss um að það sé sú stefna sem staðfesta eigi nú á tímum. Ég vakti einnig athygli á því að aukið eftirlit kostar fé og það gæti haft erfiðleika í för með sér að framkvæma þessi lög eins og frv. birtist í þinginu. Ég efaðist um að það gengi upp í framkvæmd. Ef það á að ganga upp í framkvæmd er ljóst að stórauka þarf allt eftirlit með því að lögin verði haldin, og það kostar fé.     Ég er ekki viss um að rétta leiðin til að efla rannsóknir á náttúrulífi landsins sé að koma á gjaldtöku. Ég held að það sé líka leið sem beri að skoða, og hægt er að fara þá leið án þess að um hana verði sett lög, að hvetja til almennrar og góðrar samvinnu við veiðimenn um að þeir taki þátt í verkefni, skammtímaverkefni, er standi yfir í tiltekinn tíma um að skila upplýsingum um sína veiði og hvernig að veiðunum er staðið. Mér er kunnugt um að fjölmargir veiðimenn skrá sínar veiðar mjög nákvæmlega og halda mjög nákvæmt bókhald yfir það hvað þeir veiða og hvar þeir veiða. Ég er viss um að fjölmargir veiðimenn hefðu ánægju af að taka þátt í samvinnu við umhvrn. um að miðla slíkum upplýsingum. Mér hefur verið tjáð að slíkt samstarf hafi átt sér stað að ég held árið 1967 eða 1968 varðandi veiðar á rjúpunni. Þá hafi einmitt borist upplýsingar frá veiðimönnum sem hafi verið mjög gagnlegar og hafi eflt allar rannsóknir á rjúpustofninum. Ég er ekki frá því að hægt væri að fara slíka leið núna og um það þyrfti ekki að setja lög, ef við erum að hugsa um að efla rannsóknir á fuglalífinu í landinu.
    Ég ítreka að ég sagði ekkert í umræðunum á mánudag í síðustu viku í fljótræði, eins og hæstv. umhvrh. taldi að ég hefði gert. Hvert orð sem ég sagði var undirbúið af minni hálfu og við þau stend ég. En aftur á móti má spyrja hvort frv. hafi verið sett fram í einhvers konar fljótræði. Spurning er hvort ekki hefði mátt undirbúa það betur með því að skapa víðtækari samstöðu um málið strax í upphafi og hvort við ættum ekki fremur að standa þannig að málatilbúnaði í umhverfismálum í framtíðinni, að láta fljótræði ekki ráða ferðinni.